Brynja Hrönn Bjarnadóttir, 65 ára öryrki, fékk tilkynningu frá Ölmu leigufélagi um 78 þús. kr. hækkun á húsaleigu fyrir skömmu. Þetta er 30% hækkun. Brynja réð vart við að borga 250 þús. kr. leigu áður og ræður alls ekki við 325 þús. kr. Hún lendir því á götunni eftir jólin. Alma skilaði 12,4 milljarða króna hagnaði í fyrra og hagnaðurinn á þessu ári verður ólíklega minni. Alma er í eigu systkinanna sem eiga Matfugl, Ali og fleiri fyrirtæki. Þau eru meðal auðugustu fjölskyldna á Íslandi.
Brynja sagðist ráðalaus í samtali við Rauða borðið. Henni hafi verið bent á að hægt sé að fá íbúðir á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll hjá Heimstaden fyrir um 240 þús. kr. Hún yrði þá að flytja úr borginni, sem æ færri öryrkjar eða láglaunafólk ræður við að búa innan. Annar kostur væri að sækja um í Félagsbústöðum þar sem er langur biðlisti og umsækjendur þurfa að uppfylla ströng skilyrði, ekki aðeins vera fátækir heldur vera í reynd niðurbrotnir á öllum sviðum.
Brynja sagist hafa leigt hjá Ölmu í fjögur ár og ekki hafa yfir miklu að kvarta. Hún fái til dæmis að hafa hjá sér hund og kött, en það er algengt að leigusalar banni leigjendum að hafa gæludýr. Leigan hafi hækkað en ekki jafn svívirðilega og nú. Þessi hækkun er langt umfram það sem Brynja ræður við.
Brynja ætlar að halda jól með dóttur sinni sem kemur frá Bandaríkjunum yfir jólin. Eftir jólin er hún á götunni.
Hinum megin á þessari sögu eru systkinin sem eiga Ölmu í gegnum eignarhaldsfélagið Langasjó. Langisjór á mörg fyrirtæki sem selja vörur undir þekktum vörumerkjum. Hér má sjá dæmi um þekkt vörumerki systkinanna:
Hagnaður Ölmu í fyrra var 12,4 milljarðar króna. Langisjór hagnaðist um 13,7 milljarða króna í fyrra. Eigið fé félagsins er 23,0 milljarðar króna.
Rótin að auð fjölskyldunnar má rekja til Mata heildsölunnar sem Gísli V. Jónsson, faðir systkinanna stofnaði. En ekki síst til innflutningshafta á kjúklingum, en í skjóli þeirra hafa systkinin selt landsmönnum kjúklinga undir merki Matfugls á þrefalt hærra verði en neytendur borga í nágrannalöndunum. Eftir kaupin á Ali, áður Síld & fisk, bættist sala á svínakjöti við, en þar njóta systkinin sömu verndar stjórnvalda við að selja kjöt á þreföldu verði á við það sem tíðkast í nágrannalöndunum.
Þann auð sem hefur orðið til með þessum hætti hafa systkinin notað til kaupa á öðrum fyrirtækjum og hlutabréfabrasks. Þau voru meðal þeirra sem keyptu stóra hluti í Kaupþingi skömmu fyrir Hrun með láni frá bankanum sjálfum. Félagið utan um þau kaup fór á hausinn og fannst ekki króna upp í 5,7 milljarða króna skuldir.
Systkinin eru stærstu einkafjárfestarnir í fasteignafélögunum í Kauphöllinni: Eik, Reitum og Reginn.
Stærsti eigandi Langasjávar ehf. er Möltufélagið Coldrock Investments Limited. Coldrock á 57 prósenta hlut í Langasjó á móti ríflega 10 prósenta hlutum systkinanna fjögurra. Félög systkinanna á Möltu voru meðal annars nefnd í þekktum skattaskjólsleka, Paradise Papers, sem alþjóðlegu blaðamannasamtökin ICIJ opinberuðu fyrir nokkrum árum.
Þrjú af systkinunum voru meðal 1% tekjuhæsta fólksins á skrá Stundarinnar í sumar, yfir tekjur ársins 2021.
Nafn | tekjur 2021 | á mánuði á núvirði |
---|---|---|
Eggert Árni Gíslason | 86,3 m.kr. | 8,0 m.kr. |
Guðný Edda Gísladóttir | 80,5 m.kr. | 7,5 m.kr. |
Halldór Páll Gíslason | 74,9 m.kr. | 7,0 m.kr. |
Gunnar Þór Gíslason er ekki á listanum, en reikna má með að tekjur hans sé nærri þessu.
Tekjur Brynju Hrannar, sem systkinin ætla að ná 75 þús. kr. aukalega af, eru auðvitað miklu lægri en þetta. Hún er öryrki og segist ekki hafa haft efni á leigunni hingað til, hafi oft ekki átt fyrir mat síðustu daga mánaðarins.
Kostnaður Ölmu vegna útleigu íbúðarinnar, greiðslu rekstrar- og fjármagnskostnaðar er miklu lægri en þær 325 þús. kr. sem systkinin vilja fá í leigu. Eins og aðrir okrarar á leigumarkaði vilja þau að fátækar fjölskyldur greiði allan kostnað sinn vegna íbúðarinnar og umtalsverðan hagnað til viðbótar, líklega um 125 þús. kr. á mánuði eða um 1,5 m.kr. á ári í þessu tilfelli. Þessu til viðbótar fá systkinin líklega um 8 m.kr. hagnað á þessu ári vegna hækkunar á verði íbúðarinnar.
Leigjendasamtökin og verkalýðshreyfingin hefur margsinnis bent stjórnvöldum á einmitt þetta, hvernig auðfólk níðist á fátæku fólki á leigumarkaði. Ríkisstjórnin hefur ekkert gert. Hún lofaði reyndar að setja á leigubremsu í tengslum við lífskjarasamninginn 2019, en sveik það. Leiguþak og leigubremsa hefur verið sett í flestum nágrannalöndum okkar, einmitt til að vernda fólk eins og Brynju fyrir fólki eins og systkinunum í Mata. Í öðrum löndum er litið á þetta sem níðingsverk, eins og gert er hér. En í öðrum löndum reyna stjórnvöld að standa með þeim sem níðst er á. Hérlendis standa stjórnvöld með níðingunum.
Heyra má og sjá viðtalið við Brynju Hrönn í spilaranum hér að ofan.