Formaður Ölmu ver hækkun langt umfram markaðsverð

Gunnar Þór Gíslason, formaður stjórnar Öldu íbúðafélags skrifar varnargrein í Fréttablaðið í morgun þar sem hann heldur því fram að hækkun á íbúðinni við Hverfisgötu sé aðlögun að markaðsverði. Þetta er rangt. Markaðsverð íbúða á þessu svæði og af þessari stærð er 270 þús. kr. samkvæmt leigusjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Alma hækkaði leiguna upp í 325 þús. kr.

Samkvæmt upplýsingum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er markaðsverð nýrra samninga á 70-100 fermetra íbúðum í miðbænum frá Lækjargötu að Snorrabraut 3.113 kr. á fermetra. Markaðsverð leigu á umræddri íbúð ætti því að vera 270 þús. kr. miðað við nýjustu samninga.

Gunnar Þór heldur því fram í greininni að leiga sveiflist eftir markaðsverði fasteigna, það er að hækkun á íbúðaverði leiði til hækkunar á húsaleigu. Þetta er ekki svo í nágrannalöndum okkar. Fasteignabólur hækka kaupverð en alls ekki leiguverð, enda er megnið af íbúðum á leigumarkaði keyptar löngu áður en fasteignabólan blés út.

Og það á við um megnið af íbúðum Ölmu. Stabbinn af þeim var keyptur á lágu verði af Íbúðalánasjóði þegar íbúðaverð var helmingi lægra en það er í dag. Þótt hækkun markaðsverðs hækki fasteignagjöld þá vegur það ekki þungt. 20% hækkun fasteignaverðs á íbúð sem kostaði 50 m.kr. hækkar fasteignagjöld aðeins um 1.500 kr. á mánuði.

Miðað við eðlilegan kostnað leigusala má ætla að okurmörk á umræddri íbúð séu í dag um 250 þús. kr., miðað við reiknivél Samtaka leigjenda og 10% verðbólgu síðan vélin var sett upp. Leiga umfram það sé óréttlætanleg út frá eðlilegum kostnaði leigusala.

Leigusalar kunna að hafa meiri kostnað, vond lán og lágt eiginfjárhlutfall eða varpað óheyrilegum kostnaði yfir á leigjendur, há laun og óráðsíu. En það getur ekki verið vandamál leigjandans. Hann á ekki að þurfa að borga okurleigu vegna vangetu leigusalans til að sinna útleigu á heimilum fólks eða þrá hans eftir ógnargróða.

Lesa má grein Gunnars Þórs hér: Um grund­vallar­at­riði og fag­mennsku á leigu­markaði.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí