Bergþóra Ingólfsdóttir, dómari við héraðsdóm Reykjavíkur, hefur frestað málflutningi í máli ríkissáttasemjara Aðalsteins Leifssonar gegn Eflingu stéttarfélagi til föstudags svo málsaðilar geti lagt fram greinargerðir sínar. í færslu á Facebook segir Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar Aðalstein ekki hafa fylgt skýrum ákvæðum um samráð áður en miðlunartillagan var lögð fram.
Ríkissáttasemjari lagði til afar umdeilda miðlunartillögu í síðustu viku og fór fram á að Efling legði fram félagaskrá sína svo hægt væri að nota hana sem ígildi kjörskrár. Efling neitar að láta hana af hendi og telur að ríkissáttasemjari hafi ekki farið að skilyrðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur við miðlunartillöguna og því sé tillagan ólögmæt. Sama eigi við um boðaða framkvæmd á atkvæðagreiðslunni.
Sólveig Anna birtir ítarlega færslu á Facebook síðu sinni rétt í þessu þar sem varpað er ljósi á atburðarásina daginn sem miðlunartillagan er lögð fram en hún segir ríkissáttasemjara brjóta lög og að hann reyni að notfæra sér að forysta Eflingar sé umdeild.
Sólveig Anna segir að sáttasemjara beri að ráðgast við samninganefndir aðila áður en hann ber fram miðlunartillögu og vísar til 27. gr. laga um stéttarfélag og vinnudeilur.
„Rétt upp úr kl. 15 þann 25. janúar fékk ég af því fregnir frá manni ótengdum Eflingu sem starfar í verkalýðshreyfingunni að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari væri í húsakynnum embættisins að ræða við aðila óviðkomandi Eflingu um að hann ætlaði sér að leggja fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins,“ skrifar Sólveig Anna. „Klukkan 15.17 sama dag sendi ég ríkissáttasemjara svohljóðandi póst: „Sæll, mér hefur borist til eyrna að þú ræðir um það á fundum í húsnæði ríkissáttasemjara við fulltrúa annara stéttarfélaga að þú sért í samráði við SA að undirbúa miðlunartillögu í deilu Eflingar og SA. Er þetta rétt?”
Klukkan 16.28 fékk ég svar frá ríkissáttasemjara þar sem hann sagði m.a.: „Ég hef, hins vegar, ítrekað verið spurður af því – m.a. af fólki í öðrum stéttarfélögum sem eru hér á fundum í ýmsum öðrum málum – hvort miðlunartillaga kynni að vera til lausnar deilunnar.“
Sólveig Anna skrifar að í símtali stuttu seinna hafi ríkissáttasemjari endurtekið að fjöldi fulltrúa annara stéttarfélaga hefðu rætt við hann möguleikann á miðlunartillögu, einnig blaðamenn og hann hefði meira að segja fengið skilaboð um það á Facebook.
Sólveig Anna segir að ríkissáttasemjari hafi fyrirskipað henni að koma á fund með mjög svo stuttum fyrirvara en hún sagðist ekki geta boðað samninganefnd félagsins með svo stuttum fyrirvara enda væri hún mönnuð fólki sem væri í vinnu og þyrfti alltaf smá fyrirvara til að fá leyfi frá vinnu. „Aðalsteinn sinnti þessu engu og hótaði að grípa til ótilgreindra “aðgerða” gegn mér ef að ég kæmi ekki á fund,“ skrifar Sólveig Anna. „Á fundinum sem haldinn var morguninn eftir, 26. janúar kl. 9.30., afhenti ríkissáttasemjari mér fullbúna miðlunartillögu ásamt skjali um “Framkvæmd og fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara”.
Sólveig segist ítrekað hafa reynt að koma því til skila á þessum fundi hvernig sú miðlunartillaga sem hann ætlaði sér að þröngva upp á Eflingu fæli í sér að Eflingar-fólk fengi allt að 20.000 krónum lægri hækkanir en meðlimir í öðrum SGS félögum, vegna mjög ólíkrar samsetningar félagahópsins.
Ríkissáttasemjari hafi ekki brugðist við neinum athugasemdum né sýnt nokkurn vilja til að meðtaka þær, þrátt fyrir að í klukkutíma hafi hún reynt af mikilli alvöru að koma honum í skilning um hversu hræðileg og röng ákvörðun hans væri. „Í lok fundarins spurði ég hvenær hann ætlaði sér að birta tillöguna opinberlega. Hann svaraði að það yrði seinna um daginn. Þegar ég gekk út af fundinum varð mér ljóst að ríkissáttasemjara lá á að losna við mig úr húsi vegna þess að hann var að hefja blaðamannafund kl. 11 til að segja þar öllum frá miðlunartillögu sinni.” segir Sólveig jafnframt.
Hún segir að ljóst sé og óumdeilanlegt að ríkissáttasemjari ráðgaðist á engum tímapunkti við formann Eflingar sem er jafnframt formaður samninganefndar félagsins. Hann ræddi fyrirætlanir sínar aftur á móti við fjölda annara, m.a. á kaffistofu embættisins við aðra formenn félaga sem tilheyra ASÍ. Þá segir hún hann vafalítið hafa rætt miðlunartillöguna við fulltrúa SA enda sé hún að öllu leyti samhljóma síðasta tilboði SA til Eflingar en inniheldur ekkert af kröfum Eflingar.
„Eina ástæðan fyrir því að hann kallaði mig á fund var sú að ég hafði við hann samband eftir að ég hafði frétt af tillögunni frá þriðja aðila. Þetta eru allt staðreyndir sem enginn getur hrakið” segir Sólveig Anna og bætir við “ Hin augljósa niðurstaða er þessi: Ríkissáttasemjari braut lög. Hann hefur eflaust talið, ásamt ráðgjöfum sínum og samverkafólki, að sökum þess að forysta Eflingar er “umdeild” kæmist hann upp með það. En þar hafði hann rangt fyrir sér. Hann mun ekki komast upp með tilraun sína til að svipta Eflingu sjálfstæðum samningsrétti. Það mun aldrei gerast.”