Klámiðnaðurinn þrífst á mansali og efnahagslegri neyð

Vændi 30. jan 2023 Sara Stef. Hildar

Stígamót gera alvarlegar athugasemdir við umdeilt frumvarp pírata um afnám við banni á klámi en samtökin sendu í dag frá sér umsögn við frumvarpið.

Samtökin benda á að klám sé annað en kynlíf og að klámiðnaðurinn þrífist á mansali, með öðrum orðum þrælahaldi, sem byggist á undirskipan kvenna og barna. Rannsóknir hafa einnig sýnt að konur sem neyðast í klám og vændi gera það í efnahagslegri neyð.

Tölur eru á reiki en alræmdasta klámsíða heims, Pornhub, veltir a.m.k. 100 milljörðum dollara á ári. Einn eigenda Pornhub, David Tassilo, fannst í Pandóraskjölunum sem afhjúpuðu fjölda ofurríkra sem skjóta fé undan skatti og koma því í skjól svokallaðra aflandseyja eða skatta“paradísa“.

Eðli málsins samkvæmt fara laun kvenna og barna sem seld eru og neydd í vændi og klámframleiðslu að minnstu ef nokkru leyti í þeirra eigin vasa. Klámiðnaðurinn arðrænir þannig ekki aðeins konur og börn heldur sýna rannsóknir og hjálparstarf við þau sem komast lifandi frá þessum iðnaði að sálrænar afleiðingar vændis eru ævarandi fyrir einstaklingana.

Skv. rannsóknum eru konur og börn 71% þeirra sem seld eru í þrælahald árlega og einnig yfir 96% þeirra sem seld eru í vændi og klámframleiðslu.

Umsögn Stígamóta er ítarleg og afgerandi gegn afnámi bannsins en samtökin lýsa í sjö liðum hvernig skaðleg áhrif kláms birtast einstaklingum, í samskiptum, samböndum og kynlífi. Samtökin benda einnig á ótvíræðar afleiðingar kláms á jafnréttisbaráttu og kvenfrelsi en stafrænt vændi á síðum eins og Onlyfans eru hluti af þeim ógnarstóra lýðheilsuvanda sem klámiðnaðurinn er. Frumvarp pírata vísar í Onlyfans sem hluta af vinnumarkaði þar sem fólk framleiðir sjálfviljugt efni fyrir erótískar efnisveitur þótt fréttaflutningur og rannsóknir sýni að lögmál klámiðnaðarins um arðrán og mansal eigi jafnt við um Onlyfans sem önnur útibú klámframleiðenda sem þéna óhóflega á þjáningum annarra.

Stígamót gera þá kröfu að stjórnvöld beini sjónum sínum að almenningi og þeim kerfum sem við höfum til að spyrna gegn þeirri þróun sem normalísering á klámi felur í sér: „Lítið hefur verið gert til að stemma stigu við klámáhorfi og styðja foreldra til að auka öryggi barna sinna sem og að taka samtalið við þau. Þá hafa kennarar fengið litla þjálfun eða rými til að kenna nemendum sínum um þessa ógn sem að þeim steðjar og bjóða jákvætt mótvægi. Þetta er það sem Alþingi ætti að vera ræða en ekki hvort lyfta eigi öllum refsiákvæðum af klámi. Stígamót kalla eftir því að sett verði fjármagn í að rannsaka betur áhrif kláms á íslensk ungmenni og í þróun námsefnis um klám. Þá ítreka Stígamót þá afstöðu sína að kynjafræði sem inniheldur fræðslu um kynlíf, klám, ofbeldi og samskipti verði hluti af aðalnámskrá og þannig verði öllum börnum á Íslandi tryggð þessi nauðsynlega menntun.“

Lögin eru skýr og fjalla um klám en ekki kynlíf en frumvarpið hefur verið gagnrýnt fyrir að rugla saman þessum tveimur hugtökum. Alls hafa níu umsagnir frá einstaklingum og félagasamtökum  borist allsherjar- og menntamálanefnd.  Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir fer fyrir frumvarpinu fyrir hönd pírata.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí