83,5% bókatitla prentaðir erlendis

Atvinnulíf 6. des 2022

Bókasamband Íslands hefur kannað prentstað íslenskra bóka sem getið er í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda 2022. Fjöldi titla sem prentaðir eru innanlands eru 109 og fækkar um 3 frá fyrra ári. Hlutfall bókatitla sem eru prentaðir innanlands í ár er 16,5% en var 16,6% árið 2021. Fjöldi titla sem prentaður er erlendis er 551 eða 83,5% en var 563 eða 83,4% í fyrra.

Heildarfjöldi prentaðra bókatitla er 660 í Bókatíðindunum í ár en var 675 árið 2021.

Skoðað var hvert hlutfall prentunar innanlands og erlendis er eftir flokkum.

  • Fræðibækur, bækur almenns efnis og um listir eru alls 141. 42 titlar (30%) voru prentaðir á Íslandi og 99 (70%) erlendis.
  • Skáldverk, íslensk og þýdd, eru 234. 42 titlar (18%) voru prentaðir á Íslandi og 192 (82%) erlendis.
  • Saga, ættfræði, ævisögur, handbækur, matur og drykkur eru alls 58 titlar. 8 þeirra (14%) voru prentaðir á Íslandi og 50 (86%) prentaðir erlendis.
  • Barnabækur, íslenskar og þýddar, eru alls 220. 10 titlar (5%) voru prentaðir á Íslandi og 210 (95%) voru prentaðir erlendis.

Nokkrar áhyggjur vekur sú þróun sem átt hefur sér stað undanfarinn áratug eða svo, en árið 2009 voru 79,6% bókatitla prentaðir á Íslandi skv. sömu mælingu. Rétt er að geta þess að 2009 var hlutfallið með hærra lagi en hefði verið rúmur helmingur áður. Áratug síðar, árið 2019, hafði hlutfallið lækkað niður í 21,7% og hefur sú þróun haldið áfram og stendur nú í 16,5%.

Frétt af vef Alþýðusambandsins.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí