Stefán Ólafsson sérfræðingur Eflingar segir að samningur Starfsgreinasambandsins rísi ekki undir því að vera framhald lífskjarasamningsins og enn síður að vera besti kjarasamningur sem gerður hefur verið á íslenskum vinnumarkaði í áratugi, eins of Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, hefur sagt. Stefán segir að launahækkanir séu of litlar og það vanti aðgerðir stjórnvalda, sem einkenndu lífskjarasamninginn.
Stefán segir í grein að samningur SGS sé mun ódýrari og léttvægari en lífskjarasamningurinn – og það í umhverfi mun meiri hagvaxtar en var þegar lífskjarasamningurinn var gerður.
„Launataflan hefði þurft að hækka um að minnsta kosti á bilinu 55.000 kr. og upp í 77.000 kr. (í stað 35.000 til 52.000 króna eins og er í töflu SGS), eða um 20.000 til 25.000 krónur í viðbót,“ skrifar Stefán.
„Þá er ónefnt að í tengslum við Lífskjarasamninginn fékkst framlag frá stjórnvöldum sem þau töldu nema um 80 milljörðum á samningstímanum, að meðaltali 20 milljörðum á ári,“ skrifar Stefán. „Þar munaði verkafólk mest um beina lækkun tekjuskatts um 10.000 kr. á mánuði, sem er ígildi um 15.000 króna launahækkunar. Ekkert slíkt tengist SGS-samningnum. Það er því afar mikill munur á Lífskjarasamningnum og SGS-samningnum.“
Stefán bendir líka á að hagvaxtaraukinn sem samið var um í lífskjarasamningnum séu inn í þessum tölum. Hann segir að draga megi hagvaxtaraukann, 13 þús. kr., frá hækkun taxta til að meta hækkunina.
„Þannig að meðalhækkun á töflu SGS-félaga er 29.958 (þ.e. 42.958-13.000), án hagvaxtaraukans. Það er sú beina hækkun á taxtalaun sem samningurinn sjálfur skilar að meðaltali, auk flýtingarinnar. Fyrir flest Eflingar-fólk væri þessi samningur að skila 26.142 króna hækkun (39.142-13.000), án hagvaxtaraukans sem þegar var í hendi,“ skrifar Stefán. „Hagvaxtaraukinn nemur um 30% af meðalhækkun launa í SGS-samningnum og um 37% af hækkun lægstu launa. Það er afar stór hluti.“
Stefán segir kostina við samninginn vera lagfæringar á launatöflum, að samningur taki við af samningi, að hagvaxtaraukanum sé flýtt og hækkun á bónus til fiskvinnslufólks.
Les má grein Stefáns hér: Samningur SGS: Kostir og gallar.