Stefán Ólafsson prófessor og sérfræðingur Eflingar segir fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins um útlit sé fyrir aukinn kaupmátt heimila á árinu kostulega og villandi.
Í tilkynningunni er fullyrt: „Útlit er fyrir að kaupmáttur heimila aukist að nýju á árinu, sé tekið mið af nýundirrituðum kjarasamningum á almennum markaði. Áætla má að ráðstöfunartekjur meðaleinstaklings á almennum vinnumarkaði verði um það bil 50 þúsund krónum meiri í hverjum mánuði í ár en í fyrra, bæði vegna hækkunar með nýjum kjarasamningum og breytinga í tekjuskattskerfinu þar sem persónuafsláttur og þrepamörk hækka um 10,7%.“
Og síðar: „Áætla má, miðað við niðurstöður launarannsóknar Hagstofunnar og með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga, að ráðstöfunartekjur meðaleinstaklings á almennum vinnumarkaði verði u.þ.b. 50 þús. kr. meiri í hverjum mánuði í ár en í fyrra, þar af 8 þús. kr. meiri vegna uppfærðra viðmiða tekjuskatts.“
„Með þessu er dregin upp mjög villandi mynd,“ segir Stefán á Facebook. „Ráðstöfunartekjur eru heildartekjur eftir skatt. Meðalhækkun launataxta í nýgerðum kjarasamningi Starfsgreinasambandsins (SGS) eru um 42.000 kr. á mánuði. Þetta er tekið sem aukning „ráðstöfunartekna“ í fréttatilkynningunni (en þá á eftir að draga skattinn frá). Við þessar 42.000 kr. er síðan bætt 6.000 króna hækkun persónuafsláttar og 2.000 krónum vegna uppfærslu viðmiða fyrir álagningarþrep í tekjuskattinum, alls 8 þús. krónum. Þannig fær ráðuneytið það út að „ráðstöfunartekjur muni aukast um 50.000 kr. á mánuði“ á árinu 2023.
Til að þetta gæti staðist þyrfti þessi launahækkun að vera skattfrjáls og reglubundin uppfærsla viðmiða í tekjuskattskerfinu að vera ígildi skattalækkunar. Hvorugt fær staðist, eins og allir hljóta að sjá. Auðvitað þarf að greiða fullan tekjuskatt af launahækkuninni (um þriðjung fyrir láglaunafólk), enda kemur hún ofaná laun sem eru að fullnýta persónuafsláttinn nú þegar.
Hækkun viðmiðanna í tekjuskattinum er til að tryggja að skattbyrðin verði svipuð á milli áranna 2022 og 2023, enda er um að ræða uppfærslu vegna verðbólgu og framleiðniaukningar (9,6% verðbólga+1,1% framleiðniaukning=10,7%). Þetta er því ekki skattalækkun, eins og sumir hafa þegar talið, enda má skilja fréttatilkynningu ráðuneytisins þannig. Það er kostulegt að ráðuneyti skattamála láti slíkt frá sér fara.
Ef þessi uppfærsla væri ekki gerð þá myndi skattbyrðin aukast. Þetta fyrirkomulag á uppfærslu viðmiða tekjuskattkerfisins komst á samhliða gerð Lífskjarasamningsins og var mikilvægt, því stjórnvöld höfðu áður oft látið hjá líða að uppfæra viðmið skattsins nægilega til að viðhalda óbreyttri álagningu milli ára og í reynd þannig hækkað skattbyrðina.
Raunar er einnig ýjað að því í fréttatilkynningunni að „kaupmáttur“ ráðstöfunartekna meðaleinstaklings á vinnumarkaði muni hækka um sem nemur þessum 50.000 krónum, enda hafa fjölmiðlar og aðrir þegar talað um þetta þannig. En til að það gæti staðist þyrfti verðbólgan líka að vera horfin út úr myndinni. En hún er enn tæplega 10%.
Í þessari fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins er þannig gengið óvenju langt í að villa um fyrir fólki og ber að harma svona vinnubrögð.“