Sjálfstæðisflokkurinn og meirihlutinn í Reykjavík sammála í flestum tilfellum

Af þeim 111 breytingartillögum sem meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokksins, Pírata og Viðreisnar lagði fram við fjárhagsáætlun Reykjavíkur, samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn 77 þeirra. Þetta þýðir að meirihlutinn og Sjálfstæðismenn voru sammála í tæplega 70% tilfella.

Hinn tiltölulega nýi meirihluti Reykjavíkur nær þannig ágætis samhljómi með ysta hægri flokknum í Ráðhúsinu. Það virðist ekki muna miklu málefnalega. Sjálfstæðismenn gagnrýna að ekki hafi verið gengið nógu langt í niðurskurðaraðgerðum.

Meirihlutinn tekur undir að „hagræðing“ sé nauðsynleg en að ekki sé þörf á að ganga eins langt og Sjálfstæðisflokkkurinn. Aðalágreiningurinn snýst því um hversu mikill niðurskurðurinn í borginni eigi að vera.

Meðal breytingartillagna meirihlutans sem Sjálfstæðismenn samþykktu voru niðurlagning Vin dagseturs, niðurskurðir á bókasöfnum, styttri opnun sundlauga og lækkun hljóðvistarstyrkja.

Eina tillagan sem meirihlutinn samþykkti frá minnihlutanum kom þar að auki frá Sjálfstæðisflokknum. Sú tillaga sneri að því að selja bústað borgarfulltrúa í hagræðingarskyni. Engin mál frá flokkum vinstra megin við miðju voru samþykkt.

Til samanburðar samþykkti næst stærsti minnihlutaflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, 12 breytingartillögur meirihlutans. Það þýðir að meirihlutinn og Sósíalistar náðu saman í 10% tilfella. Nokkuð ljóst virðist vera að núverandi meirihluti Reykjavíkur hallar sér til hægri.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí