Of mörg börn í of litlu plássi

Börn 28. des 2022

Við sitjum uppi með vanfjármagnað kerfi, með allt of mörgum börnum í þröngu rými,“ skrifar Hörður Svavarsson, leikskólastjóri hjá leikskólanum Aðalþingi, í nýjasta tölublaði Skólavörðunnar þar sem hann fjallar um rannsókn á rými barna í leikskólum.

„Ég lærði að vera leikskólakennari í Fósturskólanum gamla,“ byrjar Hörður grein sína, og heldur svo áfram: „Ég hafði unnið í leikskóla í tvö ár og það er svo langt síðan að starfsheitið mitt var starfsstúlka. Öðrum starfsheitum var ekki til að dreifa fyrir ófaglærða og alls ekki gert ráð fyrir því að karlmenn kæmu sér fyrir á þessum vettvangi. En þetta var dásamlegt, það er dásamlegt að vinna með litlum börnum. Eðlislæg forvitni þeirra er grundvöllur þroska þeirra og gerir þau öll að litlum rannsakendum.

Ég sá það fljótt að til að geta haft áhrif og mark yrði á mér tekið þyrfti ég að læra fagið. Ég lærði semsagt í Fósturskólanum gamla, en þrátt fyrir að hafa farið af þessum starfsvettvangi áratugum saman tók ég seinna B.Ed. gráðu við KHÍ og fór svo aftur inn á vettvang leikskólanna. En það hafði mikið breyst í leikskólunum; meðan þjóðfélagið hafði þróast hratt fram á við til aukins jafnréttis og meiri velmegunar hafði ástandið versnað í leikskólunum.

Ástandið í leikskólum

Á þeim tveimur áratugum sem ég vann ekki á vettvangi leikskólanna hafði börnum fjölgað mjög mikið í rýminu. Álag fyrir starfsfólkið sem vann inni á deildunum með börnunum var orðið gríðarlegt. Stöðugt áreiti í átta tíma á dag er meira en margir þola. Þessi fjöldi barna í litlu rými sýndist mér vera meginástæða þess að erfitt var að manna leikskóla með góðu fólki. Margir fullorðnir sem upplifa þetta forða sér. En það geta börnin ekki heldur búa við þetta áreiti alla sína leikskólagöngu.

Mikilvægt að rannsaka hver staðan er

Í samtölum okkar Guðrúnar Öldu Harðardóttur varð til stutt og hnitmiðuð lýsing á ástandinu. Vandi leikskólanna er of mörg börn í of litlu plássi og í of langan tíma. Þegar ég öðlaðist það hlutverk að sitja í Fræðsluráði í Hafnarfirði árin 2014 til 2018 hélt ég þessum þrengslum á lofti og óskaði úrbóta. Það var eins og fólk skildi mig ekki, eða tæki ekki mark á mér af því að það voru ekki allir hinir búnir að segja þeim þetta líka. Það er eftirminnilegt þegar ég dró upp myndlíkinguna af tveggja ára barni sem sett væri í pláss sem væri minna en hjónarúm, kveikt á hátölurum og barnið haft þarna í átta og hálfan klukkutíma daglega.

Þetta var á þeim tíma þegar við héldum að börn hefðu raunverulega það rými sem sveitarfélögin segjast miða við, 3,5 fermetra í leikrými. Okkur, mér og kollegum mínum, þótti það samt allt of lítið Og töldum að álagið og starfsmannaflóttinn væri af þess völdum. Það hnykkti líka í Fræðsluráði og ákveðið var að auka rýmið örlítið, en kalla jafnframt eftir upplýsingum frá fólkinu í skólunum um hvað rýmið væri raunverulega. Þær tölur skiluðu sér ekki.

Úr því að ábyggilegar tölur um rými barna í leikskólum voru ekki til staðar lá beint við að efna til rannsóknar á því hvaða rými börn hefðu í leikskólum og hvernig það væri. Sú rannsókn varð viðfangsefni MA verkefnis míns við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og sérfræðingur við verkið var Hrönn Pálmadóttir. Rannsóknasjóður Kennarasambands Íslands styrkti verkefnið og meðal annars vegna þess gat rannsóknin orðið viðamikil og hægt að álykta með mikilli vissu um niðurstöður.

Fagfólk vill nærri sex fermetra í leikrými

Á sama tíma og rannsóknin á rými barna fór fram gerði starfshópur á vegum Kennarasambandsins viðamikla spurningakönnun meðal leikskólakennara, leikskólastjóra og fræðslustjóra. Spurt var meðal annars hvað þátttakendur teldu vera hæfilega stærð leikrýmis innan deildar fyrir hvert barn. Niðurstöður þessara hópa voru mjög samhljóða. Leikskólakennarar, leikskólastjórar og fræðslustjórar telja að hvert barn þurfi um 5,7 fermetra í leikrými innan deildarinnar sinnar.

Rannsóknin sem ég gerði leiddi í ljós að börn hafa minna rými en okkur óraði fyrir, en það skýrir líka af hverju starfsfólk leikskóla upplifir gríðarlegt álag, hávaða og áreiti í vinnunni sinni. En rannsóknin gefur líka vísbendingar um hvernig rýmið hefur þróast í að verða svona lítið.

Löggjöf breytt til að fjölga börnum

Yfirgripsmikil úttekt á löggjöf um leikskóla, allt frá fyrstu lögum 1974 til dagsins í dag, dregur fram fjölda breytinga á löggjöfinni sem allar miða að því að koma sífellt fleiri börnum inn í rýmið. Einn daginn var hætt að mæla rýmið vegg í vegg eins og kveðið hafði verið á um og farið að mæla brúttó, en þá er utanmálið á leikskólanum mælt. Allir útveggir og innveggir teljast þá til rýmisins og af þeim sökum ber rannsóknin nafnið Börnin í veggjunum.

Í annað skipti sömdu leikskólakennarar um að fjölga börnum á deildunum gegn því að fá hærri laun. Reglugerð sem fylgdi í kjölfarið fól í sér að börnum fjölgaði um 7%. Margar aðgerðir af þessum toga urðu til þess að börnin voru orðin svona mörg í þessu litla rými. Annað sem kemur fram í þessari úttekt á löggjöfinni er hversu fljótt ríkið var að draga sig út úr fjármögnun á byggingu og rekstri leikskóla. Fyrsta löggjöfin hét Lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn. Lögin voru ekki nema tveggja ára þegar valdið á þingi, sem þá mátti örugglega kenna við feður, komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri nú gáfulegt að ríkið væri að borga einhverjum konum fyrir að passa börn fyrir aðrar konur. Ríkið dró sig út úr rekstrinum og skömmu síðar allri fjármögnun á byggingu leikskóla.

Vanfjármögnun og þrengsli

Við sitjum uppi með vanfjármagnað kerfi, með allt of mörgum börnum í þröngu rými. Það er ekki hægt að komast hjá því að nefna þrengsli, þó hefð sé fyrir því að rannsakendur temji sér hóf í orðalagi. Börnin eiga það skilið að við nefnum aðstæðurnar sem þau eru í réttum nöfnum. Börn hafa 2,4 fermetra í leikrými á deildinni sinni og inni í þeim fermetrum er laus búnaður, borð, stólar, hillur og fullorðið fólk. Ef reiknað er hvað hver einstaklingur hefur í fermetra á deildinni, börn og fullorðnir, eru það 1,9 fermetrar. Innan þeirrar tölu eru sami búnaður, borð og stólar og þess háttar. Ef dregnir eru frá fermetrarnir sem fullorðnir eiga rétt á samkvæmt vinnulöggjöf er rými barnanna ennþá minna.

Miðað við hvað áðurnefndir faghópar; leikskólakennarar, leikskólastjórar og fræðslustjórar, telja að börn þurfi að hafa mikið leikrými eru barnahóparnir að minnsta kosti tvöfalt of fjölmennir. Það fer ágætlega saman við þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á aðstæðum í skólum í fyrstu bylgju Covid-19, þegar helmingur barna á deildinni kom í leikskólann hverju sinni. Á þeim tíma virtist börnum líða vel í leikskólanum sínum.“

Hér má lesa greinina og aðrar greinar tímaritsins: Skólavarðan

Hörður kom að Rauða borðinu í haust og ræddi þessi mál og önnur er tengjast vanda leikskólanna. Viðtalið má sjá og heyra hér:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí