Leigubílstjórar þeyttu flautuna við Ráðherrabústaðinn í morgun

„Við höfum verulegar áhyggjur af almannahag í þessu máli. Hér eru ráðherrar og þingmenn að gera tilraunir með tilgátum en ekki með viðhorfi til reynslu af slíkum breytingum. Þetta lagafrumvarp er algjör eyðilegging og innrás inn á starfsgreinina.“

Þetta segir Daníel Orri Einarsson formaður Bifreiðarstjórafélagsins Frama, en leigubílstjórar funduðu í morgun um frumvarp innviðaráðuneytisins um leigubílaþjónustu sem er til umræðu á Alþingi í dag. Bílstjórarnir þeyttu flautur sínar við ráðherrabústaðinn á meðan ráðherrar funduðu og afhentu þeim sameiginlega yfirlýsingu sína.

Daníel segir að verði frumvarpið samþykkt hækki verð og þjónusta verði óörugg og óáreiðanleg en það er hiti í leigubílstjórum sem hika ekki við að leggja niður störf til þess að þrýsta á stjórnvöld með að skoða athugasemdir þeirra. Frumvarpið rýmkar skilyrðin sem þarf til að reka leigubíl auk þess sem lagt er til að takmarkanir á heildarfjöldi starfsleyfa verði afnumdar. Þá segir hann frumvarpið beinlínis skaðlegt þegar kemur að fötluðu fólki og öldruðu en ferðaþjónusta þessa hópa muni verða mjög lök eins og hefur sýnt sig gerast á Norðurlöndunum við sams konar breytingar. Leigubílstjórar eru ósáttir við samráðsleysi stjórnvalda og það hversu hratt eigi að keyra frumvarpið í gegn. Fyrirvarinn sé því einnig afar stuttur fyrir bílstjóra til aðlögunar.

Lögreglan lokaði Tjarnargötunni fyrir akstri leigubíla í morgun eftir að þeir hófu að þeyta bílflautur sínar en Daníel beið á tröppum ráðherrabústaðsins í tíu stiga frosti um langa hríð eftir að afhenda ráðherrum yfirlýsingu frá leigubifreiðarstjórum.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí