„Það er bara virkilega dapurlegt að horfa upp á þessa stöðu. Að SA hafi tekist ætlunarverk sitt að mynda klofning innan hreyfingarinnar og sömuleiðis að starfsgreinafélögin kljúfi sig svona frá,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR í kjölfar samnings Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins.
Hörður Guðbrandsson formaður verkalýðsfélags Grindavíkur skrifaði ekki undir samninginn. Hann segir vanta aðgerðir ríkisstjórnar og tryggingu gegn verðbólgu. Þær hækkanir sem samið var um geti fljótt horfið í verðhækkanir sem nú ganga yfir fólk.
Efling er stærsta félagið innan Starfsgreinasambandsins og er ekki aðili að þessum samningi. Innan Eflingar eru um 45% félaga allra félagana innan SGS. En ljóst er að forysta félaga sem eru í heild um 53% af Starfsgreinasambandinu hafa fallist á samninginn.
„Ég tel að mikil sóknarfæri hefði falist í breiðri samstöðu ASÍ félaganna,“ segir Ragnar Þór. „Og í raun óskiljanlegt að ekki séu settir neinir fyrirvarar í SGS samninginn um verðbólgu eða aðkomu stjórnvalda.“
Myndin er af þeim Ragnari og Herði.