Bylgja verkfalla í Bretlandi

Verkafólk í Bretlandi sér fram á stórfellda hækkun verðbólgu eins og mörg fleiri lönd. Til viðbótar við hækkanir vegna stríðsins í Úkraínu koma vandamál vegna úrgöngunnar úr ESB og almennrar óstjórnar ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Almenningur sér fram á erfiðan vetur með stórfelldum hækkunum á nauðsynjavörum og margföldun á orkukostnaði heimilanna. Og almenningur grípur til varna. Verkfallsbylgja gengur nú yfir á Bretlandi því verkafólk er að berjast fyrir því að hafa í sig og á fyrir sig og fjölskyldur sínar.

Í fyrsta sinn í yfir 100 ára hafa hjúkrunarfræðingar boðað verkföll og munu þau hefjast fyrir jól. Ríkisstjórnin einfaldlega neitaði að ræða við verkalýðsfélag hjúkrunarfræðinga um launaleiðréttingar, buðu launahækkanir sem hefðu leitt til þess að kjörin hefðu verið um 20% lægri en árið 2020 í raun.

Pat Cullen, leiðtogi félagsins bendir á að félagsmenn sínir hafi unnið myrkranna á milli í Cóvid bylgjunni, barist við undirmönnun og uppgjöf starfsfólks vegna vinnuálags og horfi nú fram á stórfellda lækkun launa. Á sama tíma neyðast heilbrigðisstofnanir til að leita til vinnumiðlana vegna starfsmannaskorts sem sér rándýrt fyrir heilbrigðiskerfið. Hjúkrunarfræðingar séu einfaldlega búnir að fá nóg.

Á sama tíma komi ríkisstjórnin fram með fáránlegar samlíkingar eins og þegar Nadhim Zahawi, formaður þingflokks Íhaldsflokksins krafðist þess að verkfallinu yrði aflýst og hjúkrunarfræðingar létu af launakröfum sínum „til að senda Pútín“ skilaboð. Féllu ummælin skiljanlega í grýttan jarðveg.

Cullen sagði að hér væri ríkisstjórnin komin alveg á botninn, að nota stríðið í Úkraínu sem réttlætingu fyrir því að lækka laun starfsfólks. Félög starfsmanna í verktakafyrirtækjum sem vinna í heilbrigðiskerfinu hafa líka boðað verkföll og það hafa líka lágt launaðir starfsmenn sem vinna við félagsþjónustu sveitarfélaga.

Verkalýðsfélag starfsmanna í lesta- og flutningaþjónustu (RMT) hafa lengi verið í fararbroddi í verkalýðsbaráttunni í Bretlandi. Hefur félagið boðað röð af verkföllum fram að jólum til að fá viðsemjendur að samningaborðinu. Mick Lynch, formaður félagsins, sagði að „við getum ekkert annað en að boða til verkfalla vegna þrjósku ríkisstjórnarinnar … Þessi ríkisstjórn er að refsa brugghúsum, veitingahúsum og skemmtanaiðnaðinum til þess að fara út í hugmyndafræðilegt stríð við verkalýðsfélögin.“ Lynch segir að tilboðið sem félagsmenn hans hafa fengið eru óásættanleg og langt undir því að bæta fyrir verðbólgu. Félagið á líka í deilum vegna hugmynda rekstraraðila um stórfellda fækkun starfsmanna sem kæmi niður á öryggi og þjónustu. 

Starfsmenn innan háskólanna eru líka í verkfalli. Kjör þeirra hafa lækkað stórlega síðan ríkisstjórn Íhaldsflokksins tók við árið 2010. Nú hafa þeir fengið nóg. Það er athyglisvert að starfsmenn félaga í verkfalli sýna hver öðrum stuðning, eins og hér má sjá með ræðu sem Mick Lynch flutti á baráttufundi háskólastarfsmanna. Starfsmenn póstsins eru líka í verkfalli í og krefjast þess að fá launaleiðréttingu í takt við verðbólgu. Fjölmargir þingmenn Verkamannaflokksins, eins og Jeremy Corbyn fv. leiðtogi flokksins og Richard Burgon, þingmaður frá Leeds, hafa líka mætt í verkfallsvörslu, þó svo að Keir Starmer og hægrisinnarnir sem stjórna verkamannaflokknum hafi bannað skuggaráðuneyti flokksins þátttöku.

Það er ljóst að þessi verkfallsbylgja í Bretlandi mun einungis færast í aukana ef ríkisstjórnin heldur harðlínustefnu sinni gagnvart launahækkunum til streitu. Þrátt fyrir það að verkföllin leiði til margvíslegra óþæginda fyrir almennings hefur fólk mikinn skilning á baráttu verkalýðsfélaganna. Það eru því líkur á erfiðum og baráttu vetri fram undan.

Myndin er af starfsfólki gistiskýla sem komið er í verkfall þar sem launin duga ekki fyrir framfærslu og hækkandi húsaleigu, það sér fram á að verða heimilislaust og þurfa sjálft að leita til gistiskýlanna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí