Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna barst ábending um að íbúðir væru auglýstar til leigu á samfélagsmiðlum á óvenju lágu verði. Virðist sem óprúttnir þrjótar reyni að nýta sér neyð húsnæðisleitenda.
Til að eiga kost á því að sækja um íbúðirnar þarf að greiða sérstakt umsóknargjald sem er á bilinu 4.900 kr. til 14.000 kr. Neytendasamtökin telja slíkt gjald fáránlegt og vara fólk við að greiða slík gjöld. Neytendasamtökin hafa spurnir af því að fólk hafi í góðri trú greitt gjaldið og hafa boðið fram aðstoð sína við að fá það endurgreitt.
Við snögga leit kom í ljós að myndir sem eiga að vera af leiguíbúðum í Reykjavík, eru fengnar frá hinum ýmsu stöðum, eins og á Facebook síðu fyrir innanhúsarkitektúr í Eistlandi og frá hóteli í Ósló. Leikur enginn vafi á að umræddar myndir eru ekki af íbúðum í Reykjavík. Þá er nafn meints fyrirtækis ekki að finna í fyrirtækjaskrá.
Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna hvetur húsnæðisleitendur til þess að hafa varann á, og skoða vel þá sem bjóða húsnæði til leigu. Það er meðal annars hægt með því að fletta fyrirtækjum upp í fyrirtækjaskrá Skattsins.
Húsnæðisleitendur eru hvattir til að hafa samband við Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna, séu þeir í vafa, eða hafa spurningar um rétt sinn og stöðu. Þjónusta Leigjendaaðstoðarinnar er leigjendum að kostnaðarlausu.
Hægt er að hafa senda tölvupóst: postur@leigjendur.is eða hringja á símatíma Leigjendaaðstoðarinnar á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 10:00-12:00 og 12:30-15:00, í síma 545 1200. Upplýsingar um réttindi og skyldur leigutaka og leigusala á íslensku, ensku og pólsku er að finna á www.leigjendur.is.
Neytendasamtökin reka Leigjendaaðstoð fyrir leigjendur íbúðarhúsnæðis samkvæmt samningi við innviðaráðuneytið (og áður félagsmálaráðuneytið).
Frétt ef vef Neytendasamtakanna.