Halldór Benjamín brosir, Ragnar Þór rauk úr húsi

Það mátti sjá á líkamstjáningu samningamanna hvernig nýgerðir samningar lögðust í menn. Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR rauk úr karphúsinu um leið og hann hafði skrifað undir, fékk sér enga vöfflu og gaf engin viðtöl, vildi ekki vera á hópmynd samningsaðila. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins lék hins vegar á allsoddi, sat fyrir á myndum og gaf viðtöl brosandi út að eyrum.

Hvað má lesa í þetta? Það er óvíst og alls ekki víst hvort Ragnar Þór muni mæla með þessum samningum við félaga VR. Í umræðum innan samninganefndar VR voru ýmiss sjónarmið á lofti og þau urðu ofan á að það yrði of kostnaðarsamt að ætla að losa félagið úr þeirri klemmu sem samningar Starfsgreinasambandsins festu önnur félög í. En það var líka rætt hvort ekki væri eðlilegt að félagarnir sjálfir fengju að meta hvort þeir sættu sig við þunnan pakka frá ríkisstjórn og hækkanir sem vart munu halda í við verðbólgu eða hvort þeir væru tilbúnir í átök sem væri forsenda þess að hægt væri að knýja á um betri samning.

Samstöðin hefur ekki náð í Ragnar Þór eftir undirskrift. Einhverjir innan VR telja að hann muni jafnvel ekki mæla með samningunum. Til að fella samninga þarf meirihluti félagsmanna að hafna þeim í kosningum þar sem meira en 10% félagsmanna tekur þátt. Í tilfelli VR eru það hátt í fjögur þúsund manns, viðlíka og tekið hefur þátt í formannskosningum hjá félaginu.

Myndin er af Halldóri Benjamín í viðtali við Stöð2.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí