Vísa deilunni til sáttasemjara og færast nær verkfalli

Starfsgreinasambandið, VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna hafa vísað kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara. Þar með færist deilan nær verkföllum, en aðeins er heimilt að boða verkfall ef formlegar viðræður hjá sáttasemjara fara í strand.

„Á meðan atvinnurekendur hlusta ekki á raddir tugþúsunda einstaklinga sem fyrir þá starfa í samningaviðræðum eins og þeim sem staðið hafa yfir síðustu vikur verður að leita annarra leiða. Því hafa stéttarfélögin tekið þá ákvörðun að vísa viðræðum VR/LÍV og SGS við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR, Eiðs Stefánssonar formanns samninganefndar LÍV og Vilhjálms Birgissonar, formanns SGS.

Það er mat þeirra að íslenskt atvinnulíf standi styrkum fótum og staða fyrirtækja hafi sjaldan verið betri. Hvert fyrirtækið á fætur öðru hafi skilað methagnaði á síðasta ári og allt bendi til að árið í ár verði ekki síðra. Útflutningsgreinarnar standi afar vel. Sjávarútvegurinn hafi skilað tugmilljarða króna hagnaði í fyrra og ferðaþjónustan hefi náð flugi á nýjan leik eftir Covid.

„Vinnuframlag launafólks, þekking þess og kunnátta liggja að baki þessum gríðarlega góða árangri og launafólk á kröfu á umbun í samræmi við það. Um það snúast kjarasamningar – réttláta skiptingu,“ segir í yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingunni segir að VR, SGS og LÍV hafi staðið þétt saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins síðustu vikur og freistað þess að ná nýjum samningi. Fundað hafi verið stíft en nú blasi við að of mikið ber í milli. Samningur sé ekki í sjónmáli og engar forsendur til að halda viðræðum áfram að óbreyttu.

„Hrina kostnaðarhækkana skellur nú á launafólki; húsaleiga hefur hækkað, vextir, bensín, matvara og þjónustugjöld svo fátt eitt sé nefnt. Stéttarfélögin krefjast kaupmáttaraukningar launa á samningstímanum en atvinnurekendur segja ekkert svigrúm til þess,“ segja þeir félagar. „Stéttarfélögin kalla eftir markvissum aðgerðum til að ná niður verðbólgu en atvinnurekendur hafa ekkert fram að færa. Það er holur hljómur í málflutningi atvinnurekenda þegar þeir halda því fram að launahækkanir keyri upp verðbólguna – það er búið að sýna fram á að svo sé ekki.“

Með vísun til sáttasemjara færist deilan nær verkföllum, en forsenda þeirra er að formlegar viðræður þar hafi rekið í strand.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí