Í skýrslu kjaratölfræðinefndar kemur fram að hagvöxtur er hvergi meiri á Íslandi og horfur fyrir næstu ár góðar. Og byggir nefndin þó á áætlunum Seðlabankans frá fyrr á árinu, en samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni er hagvöxturinn enn meiri en Seðlabankinn áætlaði.
Þetta graf er í skýrslunni sem sýnir hversu öflugri hagvöxturinn á Íslandi er en í næstu löndum:
Rauða lína sýnir hagvöxtinn fyrstu nýju mánuði þessa árs samkvæmt Hagstofunni, svo reikna má með að íslenska súlan rísi enn hærra.
Í úttekt kjaratölfræðinefndar er raðað upp vísbendingum um óvenju góða stöðu í hagkerfinu og atvinnulífinu. Atvinnuleysi er lítið og mikil eftirspurn eftir starfsfólki. Verð á sjávarafurðum er nú 25% hærra en í fyrra og álverð hefur hækkað um 60%. Það sést á veltu fyrirtækja sem tengjast ferðaþjónustu að þar er mikill vöxtur. Verðbólga er lág miðað við nágrannalöndin. Allir hagvísar vísa því upp.
Það sem er ekki í blóma er staða fjórðungs af heimilunum. Að meðaltali standa heimilin vel, eiga nokkuð aflögu svo búast má við vexti einkaneyslunnar. En kjaratölfræðinefnd bendir á að 25% heimila eigi erfitt með að ná endum saman. Það eru um 40 þúsund heimili þar sem um 103 þúsund manns búa.
Í úttekt kjaratölfræðinefndar kemur fram að hlutfallslega hafa laun starfsfólks sveitarfélaganna hækkað mest, fólk sem er félagar innan Alþýðusambandsins. Þarna kemur fram árangurinn af verkföllum og kjarabaráttu Eflingar í kjölfar lífskjarasamningsins, sem skilaði félögum góðri hækkun.