Ragnar Þór vill áfram vera formaður VR

Verkalýðsmál 20. jan 2023

„Ég hef tekið ákvörðun um að bjóða mig fram til áframhaldandi formennsku í VR en kosningar fara fram í félaginu í mars næstkomandi,“ skrifar Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR á Facebook-síðu sína.

Ragnar Þór fékk mótframboð frá Helgu Guðrúnu Jónasdóttur, fyrrum formanni Sjálfstæðiskvenna, þegar kosið var síðast. Ragnar Þór sigraði kjörið með 63% atkvæða en Helga Guðrún fékk 34%. Ragnar var fyrst kjörinn 2017 og felldi þá sitjandi formann, Ólafíu B. Rafnsdóttur, með 63% atkvæða á móti 37% atkvæða Ólafíu. Ragnar Þór var sjálfkjörinn 2019.

Ragnar bauð sig fram sem forseta Alþýðusambandsins í haust en dró framboð sitt til baka þegar þing sambandsins leystist upp. Þá hugðist hann hætta sem formaður VR.

„Það hefur farið mikil orka í innbyrðis átök á vettvangi ASÍ og er hreyfingin þverklofin hvað það varðar,“ skrifar Ragnar Þór á Facebook. „Ég trúi því að hreyfingunni beri gæfa til að vinna sig í gegnum þessa stöðu á komandi framhaldsþingi ASÍ og mun ég leggja mitt af mörkum svo það megi verða.“

Ragnar Þór fjallar síðan um stöðu VR sem hann segir góða og að eindrægni ríki innan stjórnar. Hann bendir líka á fyrirhugaða byggingu leiguhúsnæðis á vegum Blæs, sem hann hefur haft forystu um.

„Ég mun halda áfram að berjast gegn spillingu í íslensku samfélagi en fyrst og fremst einbeita mér að því frábæra starfi sem stjórn og starfsfólk VR hefur unnið á vettvangi réttlætis og kjarabaráttunnar,“ skrifar Ragnar í lok færslunnar.

Lesa má yfirlýsingu Ragnars Þórs hér: Facebook-síða Ragnars Þórs.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí