Fólki fjölgar og það eldist en sjúkraliðum fækkar

Heilbrigðismál 18. jan 2023

„Vissu þið að það voru fleiri stöðugildi sjúkraliða á Landspítalanum árið 2016 heldur en voru árið 2021?“ spyr Sandra B. Franks formaður Sjúkraliðafélags Íslands í grein á Vísi. Á sama tíma hefur landsmönnum fjölgað og öldruðum enn hraðar. Sandra segir þessa staðreynd illa samrýmast því sem ríkisstjórnin kallar stórsókn í heilbrigðismálum.

Sandra segir að á þessu fimm ára tímabili hafi mannfjöldi á Íslandi aukist um tæplega 40 þúsund sem er tvöfaldur íbúafjöldi Akureyrar og meira en allur íbúafjöldi Kópavogs. Þá hafi fjöldi eldri borgara aukist um tæp 19% á þessum fimm árum en það er sá hópur sem eðli málsins samkvæmt leitar meira til heilbrigðiskerfisins en aðrir aldurshópar. Jafnframt hafi árlegur fjöldi erlendra ferðamanna aukist frá 2015 um hálfa milljón en þetta er einnig hópur sem þarf stundum að leita eftir heilbrigðisþjónustu.

„Samræmist þetta þessari „stórsókn“ stjórnvalda sem iðulega er tala um þegar kemur að heilbrigðiskerfinu?“ spyr Sandra. „Ætti „stórsóknin“ ekki birtast í fleiri sjúkraliðum? Eitt af því sem starfsfólk Landspítalans hefur árum saman bent á, er mönnunarvandi hjúkrunar. Nú er hann staðfestur, svart á hvítu, í glænýju svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, alþingismanns.“

„Megin viðfangsefni sjúkraliða er nærhjúkrun og það vantar fleiri sjúkraliða inn á Landspítalann, sem og á aðrar heilbrigðisstofnanir,“ skrifar Sandra. „Fjöldi stöðugilda sjúkraliða hjá Reykjavíkurborg hefur sömuleiðis fækkað á þessu fimm ára tímabili. Fjöldinn hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur nánast staðið í stað en lítilsháttar fjölgun hefur átt sér stað hjá flestum heilbrigðisstofnunum út á landi en þó ekki öllum.“

Síðar segir í greininni: „Til að tryggja megi sem best gæði þjónustunnar og öryggi sjúklinga, og ekki síst skynsama notkun fjármuna, þarf fjöldi starfsmanna sem vinna við hjúkrun, að vera í samræmi við umfang og eðli þjónustunnar hverju sinni. Á Íslandi höfum við verið að mennta fjöldann allan af sjúkraliðum sem kjósa svo að starfa við eitthvað allt annað en fagið. Gild starfsleyfi sjúkraliða eru ríflega 5.200 en um 2.200 starfa við fagið. Um þessar mundir eru um 600 einstaklingar í sjúkraliðanámi, en um helmingur þeirra sem útskrifast munu leita á önnur mið og starfa við annað. Ástæðurnar eru augljósar, óviðunandi launakjör og krefjandi starfsaðstæður, en byrjunarlaun þeirra á eru 448.025 kr.

Lesa má grein Söndru hér: Mönnun sjúkra­liða.

Í spilarnum hér að ofan má sjá og heyra viðtal við Söndru við Rauða borðið.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí