Segir að verið sé að glæpavæða blaðamennsku

Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks segir að á næstu vikum gæti farið svo að hæstiréttur Bretlands samþykki kröfu Bandaríkjastjórnar um framsal stofnanda Wikileaks, Julian Assange. Þetta kemur fram í grein Svölu Magneu Ásdísardóttur sem birtist á Krossgötum í dag.

Assange hefur setið í fangelsi á Bretlandi í þrjú ár án dóms, en Kristinn er nú á ferð um Suður- og Mið Ameríku til að kynna málstað hans og afla honum fylgis. Kristinn hefur þegar átt fund með nýkjörnum forseta Brasilíu, Lula da Silva, og segir hann gera sér góða grein fyrir því óréttlæti sem Assange sé beittur og mikilvægi málsins fyrir tjáningarfrelsi blaðamanna. Forseti Bólivíu, Luis Arce gaf út yfirlýsingu til stuðnings Assange nýlega eftir fund með fulltrúum Wikileaks.

Assange hefur átt framsal til Bandaríkjanna yfir höfði sér árum saman, en krafan byggir á því að Wikileaks birti gögn um stríðsglæpi Bandaríkjahers í Írak og Afganistan árið 2010. Meðal þessara gagna er myndband sem sýnir hermenn skjóta af handahófi á saklausa borgara.

Í nýlegu viðtali við blaðamanninn Glenn Greenwald segir Kristinn Hrafnsson að málið sé í raun ósköp einfalt. Það sé verið að glæpavæða blaðamennsku og að mikilvægt sé að blaðamannastéttin átti sig á því. „Ef það er hægt að glæpavæða hvöt blaðamanna til að afla og nýta upplýsingar þá er hægt að glæpavæða hvern einasta blaðamann“.

Í viðtalinu við Greenwald segist Kristinn vera annar af aðeins tveimur vinum sem megi heimsækja Assange í fangelsið og telur að verið sé að brjóta hann niður andlega. Frelsissviptingin síðastliðin þrjú ár hafi tekið sinn toll. Kristinn kynntist Assange þegar gögn sem tengdust íslenska bankahruninu voru birt á Wikileaks. Sagði hann þá skilið við 20 ára starfsferil sinn sem hefðbundinn blaðamaður í meginstraumsfjölmiðlum og gerðist sjálfstætt starfandi rannsóknarblaðamaður og talsmaður Wikileaks. Lagði hann töluvert á sig við að sannreyna meinta stríðsglæpi bandaríska hersins í Írak og Afganistan og segist til að mynda hafa ferðast til Bagdad og hitt þar tvö börn sem misst höfðu föður sinn í ódæðinu, segir í grein Svölu.

Hér má lesa grein Svölu: Endalok frjálsrar umfjöllunar um glæpsamlegt atferli yfirvalda?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí