Keyptu burt draum um vistvænt hafnarsvæði

Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi í Kópavogi lýsir vonbrigðum sínum með niðurstöðu bæjarstjórnar um skipulag á hinum umdeilda reit 13 á Kársnesinu í færslu á FB síðu sinni. Hún segir feril málsins í höndum bæjarstjórnar vera uppdrátt af handbók um hvernig hægt sé að búa til fjármagn með skipulagi, enda málið framsett af fjárfestum í þeirra þágu

Reiturinn sem var samþykktur af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í gær liggur upp við Kópavogshöfn og minnir Theodóra á að þetta sé reiturinn sem bjó til heilt pólitískt framboð í vor. „Með þessu fór stóra tækifæri okkar Kópavogsbúa til útbúa mannvænt og framsækið hafnarsvæði þar sem fólk kemur saman til að njóta veitinga alveg við höfnina. Í staðin kemur þarna steypufrumskógur sem myndar virki með fram ströndinni, beint fyrir framan höfnina með stíg á milli. Ef ég skil það rétt þá mun það vera samgöngustígur. Þar verður „inngarður“ sem er í raun bara inngangur og bílastæði einungis fyrir þá sem þar munu búa”, segir hún.

Bæjarstjórn samþykkti eingöngu íbúðir á svæðinu í gær vog lýsir Theodóra þeirri ótrúlegu vegferð sem fram fór við skipulagið og hvernig hægt væri að útbúa handbók eftir málinu um „hvernig búa á til fjármagn með skipulagi“. Hún segir þetta augljóslega hafa verið einungis fjárfestingaverkefni, skipulagt og framsett af fjárfestum en þeir hafi selt reitinn um leið og skipulagið fór í auglýsingu. Þá segir hún fjölmarga formgalla vera á málinu sem hún hafi reynt að útskýra á bæjarstjórnarfundinum.

Með þessari niðurstöðu sé draumur bæjarbúa fyrir bí um líflegt hafnarsvæði með þjónustu sem dregur að sér mannlíf og útivist. Þarna hafi ófagleg vinna átt sér stað og engin framsýn né heildarhugsun um verslun og þjónustu á svæði þar sem ný hugsun hafi átt að gilda með tilkomu vistvænna samgangna.

Myndin er af tillögu um skipulag vistvæns hafnarhverfis.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí