Borgin hefur engar upplýsingar um fjölda leigjenda

Reykjavíkurborg segist ekki búa yfir upplýsingum um það hve mikill fjöldi íbúða í Reykjavík er í útleigu né hve mikill fjöldi þeirra er ósamþykktur. Þetta kom fram í svari frá umhverfis- og skipulagssviði við fyrirspurn borgarfulltrúa Sósíalista.

Fyrirspurnin var lögð fram 30. nóvember síðastliðinn í Umhverfis- og skipulagsráði. Þar var óskað eftir upplýsingum um hvernig íbúðir í Reykjavík skiptist í eigna- og leiguíbúðir og hvernig eignarhaldi á leiguíbúðunum sé háttað. Jafnframt var óskað eftir hversu hátt hlutfall leiguíbúða væri í eigu leigufélaga eða leigusala. Þar að auki var óskað eftir fjölda ósamþykktra íbúða sem vitað væri eða grunur væri um að búið væri í.

Í dag barst svar frá borginni en í því kom fram að Reykjavíkurborg hafi ekki upplýsingar um fjölda íbúða í útleigu né hverjir væru eigendur þeirra. Ekki lægu heldur fyrir tölulegar upplýsingar um hve mikill fjöldi íbúða væri ósamþykktur. Það er því ljóst að borgin hefur ekki verið að fylgjast náið með leigumarkaðnum í borginni, né hversu umfangsmikill hann er.

Svona birtist svarið í heild sinni: „Reykjavíkurborg hefur ekki upplýsingar um hve mikill fjöldi íbúða í Reykjavík er í útleigu né heldur hverjir eru eigendur þess. Upplýsingar um eignahald fasteigna og þinglýsing leigusamninga er skráð í þinglýsingabókum sýslumanns höfuðborgarsvæðisins á hverja eign fyrir sig, en eins og fram kemur skipta þær tugþúsundum. Ekki heldur liggja fyrirtölulegar upplýsingar hjá Reykjavíkurborg um hve mikill fjöldi íbúða er ósamþykktur.“

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí