Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar gagnrýnir kjarasamnings-atburðarás síðustu daga og vikna. Þar á meðal að menn láti sem nýundirritaðir samningar séu framhald af lífskjarasamningunum sem runnu út 1. nóvember síðastliðinn. Það sé einfaldlega ósatt.
„Ef að menn vilja á annað borð ræða Lífskjarasamninginn eiga þeir að vera heiðarlegir og útskýra t.d. fyrir launafólki að inn í þeim hækkunum sem þeir hafa samið um er þegar umsamin hækkun, svokallaður hagvaxtarauki, umsaminn í Lífskjarasamningnum árið 2019, sem hefði ávallt bæst við sem launahækkun frá og með útborgun 1. maí 2023.
Lífskjarasamningurinn skilaði raunverulegri kaupmáttaraukningu, rúmum 4% á ári fyrir verkafólk (þangað til að verðbólgan fór að éta upp kaupmáttinn síðasta sumar). Ef að þeir samningar sem nú hafa verið undirritaðir ná að skila einhverri kaupmáttaraukningu á samningstímanum, sem er alls óvíst, verður hún á næsta ári 0,5% að meðaltali.
Í Lífskjarasamningnum var samið um krónutöluhækkanir. Öll fengu sömu hækkanir. Þeir samningar sem undirritaðir voru í gær eru prósentu-samningar. Þau sem hafa hæstu launin fá mest, 66.000 krónur (með þegar umsömdum hagvaxtarauka), á meðan að láglaunafólk fær minnst eða 35.000 krónur með hagvaxtarauka.” segir Sólveig á FB vegg sínum.
Þá gagnrýnir hún að látið sé eins og svokallaðir maraþonfundir og mikill hraði við samningagerð séu sérstakt afrek, og mönnum sé hrósað eins og hetjudáð hafi verið framin. Þarna sé eitthvað sjónarspil á ferð sem hún kann ekki að meta. „Í stað þess að trúa þessum hetjusögum og gleðjast yfir þeim, skulum við búa okkur undir að nákvæmlega sömu ömurlegu vinnubrögðin verði notuð næst, og næst, og næst…: SA smalar mönnum inn í rétt, valdastéttin fagnar og mönnum er ekki hleypt út fyrr en þeir hafa samþykkt að gefa atvinnurekendum allan hagvöxtinn. Í stað að öll viðurkenni að það að semja um laun fyrir vinnuaflið er eitt það mikilvægasta sem við tökum að okkur og að okkur ber að vanda til verka, sýna þolinmæði og þrautseigju er látið sem að fjölmiðlabann, leyndarhyggja, hraði og ógagnsæi sé eitthvað til að hreykja sér af. Það sem að við höfum orðið vitni að er stórfurðulegt, svo vægt sé til orða tekið.
Staðreyndin er þessi: Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi verið miklu minni þegar við undirrituðum samninga árið 2019, eða 2,4% (hann verður á þessi ári um 7%) náði hreyfing vinnandi fólks samt betri samning. Hvers vegna? Jú, með því að sýna þrautseigju og samstöðu. Vegna þess að fjöldasamstaðan er á endanum það sterkasta sem við eigum. Og ef við erum ekki tilbúin til að nota hana, til hvers í ósköpunum er þá verið að smala risastórum hópi launafólks saman í svokölluð heildarsamtök, líkt og ASÍ?”
Sólveig segir staðreyndina vera þessa: „Samið er um kaupmáttarrýrnun í gríðarlegum hagvexti. Launafólk á að taka skellinn meðan að fjármagnseigendur og atvinnurekendur njóta góðærisins. Finnst ykkur ekki frekar magnað að verða vitni að því?”
Í viðtali við RUV segir hún að Efling muni að sjálfsögðu ekki sætta sig við þetta og ekki láta smala sér inn í einhverja rétt sem Samtök atvinnulífsins hafa reist til að gleypa það sem aðrir hafa undirritað og það sem þau telji óásættanlegt. „Þannig að ég reikna með því að það sé töluverð barátta fram undan hjá Eflingarfólki.“ segir Sólveig en Efling bíður þess nú að fá fund með ríkissáttasemjara.