Sáttasemjari slær verkfallsvopnið úr höndum Eflingar

Verkalýðsmál 27. jan 2023

„Miðlunartillaga er neyðarúrræði ríkissáttasemjara sem verður að beita af mikilli varfærni og á viðeigandi tímapunkti. Að leggja til miðlunartillögu áður en niðurstaða kosningar um verkfallsaðgerðir liggur fyrir leiðir óhjákvæmilega til þess að verkfallsvopnið er slegið úr höndum stéttarfélaga sem hafa fullan rétt á að beita því,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu BHM, BSRB og KÍ um miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

BHM, BSRB og KÍ gera alvarlegar athugasemdir við inngrip ríkissáttasemjara.

„Afar fátítt er að miðlunartillögum sé beitt og hefur það helst verið gert á opinberum vinnumarkaði,“ segir í yfirlýsingunni. Bent er á að lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur séu skýr hvað varðar formkröfur fyrir slíkri miðlunartillögu, þ. á m. um skyldur ríkissáttasemjara til samráðs við samningsaðila um slíka tillögu. Í II. kafla laga nr. 80/1938 er að finna þær leiðir sem aðilum kjarasamnings eru heimilar í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum. Í tilviki stéttarfélaga ber þar hæst verkfallsheimildin, segir í tilkynningunni.

„Það er stórt og alvarlegt inngrip í vinnudeilu af hálfu ríkissáttasemjara að leggja fram miðlunartillögu. Sérstaklega þegar horft er til þess að þátttaka í kosningu þarf að vera mjög mikil svo unnt sé að fella tillöguna,“ segir BSRB. BHM og KÍ. „Lögum samkvæmt þarf 25% félagsfólks að synja miðlunartillögu. Þröskuldurinn er því mun hærri en þegar kosið er um kjarasamninga og verkfallsaðgerðir og getur komið upp sú staða að tillagan teldist samþykkt jafnvel þó meirihluti atkvæða félli gegn henni. Kröfurnar sem lögin setja þýða í raun, með hliðsjón af framangreindu, að ríkissáttasemjari er að ákveða efni kjarasamnings í stað samningsaðila.“

Samrtökin gagnrýna líka tímapunktinn, að tillagan sé lögð fram meððan atkvæðagreiðsla stendur yfir um verkfall. „Að gera að engu verkfallsvopn stéttarfélags er alvarleg aðgerð og stórt ríkisinngrip. Þegar miðlunartillögu er beitt hefur það ekki aðeins áhrif á það stéttarfélag sem um ræðir heldur öll önnur stéttarfélög í landinu og getur skapað hættulegt fordæmi. Miðað við aðstæður og þær upplýsingar sem liggja fyrir nú gerum við alvarlegar athugasemdir við þá ákvörðun ríkissáttasemjara að leggja fram miðlunartillögu á þessum tímapunkti.“

Í lok yfirlýsingar sinnar gera BHM, BSRB og KÍ þá kröfu að sjálfstæður samningsréttur stéttarfélaga sé virtur. „Aldrei má ganga út frá því að kjarasamningur eins stéttarfélags bindi hendur annarra stéttarfélaga eða vegi að sjálfstæði þeirra. Hlutleysi og lagalegar forsendur þurfa að vera hafnar yfir allan vafa þegar ríkissáttasemjari ákveður að hlutast til um með beinum hætti í vinnudeilur.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí