Vilja samning sem miðast við framfærslu á höfuðborgarsvæðinu

Verkalýðsmál 8. jan 2023

Samninganefnd Eflingar segir að framfærslu á höfuðborgarsvæðinu vera hærri en á landsbyggðinni. Að jafnaði munar um 68 þús. kr. á húsnæðiskostnaði leigjenda á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Og þegar allur framfærslukostnaður er meðtalinn þá er munurinn að jafnaði nálægt 73 þús. kr. á mánuði. Eflingarfólk á höfuðborgarsvæðinu þyrfti að hafa um 95-100 þús. kr. hærri laun á mánuði til að eiga fyrir þessum auka framfærslukostnaði sem er á höfuðborgarsvæðinu, að mati samninganefndarinnar.

Samninganefndin sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna málflutnings SA í tilboði frá 4. janúar 2022:

Í greinargerð með tilboði SA til Eflingar á samningafundi 4. janúar er settur fram verulega ámælisverður málflutningur sem nauðsynlegt er að gera athugasemdir við. Dregin er upp villandi mynd af launa- og kaupmáttarþróun á grundvelli SGS-samningsins. Horft er fram hjá því að launatafla SGS félaga skilar meirihluta Eflingarfólks mun minni kjarabótum en landsbyggðarfélögum. Horft er fram hjá því að kostnaðarmat SGS-samningsins er verulega ótraust sem mælikvarði á launakostnað Eflingarfólks. Verulegur munur á framfærslukostnaði á höfuðborgarsvæði og landsbyggð er sagður „ómálefnalegur“.

Í eftirfarandi verða gerðar alvarlegar athugasemdir við þessi atriði á grundvelli ábyggilegra gagna.

SA krefst þess að samningur við Eflingu verði rammaður innan kostnaðarmats SA á SGS-samningnum. Það kostnaðarmat er augljóslega á mjög veikum forsendum byggt, einkum hvað snertir ólíka dreifingu félagsmanna SGS og Eflingar á starfsaldursþrep. Sá samningur yrði mun ódýrari hjá fyrirtækjum þar sem Eflingarfólk starfar en hjá fyrirtækjum þar sem meirihluti SGS-félaga starfar. Það er því ekki hægt að byggja á því kostnaðarmati að óbreyttu.

Verulega ýkt mynd af launa- og kaupmáttarþróun

Í greinargerð SA eru taldar allar launahækkanir úr Lífskjarasamningi frá 2020 (bæði taxtahækkanir og hagvaxtarauki) og þær lagðar saman við hækkun í SGS-samningnum. Þetta býr til stórlega ýkta mynd af launahækkunum sem raktar eru til samnings SGS frá nóvember síðastliðnum.

Í reynd eru lágmarkstaxtar SGS-félaga að hækka um 35.000 kr. á mánuði og almenn hækkun er 33.000 kr. á mánuði. Um 8.660 kr. af þessum hækkunum koma úr fyrri kjarasamningi (hagvaxtaraukinn), og er því sú hækkun lægstu taxta sem nýr samningur færir um 26.340 kr. Til samanburðar var síðasta reglulega hækkun Lífskjarasamningsins 25.000 kr. (sem kom 1. janúar 2022) og síðan bættist við hana 10.500 kr. hagvaxtarauki frá og með apríl sama árs, alls 35.500 kr. Lífskjarasamningurinn var gerður þegar verðbólga var einungis um þriðjungur af því sem nú er. Fráleitt er því að hinn nýi samningur geti náð sömu kaupmáttaraukningu fyrir alla og náðist með Lífskjarasamningnum.

Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins leyfa sér hins vegar að fullyrða að kaupmáttaraukning á árinu 2023 verði svipuð eða meiri en af Lífskjarasamningnum. Sú fullyrðing byggir á þeirri forsendu að verðbólga verði um 5% í janúar 2024 og er vænt kaupmáttarþróun taxta á árinu 2023 byggð á þeirri tölu. Spár gera ráð fyrir meiri meðal verðbólgu á árinu 2023. Þetta er því ekki einungis skáldskapur hjá SA- mönnum heldur meira í ætt við leirburð.

Horft er framhjá kaupmáttarrýrnun á árinu 2022 sem þegar hefur skert gildi síðustu launahækkunar Lífskjarasamningsins í apríl 2022 (sjá meðfylgjandi mynd 1) og vafamál er hvort umsamdar launahækkanir nái að halda kaupmætti á næsta ári, þ.e. megnið af samningstíma hins nýja samnings. Almennar hækkanir flestra sem taka laun samkvæmt nýgerðum kjarasamningum eru á bilinu 6,75% til um 8,8%. Verðbólga í desember var 9,6% og verður væntanlega áfram á því róli á næstu mánuðum. Þeir sem eru á lægstu töxtum eiga meiri möguleika á að halda kaupmætti á árinu 2023 en munu tapa því sem nemur kaupmáttarbruna á árinu 2022 – og er þá ekki horft til verulegra áhrifa aukins húsnæðiskostnaðar á kaupmáttinn.

Mynd 1: Heimild: Hagstofa Íslands

Meginmarkmið Lífskjarasamningsins var að auka kaupmátt meðallauna og að aukning kaupmáttar lægri launa yrði mest. Það var tryggt með flatri krónutöluhækkun upp launastigann. Samkvæmt málflutningi SA er markmið hinna nýju samninga að halda kaupmætti en ekki að auka hann á næsta ári, þrátt fyrir óvenju mikinn hagvöxt og afar góða afkomu þorra fyrirtækja. Nú kemur mesta krónutöluhækkunin til hærri launahópa en þeir lægst launuðu fá helmingi færri krónur í launaumslagið í nýju samningunum. Því er vægast sagt villandi að segja hina nýju samninga „framhald af Lífskjarasamningnum“.

Launatafla SGS skilar Eflingarfólki mun minni kjarabótum

Meðalhækkun taxta í nýrri launatöflu SGS-félaga er sögð 11,2% og er það rétt ef tekið er óvegið meðaltal allra launaflokka og þrepa í töflunni. En í tilviki þeirra taxta sem meirihluti SGS-félaga er á er hækkunin um 12,2% (3. og 4. þrep) en þar sem meirihluti Eflingarfólks er nemur hækkun taxta að jafnaði um 10,2% (1. og 2. þrep). Þarna munar því miklu.

Að meðaltali er meirihluti SGS-félaga með taxtalaun í kringum 422.000 kr. á mán. samkvæmt hinum nýja samningi þeirra (hærri þrepin í launaflokkum 5-8), en meirihluti Eflingarfólks væri með einungis rúmlega 410.000 kr. (lægri þrepin í launaflokkum 5-8) skv. SGS-samningnum. Launatafla SGS-félaga skilar því meirihluta þeirra fólks um 12.000 króna hærri grunnlaunum en meirihluti Eflingarfólks fengi að jafnaði út úr sömu töflu. Munur milli lægsta og hæsta starfsaldursþreps getur orðið allt að 20.000 krónur á mánuði. Sá ávinningur skilar sér eðli málsins samkvæmt aðeins til þeirra sem eru á hæsta starfsaldursþrepi, en á því þrepi eru SGS-félagar hlutfallslega mun fjölmennari en Eflingarfélagar. Þess vegna er það krafa Eflingar að fá öðru vísi launatöflu sem tekur tillit til þessa grundvallarmunar.

Þá er ótalið að SGS-samningurinn skilar fiskvinnslufólki verulegum aukaábata með bónushækkunum, sem skipta miklu máli fyrir verkafólk víða á landsbyggðinni. Fiskvinnslufólk er miklum stærra hlutfall félagsfólks í mörgum aðildarfélögum SGS en í Eflingu. Eðlilegt væri að verkafólk á höfuðborgarsvæðinu fengi einhverja sambærilega ábata út úr kjarasamningi.

Kostnaðarmat SA á SGS-samningnum horfir algerlega fram hjá þessum mikla mun sem er á dreifingu Eflingarfólks og SGS-félaga á starfsaldursþrep. Að stilla því upp sem spennitreyju fyrir kostnaðarmat af væntanlegum samningi við Eflingu er því bæði rangt og einstaklega óréttlátt, nema markmiðið sé að skila Eflingarfólki afgerandi lakari kjörum en fást hjá flestum SGS-félögum á landsbyggðinni.

Mun dýrara er að búa og starfa á höfuðborgarsvæðinu

Vegna afgerandi meiri framfærslukostnaðar sem fylgir því að búa og starfa á höfuðborgarsvæðinu ætti útkoma kjarasamninga að vera öll önnur en nú tíðkast. Því hefur Efling farið fram á sérstaka framfærsluuppbót fyrir verkafólk á höfuðborgarsvæðinu, til að draga úr hallarekstri á heimilum láglaunafólks sem þar er viðvarandi.

Vel þekkt er að framfærslukostnaður er oft meiri á höfuðborgarsvæðum en annars staðar. Efling hefur vísað til hvernig þeim málum er farið í London, þar sem um 20% álag er greitt á laun, einkum vegna hærri húsnæðiskostnaðar þar.

Hér á landi er það svo að húsnæðiskostnaður bæði fyrir eigendur íbúða og leigjendur hefur verið mun hærri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Á síðustu tíu árum hefur húsnæðiskostnaður á höfuðborgarsvæðinu hækkað með fordæmalausum hætti, þannig að um met er að ræða meðal Evrópuþjóða. Á sama tíma hefu dregið úr húsnæðisstuðningi hins opinbera.

Á mynd 2 má sjá yfirlit um framfærslukostnað þriggja heimilisgerða á höfuðborgarsvæðinu og í öðru þéttbýli á landinu. Matið er uppfært framfærsluviðmið félagsmálaráðuneytisins frá 2019, að viðbættri meðalupphæð greiddrar leigu, skv. niðurstöðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá október 2022. Matið er því miðað við leigjendur. Megnið af muninum á framfærslukostnaði sem fram kemur er vegna húsnæðiskostnaðarins.

Mynd 2: Heimild: Félagsmálaráðuneytið; Húsnæðis- og mannvirkjastofnun; Hagstofa Íslands.

Að jafnaði munar um 68.000 krónum á húsnæðiskostnaði leigjenda á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, en þegar allur framfærslukostnaður er meðtalinn þá er munurinn að jafnaði nálægt 73.000 krónum á mánuði. Eflingarfólk á höfuðborgarsvæðinu þyrfti að hafa um 95.000-100.000 krónum hærri laun á mánuði (fyrir skatt) til að eiga fyrir þessum auka framfærslukostnaði sem er á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er gríðarlegur kjaramunur sem Efling fer fram á að verði leiðréttur, en einungis að hluta þó að þessu sinni. Krafan um sérstaka framfærsluuppbót er fyrsta skrefið á þeirri braut að enda hallarekstur á heimilum láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu (sbr. 4. tbl. Kjarafrétta). Þessi sjónarmið geta ekki talist annað en málefnaleg og sanngjörn, og vekur það furðu að Samtök atvinnulífsins haldi öðru fram.

Margir myndu ætla að húsaleigubætur gengju í meiri mæli til láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu en til sömu hópa á landsbyggðinni. Staðreyndin er hins vegar sú að húsaleigubætur til láglaunafólks eru að jafnaði hærri á landsbyggðinni (samkvæmt gögnum úr Tekjusögu forsætisráðuneytisins, sbr. mynd 3 hér að neðan). Reikniaðferðin við úthlutun leigubóta tekur einungis að mjög litlu leyti tillit til upphæðar leigu. Þarna hallar því líka á láglaunafólk á höfuðborgarsvæðinu. Rétt er líka að hafa í huga að þrátt fyrir nýlega tilkynntar hækkanir húsaleigubóta þá hafa þær ekki haldið í við leiguhækkanir á sl. 10 árum.

Niðurstaða

Efling hafnar því með öllu að semja um sömu launatöflu og SGS-félög hafa samið um og krefst þess að sérstaða Eflingarfólks vegna annarrar samsetningar starfa og annars starfsaldursmynsturs, sem og vegna hærri framfærslukostnaðar á höfuðborgarsvæðinu, verði að fullu virt.

Viðauki – ítargögn

Upphæð húsaleigubóta á höfuðborgarsvæði og landsbyggð, greint eftir tekjuhópum

Á mynd 3 er sýnt hversu miklar húsaleigubætur fólk í ólíkum tekjuhópum fékk greiddar á árinu 2020, samkvæmt gögnum sem unnin eru upp úr skattframtölum, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar á landsbyggðinni.

Mynd 3: Heimild: Tekjusaga forsætisráðuneytisins

Lægsti tekjuhópurinn (lægsta tíundin) fær hámark leigubóta eins og þær voru á árinu 2020 (54.449 kr. á mán.), bæði á HB-svæði og landsbyggð, en hjá öllum öðrum eru leigubæturnar á landsbyggðinni hærri. Það er þrátt fyrir að leigukostnaður láglaunafólks sé miklu hærri á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er vegna alvarlegs galla á reikniaðferð við úthlutun leigubótanna og þaks á upphæð bóta sem tekur ekki tillit til munar á leigu eftir landshlutum.

Á mynd 4 hér að neðan er sýnt samband milli þróunar íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, kaupmáttar launa og verðlags án húsnæðiskostnaðar, frá 2019 (þegar Lífskjarasamningurinn var gerður) og til október 2022. Það sýnir glögglega hvernig hækkun húsnæðiskostnaðar hefur étið upp kaupmáttinn á síðustu tveimur árum.

Mynd 4: Heimild Hagstofa Íslands og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Myndin er af samninganefnd Eflingar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí