Greinin er þýðing á grein fjölmiðlamannsins, aktívistans, og höfundarins Thomas Fazi sem er hefur meðal annars skrifað bókina Reclaiming the State: A Progressive Vision of Sovereignty for a Post-Neoliberal World.
Varaforseti Evrópuþingsins, Eva Kaili, ávarpaði nýlega þingið í umræðum um „mannréttindi í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu“ og hafði óvænt skilaboð fram að færa: „Katar er fremst í flokki í þegar kemur að réttindum launþega.“ Það hefði þess vegna ekki átt að koma okkur á óvart þegar hún var í síðustu viku í hópi sex einstaklinga sem belgíska lögreglan handtók vegna ásakana um spillingu og peningaþvætti í tengslum við landið.
Valdastéttin í ESB var fljót að reyna að draga úr málinu og segja það aðeins tengjast fáeinum skemmdum eplum. Hópur embættismenn Evrópuþingsins sagði fjölmiðlinum Politico að ásakanirnar væru takmarkaðar við nokkra einstaklinga“ sem hefðu villst af leið. Aðrir búast þó við að fleiri nöfn flækist í dragnótina þegar líða tekur. Það er þó ekki aðal atriði málsins. Með því að einblína á „Katar-gate“ er hætt við að við missum sjónar af þeirri staðreynd að hneykslismálið er einkenni mun dýpra og víðtækara vandamáls sem nær ekki bara til Evrópuþingsins heldur allra stofnana ESB. Mútuþægni og spilling eru nefnilega landlæg í Brussel — og mest af henni er fullkomlega löglegt.
Talið er að meira en 30.000 lobbýistar starfi í Brussel, sem gerir það að annarri stærstu höfuðborg hagsmunagæslu í heiminum á eftir Washington, DC. Flestir eru í þjónustu fyrirtækja og hagsmunahópa, með gríðarlega háar fjárhæðir til ráðstöfunar: Samanlagt fjármagn þeirra 12.400 fyrirtækja og samtaka á skrá hjá ESB hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin – sérstaklega eftir heimsfaraldurinn – og nemur í dag um 1,8 milljarði evra.
Efst á listanum eru stóru tækni, lyfja, og orkufyrirtækin, risar eins og Apple, Google, Meta, Bayer og Shell, auk iðnaðarsamtaka eins og European Chemical Industry Council, European Federation of Pharmaceutical Industries and Associations (EFPIA), og BusinessEurope — sem öll skýra frá árlegum fjárveitingum til lobbýisma upp á 4-6 milljónir evra. Hin rétta tala er líklega umtalsvert hærri, ef við horfum til langrar sögu fyrirtækja við að vantelja útgjöld sín.
Sérstaklega var það tækni– og lyfjaiðnaðurinn sem jók verulega kraftinn í hagsmunagæslu sinni í gegnum heimsfaraldurinn. EFPIA samtökin ein og sér — sem innihalda Pfizer, AstraZeneca og Johnson & Johnson — juku útgjöld sín um 20% árið 2020. Varlega áætlað eru heildarútgjöld lyfjaiðnaðarins til hagsmunagæslu í ESB nú nálægt 40 milljónum evra á ári, þar sem nærri 300 lobbýistar starfa opinberlega í Brussel til að þrýsta á um hagsmuni greinarinnar (þó raunverulegur fjöldi sé líklega hærri, þar sem upplýsingareglur ná ekki yfir lögfræðiþjónustu, akademískra samstarfsaðila og starfsemi í einstökum löndum).
Það er óhætt að segja að fjárfestingin hafi verið skilað sér ríflega: í árslok 2021 hafði ESB skrifað undir trúnaðarsamninga að andvirði 71 milljarða evra, sem tryggði allt að 4,6 milljarða skammta af bóluefnum (meira en tíu skammtar fyrir hvern evrópskan borgara). Forseti framkvæmdastjórnar ESB, Ursula von der Leyen, samdi um stærsta samning sinn til þessa við Pfizer — fyrir allt að 1,8 milljarða skammta, að verðmæti allt að 35 milljarða evra ef nýttir að fullu — í gegnum röð textaskilaboða við framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Ríkissaksóknari Evrópu hefur hafið rannsókn á málinu.
Alvarleg tilvik sem þessi hylja hins vegar hið raunverulega umfang vandans sem ríkir í öllum sviðum Brusselkerfisins. Það fer ekki á milli mála að þessi her vel fjármagnaðra lobbýista, sem er mun fjölmennari og eyðir mun hærri upphæðum en hagsmunasamtök almennings, færir fyrirtækjum gríðarleg áhrif yfir evrópskri ákvarðanatöku og löggjafarferli. Forréttindi þessara lobbýista ná einnig beint til þeirra sem taka ákvarðanirnar: Stærstu fyrirtækin og hagsmunasamtökin halda hundruð funda með framkvæmdastjórn ESB á hverju ári. Á milli desember 2019 og maí 2022, svo dæmi sé tekið, tók Evrópunefndin undir stjórn Ursula von der Leyen þátt í ótrúlegum fjölda 500 funda með fulltrúum og lobbýistum olíu-, gas- og kolafyrirtækja — nálægt einum fundi á hverjum virkum degi.
Síðan stríðið hófst hefur vopnaiðnaðurinn einnig og með góðum árangri aukið hagsmunagæslu sína og notað óvissuna sem ríkir til að hvítþvo ímynd sína og staðsetja sig sem mikilvægan samstarfsaðila sem geti útvegað nauðsynleg tæki og tól til að tryggja öryggi í álfunni. Dagana eftir innrás Pútíns gekk þýski lobbýistahópur vopnaframleiðenda BDSV jafnvel svo langt að biðja ESB um að „viðurkenna varnariðnaðinn sem jákvætt framlag til félagslegrar sjálfbærni“.
Á sama tíma einoka lobbýistar þessara fyrirtækja nú aðild að mörgum ráðgjafahópum framkvæmdastjórnarinnar. Það ætti ekki að koma á óvart að þessi áhrif geta auðveldlega leitt til hlutdrægra ráðlegginga. Rannsóknir eftirlitsstofnana hafa leitt í ljós að 75% funda framkvæmdastjóra og háttsettra embættismanna í framkvæmdastjórninni með lobbýistum eru með lobbýistum stórfyrirtækja. Á lykilsviðum eins og fjármálareglugerða, stafrænnar þjónustu, innri markaðar og stefnu í alþjóðaviðskiptum fer þessi tala upp í yfir 80%. Þetta er sérstaklega áhyggjuefni ef við lítum til þess að mjög stór hluti þeirra laga sem samþykkt eru af þjóðþingum — um málefni allt frá matvælaöryggi til vinnuaðstæðna vörubílstjóra — eru ákveðin á vettvangi ESB og síðan tekin upp af fjölda evrópskra þjóðþinga.
Til að gera illt verra, þrátt fyrir tilvist þessara lobbýista, er tiltölulega lítið eftirlit með öllu ferlinu. Krafan um að lobbýistar skrái sig í sérstaka gagnsæisskrá sambandsins var aðeins skylda á síðasta ári. Fram að því var skráning í kerfið valfrjáls, sem leiddi eðlilega til gríðarlegs skorts á skráningum. Þetta setti ESB langt undir viðmið annara frjálslyndra lýðræðisríkja eins og Bandaríkjanna, og jafnvel nokkurra aðildarríkja sambandsins.
Samt sem áður eru nokkrar glufur enn til staðar. Þó að háttsettir embættismenn framkvæmdastjórnarinnar og nefndarformenn og skýrslugjafar Evrópuþingsins, sem semja lagafrumvörp, þurfi að skrá og birta fundi sína með lobbýistum, eru venjulegir Evrópuþingmenn — sem greiða atkvæði um tillögurnar — og annað starfsfólk og aðstoðarmenn, aðeins hvattir til þess en ekki skildaðir. Evrópuþingið, eins og haft er eftir Alberto Alemanno, lagaprófessor við HEC París „er eina stofnunin sem setur fulltrúum sínum nánast engar reglur og framfylgir siðferðisreglum af mjög veikum mætti“.
Þar að auki þarf aðeins að uppfæra hagsmunaskrá ESB einu sinni á ári og hún veitir ekki mikilvægar upplýsingar um tiltekin lög og stefnumál, sem gerir það erfitt að fylgjast með lobbýistum. Og svo er það hin alræmda „snúningshurð“ í Brussel sem gerir framkvæmdastjórnarmönnum, Evrópuþingmönnum og embættismönnum ESB kleift að ganga beint í lobbýistastörf þegar þeir ljúka störfum — eins og nýlegur snúningur Barroso, forseta framkvæmdastjórnarinnar, til Goldman Sachs og skipti Neelie Kroes til Uber og Bank of America. Hurðin sveiflast líka í hina áttina: núverandi framkvæmdastjóri Lyfjastofnunar Evrópu, Emer Cooke, starfaði áður fyrir EFPIA, stærstu samtök lyfjafyrirtækja í Evrópu.
ESB-sinnaðir umbótasinnar segja að hægt sé að leysa þessi vandamál með lagfæringum á stofnunum sambandsins, eins og að útvíkka kröfuna um að birta fundi með lobbýistum til allra embættismanna, innleiða strangari siðareglur og setja á fót siðanefnd sem hefur eftirlit með öllum stofnunum sambandsins. Sumir halda því fram að vandamálið sé ógegnsætt eðli löggjafarferlis ESB, sem gerir það nánast ómögulegt fyrir venjulega borgara og jafnvel heilu þjóðþingin „að kanna hvernig fulltrúar þeirra hafa hagað sér“ eins og Emily O’Reilly, opinber umboðsmaður Evrópu, viðurkenndi. Aðrir halda því fram að lausnin sé að „lýðræðisvæða ESB“ með því að styrkja Evrópuþingið.
En allar þessar tillögur taka ekki með í reikninginn að ESB, vegna yfirþjóðlegs (supranational) og tæknikratísks eðlis síns, er kerfislega viðkvæmt fyrir yfirtöku lobbýista, hvort sem það eru erlend stjórnvöld eða fjölþjóðleg fyrirtæki — og engar umbætur munu breyta því. Vandamál tengd lobbýisma eru að sjálfsögðu einnig til staðar innan einstakra landa. Hins vegar er vandamálið stórlega aukið á yfirþjóðlegum vettvangi. Eins og rannsakendurnir Lorenzo Del Savio og Matteo Mameli skrifa: „Alþjóðlegir staðir eru almennt líkamlega, sálfræðilega og tungumálalega fjarlægari venjulegu fólki en þjóðir. Þessi fjarlægð þýðir meira pláss fyrir fákeppni.“ Það er lýsandi í þessu sambandi að flestir Evrópubúar hafa ekki hugmynd um hver forseti Evrópuþingsins er.
Í þessum skilningi ætti að líta á spillingarvanda ESB sem eðlislæga afleiðingu yfirþjóðvæðingar stjórnmálanna, frekar en villu í kerfinu. Að gera ESB „lýðræðislegra“ mun ekki breyta þeirri staðreynd að skortur á evrópsku lýðsamfélagi (demos)* er óyfirstíganleg hindrun fyrir stofnun evrópsks lýðræðis, jafnvel þótt Brussel hefði áhuga á að fara í þá átt (sem er ekki í kortunum). Fjöldi spilltra embættismanna sem voru viðriðnir hið viðvaningslega Katar-gate skiptir litlu máli; því fyrir ESB er það nú þegar of seint.
*Demos, sem gæti útlagst sem „lýðsamfélag“ á Íslenski, er pólitískt samfélag, venjulega (þó ekki eingöngu) skilgreint af sameiginlegu og tiltölulega einsleitu tungumáli, menningu, sögu, venjum osfrv. — „meirihluti [þar sem meðlimir] telja sig nægilega tengda hver öðrum til að skuldbinda sig af fúsum og frjálsum vilja í lýðræðislegri umræðu og tengds ákvarðanatökuferlis“ (Cederman 2001, bls. 224).