Ísak Jónsson, stjórnarmaður í Eflingu, skrifar á Facebook hvort það geti verið rétt sem forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sagði í áramótaávarpi sínu að nýlegir kjarasamningar hafi lagt sérstaka áherslu á hækkun lægstu launa. En í ávarpi sínu sagði forsætisráðherra:
“Þá skiptir miklu máli að í þeim skammtímasamningum sem nú liggja fyrir við meirihluta launafólks á almennum vinnumarkaði er áherslan á hækkun lægstu launa”
Ísak bendir á að hálaunafólk með meira en milljón á mánuði hafi fengið nærri tvöfalda hækkun miðað við fólk á lægstu töxtum:
„Það er afskaplega sérstakt að lesa þessa staðhæfingu hjá forsætisráðherranum okkar. Því eins og liggur ljóst fyrir þá eru töfluhækkanir þeirra á lægstu töxtunum 35 þúsund krónur á meðan þeir sem eru með milljón eða meira á mánuði fá 66 þúsund krónur.“
Hugmyndafræðilegir loftfimleikar
„Ég veit ekki í hvaða hugmyndafræðilegu loftfimleika hún fer til að komast að þeirri niðurstöðu að þarna sé „áherslan á hækkun lægstu launa“. Hvað finnst ykkur? Er forsætisráðherra þjóðarinnar að segja satt?“ spyr Ísak.
Kjarasamningar sem stór hluti verkafólks hefur samþykkt hafa valdið talsverðum deilum undanfarið og óánægju hjá hluta verkalýðshreyfingarinnar sem benda á að þeir gengi alls ekki nægilega langt þegar verðbólga er eins há og hún hefur verið undanfarið og hagnaður fyrirtækja í hæstu hæðum. Þá hefur verið bent á að verulegur hluti þeirra hækkana sem kynntar eru sem afrakstur þessara samninga voru áður umsamdar.
Samstöðin hefur fjallað um stöðuna og þá staðreynd að kaupmáttur grunnlauna hafi dregist saman um 4% á fyrstu tíu mánuðum ársins 2022. Núverandi kjarasamningar, sem Efling er ekki aðili að, byggja að auki á prósentuhækkunum öfugt við Lífskjarasamningana árið 2019 sem þýðir fleiri kórnur í vasa þeirra sem hafa hærri laun. Öfugt við þá samninga innihalda nýju samningarnir enga sérstaka leiðréttingu á kjörum lágtekjufólks.