10-15 stiga frosti er spáð um helgina. Þrátt fyrir það hefur Reykjavíkurborg ekki ákveðið hvort gistiskýli og önnur úrræði sem standa heimilislausu fólki til boða verði opin lengur.
Neyðarskýlin eru opin frá 17:00 á daginn til 10:00 á morgnana, en þess á milli þarf heimilislaust fólk að leita annað. Heimilislausir hafa mótmælt þeirri stefnu borgarinnar og bent á mikilvægi þess að fá skjól yfir daginn. Þrátt fyrir það stendur ekki til að breyta opnunartímanum af hálfu borgarinnar.
Reykjavíkurborg virkjar neyðaráætlun málaflokks heimilislausra vegna veðurs þegar spáð er kuldakasti eða óveðri sem er þess eðlis að hætta sé á ofkælingu eða alvarlegum slysum þeirra sem þurfa á þjónustu neyðarskýla að halda. Hún hefur ekki verið virkjuð enn þrátt fyrir spá um miklar frosthörkur. Skilaboð borgaryfirvalda eru því að heimilislausir geti verið úti í kuldanum. 64 manneskjur bíða á sama tíma eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir.