„Íslandshótel nota vankunnáttu starfsmanna sinna á réttindum sínum til að svindla á þeim. Þau borga nærri aldrei yfir lágmarkslaunum samkvæmt kjarasamningum. Starfsmenn fá oft ekki lágmarkshvíld sem kveðið er á um í kjarasamningum. Erlendis starfsmenn á lélegum launum vinna vinnu latra Íslendinga sem eru í áskrift af launum sínum og gera lítið sem ekkert.“
Þetta er skrifað á þráð á Reddit þar sem starfsfólk í láglaunastörfum skiptist á reynslusögum af slæmum fyrirtækjum. Nú stendur yfir kosning meðal Eflingarfólks um verkfall á Íslandshótelum, verkfall sem miðlunartillaga ríkissáttasemjara mun mögulega stöðva.
„Ég vann á Fosshótel Reykjavík frá opnun í kannski 1-1.5 ár,“ skrifar önnur. „Þau ákváðu eftir nokkra mánuði af allir myndu fá vinnujakkaföt. Ég var ekki hrifinn af hugmyndinni (léleg gæði, svitnaði ótrúlega mikið í móttökunni, ljót). Svo var okkur sagt að við ættum að þvo þau sjálf. Mér fannst það mjög skrýtið. Kvartaði smá. Spurði trúnaðarmanninn hjá stéttarfélaginu hvort það mætti. Yfirmaðurinn minn komst að því, varð algjörlega brjálaður og tilkynnti að nú yrði stríð, og byrjaði að koma mjög illa fram við mig, af ásettu ráði. Gaur sem ég kunni mjög vel við fyrst. Ekki eftir þetta. Aðstoðarhótelstjóri reyndi líka að fá mig til að tala við sig i staðinn fyrir trúnaðarmanninn (nýbúið að reka hann þá). Hún sagðist vera trúnaðarmaðurinn (hún var það ekki, auðvitað). Ógeðslegt pakk. En mjög skemmtilegir samstarfsmenn.“
„Starfsmenn fá fáar pásur og vinna oft 12 tíma á fótunum,“ heldur sú áfram sem skrifaði fyrst. „Öryggismyndavélar eru á þeim einu stöðum þar sem hægt er að sitja í sófum til að hlaða batteríin til að halda áfram vinnu. Micromanaging yfirmenn labba um allan daginn og passa að starfsmenn eru ekki að taka „óþarfa“ pásur eins og þetta séu þrælabúðir. Þau ná lítið að halda í starfsmenn vegna lélegra kjara og mikillar vinnu, fyrir utan þá starfsmenn sem eru komnir með Stockholm Syndrome.“
„Vann hjá þeim í aðeins meira en 1 og hálft ár,“ skrifar sú þriðja. „Upplifun mín var sú sama, þegar öllu lokaði í covid fann ég mér nýja vinnu. Skellti næstum upp úr þegar yfirmaður hringdi í mig og spurði hvort ég kæmi ekki til baka þegar það var opnað aftur.“
Í tilkynningu frá Eflingu kemur fram að til félagsins hafi leitað félagsmenn sem starfa á hótelum Íslandshótela. Þeir hafa afhent Eflingu afrit af ódagsettu bréfi/veggspjaldi þar sem fyrirtækið notfærir sér hótanir um tekjumissi til að hafa áhrif á skoðanir og kosningahegðun starfsfólks í verkfallskosningu sem nú stendur yfir. Jafnframt að fyrirtækið skyldaði alla Eflingarfélaga á vinnustaðnum til að mæta á fund þar sem sams konar skilaboðum var komið áleiðis með einhliða og villandi hætti. Og kvartanir vegna afskipta stjórnenda af félagsfólki varðandi yfirstandandi verkfallskosningu.
„Starfsfólk upplifir að atvinnuöryggi þeirra sé ógnað, auk vanlíðunar vegna álags og þrýstings sem þessi afskipti skapa,“ segir í bréfi Eflingar til Íslandshótela. „Slíkur þrýstingur á starfsfólk vegna stéttarfélagsmálefna og vinnudeilna er með öllu óheimill samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Texti 4. gr. laganna er svohljóðandi:
„Atvinnurekendum … er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með … uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn [eða] fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.“
Efling – stéttarfélags krefst þess að Íslandshótel láti þegar í stað af ólöglegum tilraunum sínum til að setja þrýsting á starfsfólk vegna yfirstandandi verkfallskosningar með hótunum um tekjumissi og/eða loforðum um peningagreiðslur,“ segir í lok bréfsins.