Efling boðar til verkfalls hjá Íslandshótelum

Verkalýðsmál 23. jan 2023

Samninganefnd Eflingar – stéttarfélags samþykkti í gær á fundi sínum verkfallsboðun sem tekur til starfsstöðva Íslandshótela á félagssvæði Eflingar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu. Þar segir að verkfallsboðunin fari nú í atkvæðagreiðslu meðal þess félagsfólks sem aðgerðirnar taka til. Er þar um að ræða félagsfólk sem sinnir þrifum á herbergjum og í sameiginlegum rýmum, störfum í eldhúsi, við framreiðslu veitinga, þvott og fleira.

„Hótelstarfsfólk er með lægst launaða fólki á íslenskum vinnumarkaði, að yfirgnæfandi meirihluta konur af erlendum uppruna. Þessi sami hópur samþykkti sögulegar verkfallsaðgerðir vorið 2019 sem áttu mikinn þátt í að ljúka góðum kjarasamningum þá. Eftir þessu man félagsfólk. Hjá þeim skynja ég sama hugrekki, sömu reisn og sömu staðfestu og árið 2019,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur formanni Eflingar í tilkynningunni.

Hótel Íslandshótela á höfuðborgarsvæðinu eru Hótel Saga nýtt hótel í Lækjargötu, Grand Hótel við Kringlumýrarbraut, Hótel Centrum á horni Túngötu og Aðalstrætis, Fosshótel við Þórunnartún, Fosshótel við Barónsstíg, Fosshótel Lind við Rauðarárstíg og hótel Rauðará við sömu götu.

Atkvæðagreiðslan opnar á hádegi á morgun þriðjudag og stendur fram á mánudagskvöld, segir í tilkynningunni.

Þar kemur líka fram að samninganefnd Eflingar hafi fundað með fjölmennum hópi starfsfólks Íslandshótela í gærkvöldi, áður en að verkfallsboðunin var samþykkt. Meðlimir samninganefndar Eflingar hafa jafnframt heimsótt allar starfsstöðvar Íslandshótela og rætt við félagsfólk.

Í síðasta tilboði til SA krafðist samninganefnd Eflingar þess að hótelstörf yrðu hækkuð um launaflokk. Töfluhækkun tilboðs Eflingar myndi skila almennum hótelstarfsmanni með eins árs starfsaldur rúmlega 55 þúsund króna hækkun grunnlauna, til viðbótar við framfærsluuppbót að upphæð 15 þúsund á mánuði vegna hás framfærslukostnaðar á höfuðborgarsvæðinu.

Myndin er af samninganefnd Eflingar, sem stillti sér upp til. myndatöku í gær.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí