Segir taugar sáttasemjara hafa brostið

Verkalýðsmál 27. jan 2023

„Miðlunartillaga ríkissáttasemjara er hræðileg mistök og fljótfærni,“ skrfiar Sverrir Mar Albertsson framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags á Austurlandi. „Ef marka má orð formanns Eflingar og framkvæmdastjóra SA virðist sem ekkert samráð hafi verið við samningsaðila en skv. lögum um sáttastörf í vinnudeilum ber sáttasemjara að ráðgast við deiluaðila áður en miðlunartillaga er borin fram.“

„Ekkert slíkt samráð virðist hafa verið,“ skrifar Sverrir í grein sem hann birtir á vef Heimildarinnar. „Miðlunartillagan virðist lögð fram gegn vilja beggja samningsaðila. Og það er í raun villandi að kalla þetta miðlunartillögu því skv. fréttum leggur sáttasemjari hér fram síðasta tilboð SA nánast óbreytt. Þetta er því ekki miðlunartillaga heldur hefur sáttasemjari gengið grímulaust í lið með Samtökum Atvinnulífsins og hefur sjónarmið samninganefndar Eflinga að engu.“

Greinin heldur áfram: „Það er erfitt að ráða í hvað veldur þessum flumbrugangi sáttasemjara. Núverandi sáttasemjari hefur verið farsæll þennan tíma sem hann hefur starfað og hafði áunnið sér nokkra velvild og traust.

Embætti ríkissáttasemjara er lykilembætti í siðuðum samfélögum sem reyna að halda stöðugleika og frið í efnahagslífi en um leið virða jafneðlileg mannréttindi og samningsfrelsi verkalýðsfélaga. Sáttasemjari verður að njóta trausts aðila vinnumarkaðarins og geta komið fram sem óvilhallur milligöngumaður – geta borið klæði á vopnin og talað fyrir lausnum og sátt.

Samningaviðræður eru taugastríð og mikilvægt að samningsaðilar haldi ró sinni og bogni ekki undan álagi. Talsmenn beggja deiluaðila virðast þola álagið vel – en mögulega hafa taugar sáttasemjara brostið og það er áhyggjuefni því það er auðvitað sáttasemjari sem á að vera yfirvegaður og með heildaryfirsýn og vera sá sem reynir að halda frið í allar áttir. Hann er nú beinlínis orðinn einn af deiluaðilum.“

Lesa má greinina hér: Sáttasemjari bregst.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí