Framfærslukostnaður fátæks launafólks hækkar mikið

Mikil hækkun húsaleigu að undanförnu og hækkun matarverðs veldur því að verðhækkanir koma einkar illa við lágtekjufólk þar sem þessir liðir vega þungt í útgjöldunum. Miðað við hækkanir síðustu þriggja mánaða er verðbólguhraði neysluvísitölu lágtekjufólks þannig 15,4% á meðan hraðinn á almennri verðbólgu er á sama tíma 6,6%.

Það er mikilvægt að skoða sérstaklega neyslu lágtekjufólks til að meta áhrif verðbólgu á þau sem síst þola verðhækkanir. Til að meta þetta hefur Samstöðin sett saman vísitölu sem byggir á kaupgetu verkafólk. Tekin eru saman neysluviðmið Umboðsmanns skuldara um nauðsynlega neyslu en samgönguliðurinn felldur burt, þar sem lágtekjufólk hefur ekki efni á að kaupa og reka bíl. Í stað bíls er sett inn mánaðarkort í strætó og 8 þús. kr. í leigubíla eða aðrar samgöngukosti. Hagstofan gefur út vísitölur einstakra neysluflokka og eru þær notaðar til að meta hækkanir á einstökum útgjaldaliðum, nema hvað gjaldskrá Strætó segir til um hækkun mánaðarkortsins.

Þar sem Umboðsmaður reiknar ekki húsnæðiskostnað er bætt við meðalverði 50 fm. íbúðar á höfuðborgarsvæðinu og leigan látin fylgja vísitölu leiguverðs höfuðborgarsvæðisins, samkvæmt mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Síðan er bætt við rafmagni og hita og sá kostnaður látinn hækka samkvæmt útreikningum Hagstofu.

Neyslan étur upp launin

Út úr þessu kemur lágmarkseyðsla lágtekjufólks sem var 356 þús. kr. í desember. Ef við tökum 6. launaflokk Starfsgreinasambandsins eftir þriggja ára starfsreynslu samkvæmt nýgerðum samningum, sem er taxti sem líklega algengastur, þá fékk fólk samkvæmt honum rúmlega 323.500 kr. útborgað í desember og síðan tæplega 34.700 kr. í húsnæðisbætur. Eftir lágmarksframfærslu sitja þá 2.256 kr. eftir til að mæta óvæntum útgjöldum.

Þetta er því vísitala og áætluð eyðsla þeirra sem eiga vart í sig og á. Þetta eru lífskjör verkafólks fyrir fulla dagvinnu, fólk sem leigir húsnæði og á ekki bíl.

Tekjur og útgjöld láglaunafólks

Samsetning eyðslunnar er lík því sem kannanir hafa dregið fram, þar sem lágtekjufólk er að borga um og yfir 50% ráðstöfunartekna sinna í húsaleigu:

ÚtgjaldaflokkurDes. ’22Hlutfall
Matur, hreinlætisvörur og heimilisbúnaður59.22716,6%
Föt og skór6.2531,8%
Læknis- og lyfjakostnaður12.1593,4%
Tómstundir27.1077,6%
Samskiptakostnaður18.5465,2%
Önnur þjónusta16.7414,7%
Samgöngur18.0005,1%
Húsaleiga185.06852,0%
Rafmagn og hiti12.9003,6%
ALLS:356.002100,0%

Þau sem unnu fulla vinnu og fengu greitt samkvæmt 6. launaflokk Starfsgreinasambandsins eftir þriggja ára starfsaldur fengu þessar tekjur í desember:

Tekjur og gjöldUpphæð
Full dagvinna417.148
Lífeyrissjóður-16.685
Reiknuð staðgreiðsla-127.894
Persónuafsláttur53.916
Félagsgjöld-2.920
Útborgað323.565
Húsnæðisbætur34.693
Til ráðstöfunar358.258
Lágmarksframfærsla-356.002
Til óvæntra útgjalda2.256

Ef við notum vísitölu lágtekjufólks til að skoða stöðuna á síðasta ári og breytinguna um áramótin þegar skatthlutföll og húsnæðisbætur hækkuðu þá kemur þetta út:

Í upphafi árs, eftir síðustu reglubundna hækkun lífskjarasamningsins er verkafólkið í mínus upp á 7.432 kr. Verðbólgan étur svo kaupmáttinn svo mínusinn verður meiri.

Tvennt vegur þó á móti fram að nýjum samningum. Í apríl hækkuðu ráðstöfunartekjurnar um 6.837 kr. vegna hagvaxtarauka upp á 10.500 kr. og í júní hækkuðu húsnæðisbætur um 3.246 kr. Eftir það át verðbólgan kaupmáttinn af auknu afli.

Launahækkanir og breytingar á sköttum og bótum

Í nóvember hækkuðu launin samkvæmt nýjum kjarasamningi. Þá lækkuðu húsnæðisbæturnar eilítið þannig að eftir sat hækkun ráðstöfunarfjár upp á 24.704 kr. Verðbólgan hélt áfram að kroppa í kaupmáttinn á móti. Eftir sem áður hafði 7.432 kr. mínusinn frá því í janúar breyst í 5.722 kr. afgang. Sem verðbólgan tók 3.467 kr. af í desember.

Síðasta súlan sýnir afganginn í janúar eftir breytingar á sköttum og hækkun húsnæðisbóta. Þarna er gert ráð fyrir að neysluvísitala lágtekjufólk hækki jafn mikið í janúar og hún gerði að meðaltali þrjá mánuðina á undan.

Frá því að hafa verið 7.432 kr. í mínus í janúar 2022 er verkafólkið á þessum taxta komið í 11.621 kr. plús. Þetta er breyting upp á 19.053 kr.

Á tímabilinu hafa laun hækkað ráðstöfunartekjur fólksins, það er útborguð laun eftir skatta og gjöld um 31.540 kr. en lagfæringar stjórnvalda á sköttum og bótum vegna verðbólgunnar hefur hækkað ráðstöfunartekjurnar um 16.884 kr. Samtals hefur ráðstöfunartekjurnar því hækkað um 48.424 kr. Verðbólgan hefur þegar étið 29.371 kr. af þessu svo eftir sitja 19.053 kr.

Hagvaxtarauki á ekki að bæta verðbólgu

Hér verðum við að ræða hagvaxtarauka, en 14.490 kr. af hækkun ráðstöfunartekna má rekja til hagvaxtarauka. Þegar gengið er til kjarasamninga er iðulega miðað við tvennt. Annars vegar verðlag og hvernig hækkun þess hefur étið upp kaupmátt. Markmiðið er að laun haldi verðgildi sínu. Hins vegar er horft til aukinnar framleiðni. Þegar framleiðni eykst er ekki nóg að hækka laun í takt við verðlag því þá mun hlutur launafólks af framleiðninni minnka en hlutur eigenda fyrirtækja stækka. Ef viðhalda á óbreyttri skiptingu milli launafólks og fyrirtækjaeigenda þarf því að hækka laun umfram verðlag sem nemur aukinni framleiðni. Ef auka á hlut launafólks á kostnað eigenda fyrirtækja þarf að hækka laun umfram verðlag og umfram aukna framleiðni.

Og um það snerust hagvaxtaraukarnir. Þeim var ætlað færa launafólki hlut af aukinni velsæld fyrirtækja. Í gegnum tíðina hafa laun að jafnaði hækkað umfram verðlag einmitt af þessum sökum, launafólki hefur tekist að ná til sín hlut af aukinni framlegð fyrirtækjanna. Það er því í raun rangt að fella hagvaxtaraukann inn í mat á því hvernig launin standast verðbólguna.

Sveiflan frá 7.432 kr. mínus í janúar 2022 yfir í 11.621 kr. í plús í janúar 2023 er því í raun ekki vegna varna gegn verðbólgu. Verðbólguvarnir nýrra launahækkana og leiðréttinga stjórnvalda á sköttum og bótum minnkaði 7.432 kr. mínusinn í 2.869 kr. Ástæðan fyrir 11.621 kr. í plús í janúar er fyrst og fremst hagvaxtaraukinn sem samið var um í lífskjarasamningunum 2019 og átti ekki að verja launin fyrir verðbólgu heldur tryggja launafólki hlutdeild í aukinni hagsæld.

Háskalegar horfur á næsta ári

En horfum framhjá ólíku eðli hagvaxtaraukans og annarra hækkana. Hversu lengi mun 11.621 kr. duga ef við reiknum með að neysluvísitala lágtekjufólks haldi áfram að hækka með sama hraða og raunin var síðustu þrjá mánuði.

Þetta er auðvitað hryllingsmynd, enda hefur hækkun neysluvísitölu láglaunafólks verið mikil undanfarna þrjá mánuði. Kjarasamningar og fjárlög byggja á spá um 5,6% verðbólgu, sem reyndar er orðið ljóst að mun aldrei standast. Hér eru teknir síðustu þrjár mánuðir á útgjöldum láglaunafólks þar sem hækkun húsaleigu og matar vegur þyngra en í almennri neysluvísitölu.

Neysluvísitala Hagstofunnar hækkaði um 1,6% síðustu þrjá mánuði en neysluvísitala lágtekjufólks hækkaði um 3,6%. Þar munar mest um 4,6% hækkun húsaleigu. Í neysluvísitölu lágtekjufólks er húsaleigan 52% af útgjöldum en aðeins rúm 4% í almennri neysluvísitölu. Þar er eigin húsaleiga, þ.e. húsnæðiskostnaður húseigenda, rétt tæp 20%. Og þar sem söluverð fasteigna hefur lækkað síðustu þrjá mánuði dregur húsnæðiskostnaður úr hækkun almennrar neysluvísitölu þvert á við það sem gerist í neysluvísitölu lágtekjufólks.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí