Meginþorri innflytjenda á vinnualdri

Hagstofan var að senda frá sér upplýsingar um bakgrunn landsmanna í manntalinu frá janúar 2021. Þar kemur fram hvernig innflytjendur skiptast milli landssvæða, sveitarfélaga og aldurs. Innflytendur eru flestir á besta aldri, eins og sagt er; á fyrri hluta starfsaldurs síns. Og þeir búa þar sem vinnu er að fá; á túristaslóðum og sjávarplássum.

Hér má sá aldursskiptingu innflytjenda í manntalinu frá 2021:

Þarna sést vel hvaða áhrif innfytjendur hafa á íslenskt samfélag. 88% þeirra eru á vinnualdri á meðan 55% innfæddra eru á vinnualdri. Hingaðkoma innflytjenda veldur því að fleiri hendur vinna fyrir þau sem ekki vinna, þau sem eru yngri og eldri.

Landsmenn eru því ekki að eldast heldur yngjast. Undir lok síðustu aldar leit úr fyrir að það yrði eitt af helstu áskorunum á Íslandi hvernig mæta ætti öldrun þjóðarinnar, þar sem hlutfallslega færri væru á vinnumarkaði til að keyra áfram hagkerfið. Og reyndar tala stjórnmálamenn svona enn, enda er þetta ein af rökum nýfrjálshyggjunnar fyrir því að við höfum ekki efni á óbreyttu velferðarkerfi sem byggir á samtryggingu.

En innflytjendur hafa gerbreytt þessari stöðu.

Á bak við hvern innfæddan utan vinnualdurs eru 1,2 á vinnualdri. En á bak við hvern innflytjenda utan vinnualdurs eru 7,4 á vinnualdri. Þetta veldur því að í heild eru 2,5 á vinnualdri á móti þeim sem eru yngri eða eldri.

Þetta breytir öllum forsendum. Það er allt annað samfélag þar sem 2,5 eru á vinnualdri á móti hinum yngri og eldri en ef hlutfallið væri aðeins 1,2. Þessi hlutföll sýna hversu fráleitt er að halda því fram að innflytjendur séu byrði á samfélaginu. Þeir eru forsenda þess að hægt sé að reka hér sæmilegt velferðarkerfi fyrir alla. Og í dag njóta innfæddir þess í miklu meira magni en innflytjendur.

Með öðrum orðum: Innflytjendur halda uppi velferðarkerfi innfæddra.

Hlutfall innflytjenda ólíkt eftir aldri og byggð

Ólík aldurssamsetning innflytjenda og innfæddra veldur því að hlutfall innflytjenda er mjög ólíkt eftir aldri. Í grófum dráttum er skiptingin svona:

AldursflokkurÁrabilHlutfall
Leikskólabörn0-53%
Grunnskólabörn6-155%
Framhaldsskóli16-197%
Ung fullorðnir20-4925%
Miðaldra50-6612%
Eftirlaunaaldur67+3%

Innfæddir geta mátað sig við þetta. Við umgöngumst mest fólk á svipuðu reki. Ef þú ert á eftirlaunaaldri er sjö sinnum ólíklegra að þú sért í samskiptum við innflytjendur en ef þú værir á yngri fullorðins árum. Nema náttúrlega þegar þú ferð á hjúkrunarheimili. Þar er stór hluti starfsfólksins innflytjendur.

En það er gott að hafa þessa aldursskiptingu í huga. Upplifun fólks er ólík af þeim samfélagsbreytingum sem landsmenn ganga í gegnum á þessum miklu fólksflutningstímum.

Í öllum árgöngum frá 25-43 ára eru innflytjendur fleiri en 25% fjöldans, fjórði hver maður er innflytjandi. Toppurinn er við 35 ára aldurinn. Af landsmönnum á þeim aldri eru 32% innflytjendur.

Í Reykjavík eru 37% þeirra sem eru 35 ára innflytjendur og í Reykjanesbæ 55% þeirra sem eru 34 ára. 58% karla á þeim aldri eru innflytjendur í Reykjanesbæ og 50% kvenna. Innfæddir á þeim aldrei eru sem sé í minnihluta í bænum.

Sambærileg tafla og hér að ofan lítur svona út í Reykjanesbæ:

AldursflokkurÁrabilHlutfall
Leikskólabörn0-54%
Grunnskólabörn6-1510%
Framhaldsskóli16-1912%
Ung fullorðnir20-4940%
Miðaldra50-6619%
Eftirlaunaaldur67+4%

Tveir þriðju nýrra landsmanna eru innflytjendur

Frá manntalinu 2011 fjölgaði landsmönnum um tæplega 44 þúsund manns eða um 14%. Af fjölguninni eru rúmlega 28 þúsund innflytjendur, sem eru rétt tæplega 2/3 hlutar af nýjum Íslendingum.

Í Reykjavík fjölgaði íbúunum um 13.031 og af þeim fjölgaði innflytjendum um 12.830. Ef ekki væri fyrir innflytjendur væri stöðnun í borginni. Í Vestmannaeyjum fjölgaði íbúunum aðeins um 21 á þessu tímabili, innfæddum fækkaði um 252 en aðkoma 273 innflytjenda bjargaði Eyjunum frá því að hrörna.

Í Garðabæ fjölgaði íbúum um 3.797 en þar af voru aðeins 542 innflytjendur. Svipaða sögu er að segja um Mosfellsbæ, Árborg og Hveragerði. Vöxturinn þar er fyrst og fremst meðal innfæddra.

Samkvæmt manntalinu 2021 var hlutfall innflytjenda svona í þeim sveitarfélögum þar sem búa fleiri en tvö þúsund íbúar (landsmeðaltalið er 14,6%):

SveitarfélagHlutfall innflytjenda
Reykjanesbær24,6%
Suðurnesjabær20,6%
Hornafjörður20,6%
Ölfus19,0%
Grindavík18,8%
Reykjavík18,3%
Ísafjörður17,1%
Fjarðabyggð16,3%
Norðurþing15,8%
Hafnarfjörður12,6%
Múlaþing11,8%
Kópavogsbær11,7%
Borgarbyggð11,5%
Vestmannaeyjar11,0%
Seltjarnarnes9,4%
Akranes9,1%
Mosfellsbær9,0%
Árborg8,6%
Skagafjörður7,5%
Hveragerði7,3%
Akureyri6,7%
Garðabær5,9%

Og hér eru þau sveitarfélög með færri íbúa en tvö þúsund sem eru með hlutfall innflytjenda yfir landsmeðaltalinu. Þarna sést að samfélagsbreytingar á tímum fólksflutninga eiga sér ekki síst stað í smærri byggðum, einkum í sjávarbyggðum, þar sem innflytjendur keyra áfram sjávarútveginn, og á túristaslóðum, þar sem innflytjendur halda uppi ferðaþjónustunni.

SveitarfélagHlutfall innflytjenda
Mýrdalshreppur42,9%
Skaftárhreppur27,2%
Súðavík27,1%
Langanesbyggð22,5%
Snæfellsbær22,4%
Grundarfjörður21,6%
Bolungarvík21,5%
Bláskógabyggð21,3%
Skútustaðahreppur20,7%
Fljótsdalshreppur20,4%
Hrunamannahreppur20,3%
Rangárþing eystra20,0%
Vesturbyggð19,6%
Vogar19,3%
Tálknafjörður17,9%
Rangárþing ytra17,5%
Eyja- og Miklaholtshreppur15,5%
Stykkishólmur14,7%

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí