Öll helstu samtök launafólks hafa gagnrýnt miðlunartillögu Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara, samtökin sjálf í harðorða yfirlýsingum og forystufólkið í ræðu og riti. Minna fer fyrir viðbrögðum þingflokkanna. Þögn verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar er athygli verð en Aðalsteinn Leifsson á pólitískar rætur í Alþýðuflokknum og Samfylkingu og í stjórn verkalýðsmálaráðsins er fyrst og fremst fólk sem hafa barist gegn Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar.
Aðalsteinn Leifsson var formaður Jafnaðarmannafélaginu, sem var aðildarfélag að Alþýðuflokknum og hluti þeirri pólitísku deiglu sem leiddi til stofnunar Samfylkingarinnar á Blair-tímanum á tíunda áratugnum. Aðalsteinn var þátttakandi í stúdentapólitík krata og var ritstjóri Stúdentablaðsins. Síðar var hann formaður Evrópusamtakanna á Íslandi sem var baráttusamtök fyrir stefnu Samfylkingarinnar um inngöngu Íslands í Evrópusambandsins.
Í stjórn verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar sitja þær Agnieszka Ewa Ziólkowska og Ólöf Helga Adolfsdóttir sem eru í virkri stjórnarandstöðu í Eflingu gegn forystu baráttulista Sólveigar Önnu. Þar er líka Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða, sem tilheyrir þeim hóp innan Starfsgreinasambandsins sem harðast hefur barist gegn Sólveigu og Eflingu.
Eftir ályktun miðstjórnar Alþýðusambandsins í gærkvöldi skrifaði Jóhann Páll Jóhansson þingmaður Samfylkingar á Facebook: „Ég er sammála forseta og miðstjórn ASÍ og hissa á framgöngu ríkissáttasemjara. Þetta er glannalegt og ótímabært valdboð, úr takti við vinnumarkaðslíkanið eins og við viljum hafa það; inngrip sem skaða traust og gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir kjarasamningsgerð og samskipti á vinnumarkaði næstu misserin. Og „miðlunartillaga“ er rangnefni þegar tillagan byggir aðeins á afstöðu annars deiluaðilans.“
Þá er athygli verð þögn Vg, en ríkissáttasemjari heyrir undir Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið þar sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður Vg, er ráðherra.
Nú síðast bættist framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins í hóp þeirra sem fordæma miðlunartillöguna. „Mikilvægt er að samningsaðilar fái ætíð fullt tækifæri til að ganga frá kjarasamningi án svo alvarlegra inngripa ríkissáttasemjara og telur framkvæmdastjórn SGS það tækifæri ekki hafa verið fullnýtt,“ segir í yfirlýsingunni.
Myndin er af heimsókn stjórnar verkalýðsmálaráðsins til þingflokks Samfylkingarinnar. Á henni er stjórnin ásamt formanni flokksins. Talið frá vinstri: Finnbogi Sveinbjörnsson, Agnieszka Ewa Ziólkowska, Gylfi Þór Gíslason, Kristrún Frostadóttir, Ólöf Helga Adolfsdóttir og Ingibjörg Ósk Birgisdóttir.
Eftirmáli: Eftir að fréttin birtist sendi stjórn verkalýðsmálaráð Samfylkingar frá sér þessa yfirlýsingu í gærkvöldi:
Ályktun frá stjórn Verkalýðsmálaráðs.
Stjón Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar hefur þá afstöðu að miðlunartillögu sem tæki til sáttamiðlunar eigi eingöngu að nota sem neyðarúrræði sem beitt er af ítrustu varfærni. Stjórn Verkalýðsmálaráðsins álítur inngripið ótímabært þar sem kosning um verkfallsboðun í kjaradeilu stóð yfir og verkfall því ekki verið boðað.
Allt inngrip af hálfu ríkisins í kjaradeilur verður að túlka þröngt til að verja lýðræðsilegan og sjálfstæðan rétt stéttarfélaga til að ná fram kjarasamningi. Um er að ræða mikilvægt hagsmunamál í kjaraviðræðum og getur inngripið skapað varasamt fordæmi til framtíðar. Einmitt af þeirri ástæðu telur stjórn Verkalýðsmálaráðsins nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort aðgerðir ríkissáttasemjara standist skoðun.