Engin leigubremsa í þunnum pakka ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórnin kynnti aðgerðir sínar í tengslum við kjarasamninga í Ráðherrabústaðnum. Pakkinn er þunnur eins og ráðherrarnir höfðu boðað, að skammtímasamningur kallaði á veikari aðgerðir. Mesta breytingin er hækkun húsaleigu- og barnabóta umfram verðbólgu og hækkun skerðingamarka innan vaxtabótakerfisins.

Sem kunnug er lofaði ríkisstjórnin leigubremsu í tengslum við lífskjarasamninginn 2019 til að hemja svívirðilegar hækkanir á leigumarkaði, eins og hafa verið í fréttum undanfarna viku. Ríkisstjórnin sveik þetta loforð. En nú lofar hún að aðilar vinnumarkaðarins fái að vera viðstaddir meðan ríkisstjórnin íhugar málið. Þetta er orðað svo: „Aðilar vinnumarkaðarins fá aðkomu að starfshópi um endurskoðun húsaleigulaga til að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.“

Það er trúaratriði hjá Sjálfstæðisflokknum að hafna leigubremsu þótt því tæki sé beitt víða í nágrannalöndum okkar. Hingað til hafa Vg og Framsókn beygt sig undir vilja Sjálfstæðisflokksins, og ætla að gera það áfram samkvæmt fundinum þótt forystufólk flokkana láti sem það styðji ekki bara leigubremsu heldur líka leiguþak.

Ríkisstjórnin ætlar að hækka tekjuskerðingarmörk húsnæðisbóta um 7,4%. Þetta er undir hækkun neysluvísitölu og nýgerðra kjarasamninga þar sem lægri meðallaun hækka um 10-12%. Þetta bætir því ekki stöðu neins, fækkar í raun þeim sem eiga rétt á húsnæðisbótum. Staðfestir að þær eru fyrst og síðast fyrir fátækasta fólkið.

Hins vegar ætlar ríkisstjórnin að hækka bæturnar sjálfar um 13,8% um áramótin. Miðað við hámarksbætur í dag merkir það að einstakllingur getur mest fengið 40.633 kr. í bætur á mánuði og fjögurra manna fjölskylda 68.159 kr.

Lögin um húsnæðisbætur tóku gildi 1. janúar 2017 og ef við framreiknum bæturnar þá til verðlags dagsins þá verða bæturnar 1,4% hærri í janúar 2023 en þær voru í janúar 2017. Og þar sem verðbólgan er hærri nú mun þessi ávinningur líklega hverfa fyrir páska.

Hækkun húsnæðisbóta er því ekki aukinn stuðningur. Þær halda vart í hækkun verðlags og langt í frá í við hækkun húsaleigu, sem hefur frá 2017 hækkað umfram verðlag.

Ríkisstjórnin ætlar að lagfæra aðeins þá skekkju sem orðið hefur í vaxtabótakerfinu, sem á undanförnum árum hefur breyst úr almennum stuðningi í stuðning við allra fátækasta og allra skuldugasta fólkið. Sem reyndar hefur ekki efni á að kaupa húsnæði. Útgreiddar vaxtabætur hafa því lækkað mikið og fara til æ færri. Ríkisstjórnin ætlar að hækka eignaviðmiðið um 50% en hækkun fasteignaverðs hefur aukið bókfært eigið fé fólks í húsnæði, svo það á orðið of mikið til að fá bætur. 50% hækkun mætir hækkun fasteignaverðs síðustu tveggja ára og kannski hálfs árs til.

Þá ítrekar ríkisstjórnin að hún ætlar að leggja 4 milljarða króna í stofnframlög inn í almenna íbúðakerfið.

Engar aðgerðir voru kynntar til að mæta þeim sérstaklega sem hafa óverðtryggða breytilega vexti á húsnæðislánum sínum, en húsnæðiskostnaður þess fólks hefur hækkað um um og yfir 100 þús. kr. á mánuði.

Ríkisstjórnin ætlar að hækka barnabætur um 5 milljarða króna á tveimur árum, það er um 2,5 milljarða að meðaltali yfir árið. Barnabætur voru tæplega 14 milljarðar króna í fjárlögum 2022, svo ætla má að aukin framlög jafngildi um 18% hækkun, sambærilegri og hækkun húsnæðisbóta. Þessi hækkun mun annars vegar fjölga þeim sem eiga rétt á bótum og mæta skerðingum annarra vegna verðbólgu.

Aðrar aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti voru enn veigaminni.

Myndin er af Katrínu jakobsdóttur forsætisráðherra á fundinum þar sem hún kynnti aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí