Ekkert að marka Brynjar um fjölda flóttafólks

Samkvæmt upplýisngum Útlendingastofnunar sóttu 3.936 flóttamenn um alþjóðlega vernd á Íslandi fyrstu ellefu mánuði ársins. Þar af eru 79% frá Úkraínu og Venesúela, fólk sem íslensk stjórnvöld hafa boðið hingað og veitt forgang um vernd. Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, hélt því fram í hlaðvarpsþættinum Ein pæling fyrir skömmu að sex þúsund manns myndu sækja um hæli á þessu ári. Annað hvort er ekkert að marka Brynjar eða yfir tvö þúsund manns sækja um vernd í desember.

Sem fyrr sýna tölurnar frá Útlendingastofnunar að lítið er að marka fullyrðingar pólitískrar forystu í þessum málaflokki. Bæði Brynjar og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafa fullyrt að hér séu opnar gáttir sem mikill fjöldi flóttafólks nýtir. Og ekki síst skipulögð glæpasamtök sem stunda mansal og selja flóttafólki leiðbeiningar um að fljúga til Íslands. Ekkert þessu líkt er hægt að lesa úr tölum Útlendingastofnunar.

Árið 2018, fyrir cóvid, boð íslenskra stjórnvalda til flóttafólks frá Venesúela og innrásina í Úkraínu, sóttu 800 manns um vernd á Íslandi. Þar af komu 46 frá Úkraínu og Venesúela. Fólk frá öðrum löndum var 774 manns. Það sem af er þessu ári hafa 3.936 sótt um hæli og þar af 3.109 frá Úkraínu og Venesúela. 827 hafa komið frá öðrum löndum, 53 fleiri en 2018 sem gera innan við 7% fjölgun. Af þessu er augljóst að pólitísk forysta í þessum málaflokki stundar skipulagða upplýsingaóreiðu, eins og það heitir í dag. Segja ósátt, eins og það hét áður.

Þriðji stærsti hópurinn sem hingað kemur er frá Palestínu, en aðgerðir ísraelskra stjórnvalda gegn Palestínumönnum hafa harðnað og orðið enn grimmúðlegri. 206 Palestínumenn komu fyrstu ellefu mánuði ársins, en aðeins 27 árið 2018. Ef við tökum fólk frá Palestínu frá hafa hingað komið 621 flóttamaður og beðið um vernd sem ekki er frá þessum þremur löndum: Úkraínu, Venesúela og Palestínu. Árið 2018 komu til Íslands 747 frá öðrum löndum en þessum tveimur. Ef jafnmargir koma í desember og fyrstu ellefu mánuðina má búast við 677 á þessu ári. Sem er 70 færri en 2018 eða rúmlega 9% færri.

Útlendingafrumvarp Jóns dagaði uppi á þinginu enda er það vitað þar að frumvarpið er ekki að mæta neinum þeim vanda sem Jón hefur teiknað upp. Tal hans um opnar gáttir á aðeins við um þá flóttamenn sem stjórnvöld hafa sérstaklega boðið hingað og lofað vernd, kemur lögunum eða skipulögðum glæpasamtökum ekkert við. Ef innviðir landsins bera ekki þann fjölda er aðeins við ríkisstjórnina að sakast.

Myndin er af auglýsingaskilti um þátt Einnar pælingar með Brynjar. Hlusta má á þáttinn hér: Fyrsta live-hlaðvarpið með Brynjari Níelssyni – Forvirkar rannsóknarheimildir og hælisleitendur.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí