75 þúsund leigjendur gufa upp hjá Hagstofunni

Húsnæðismál 15. feb 2023

„Hugsanlegt er að þessi framsetning stofnana sem heyra undir Innviðaráðuneytið tengist yfirstandandi vinnu við endurskoðun húsaleigulaga, vinnu við úrbætur á húsnæðismarkaði og endurskoðun húsnæðisbótakerfisins. Samtök leigjenda hafa ítrekað gagnrýnt samskonar blekkingar sem virðast miða að því að mála mynd af húsnæðis- og leigumarkaði í jafnvægi, fela staðreyndir eða harðfylgi ráðherrans í húsnæðismálum,“ skrifar Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, þar sem hann vekur athygli á hvarfi leigjenda úr tölum Hagstofunnar.

Frá árslokum 2018 og til ársins 2022 fjölgaði íbúum á Íslandi um tuttugu og átta þúsund. Á sama tíma segir í gögnum Hagstofunnar að tuttugu og sjö þúsund heimili hafi komist í séreign á húsnæðismarkaði, eða sextíu og sjö þúsund einstaklingar. Vandamálið er bara að það voru ekki nema sjö þúsund og sex hundruð íbúðir sem þessi heimili eignuðust í sameiningu á tímabilinu.

Ef fjölgun íbúa er svo bætt við þá einstaklinga sem sagðir eru hafa komist í séreign á tímabilinu þá gerir það níutíu og fimm þúsund alls. Þessir níutíu og fimm þúsund einstaklingar hafa samkvæmt Hagstofunni einhvern veginn komist fyrir í þeim sjö þúsund og sex hundruð íbúðum sem komust í eigu einstaklinga á tímabilinu. Þannig eru fjögur heimili á hverja íbúð, og deila henni jafnframt að auki með um það bil fjórum aðfluttum íbúum.

Samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun komust sjö þúsund og sex hundruð íbúðir í eigu “einstaklinga með eina íbúð” frá árslokum 2018 til ársins 2022. Þrátt fyrir að tíu til tuttugu prósent fleiri búi á íslenskum heimilum en annarss staðar á Norðurlöndunum þá getur þessi fjöldi íbúða ekki hýst nema tuttugu þúsund einstaklinga.

Þetta þýðir að hinir sjötíu og fimm þúsund hafa hreinlega gufað upp skv. tölum Hagstofunnar. Ef þeir komast ekki fyrir í þeim íbúðum sem komust í eigu “einstaklinga með eina íbúð” þá ættu þeir að öllu jöfnu að vera á leigumarkaði, en samkvæmt Hagstofunni eru þeir það ekki. Þetta eru nokkuð merkilegar fréttir í ljósi þess að um þessar mundir hækkar húsaleiga sem aldrei fyrr og aldrei verið fleiri einstaklingar á eftir þeim íbúðum sem eru í boði á leigumarkaði. Það er undarlegur markaður sem hækkar upp úr öllu valdi þegar viðskiptavinirnir gufa upp. Vitað er að hluti þessara einstaklinga hreinlega á vergangi, býr holum og hreysum eða upp á aðra komin.

Hugsanlega hefur talnameisturum Hagstofunnar brugðist hrapalega bogalistin eða eru vísvitandi að segja okkur sögu sem er órafjarri sannleikanum. Nýlega birtist til dæmis frétt á heimasíðu Hagstofunnar þar sem sagt var að einungis tíu prósent íbúa landsins byggju á almennum leigumarkaði. Nýjustu tölur stofnunarinnar segja heildarstærð leigumarkaðarins vera tuttugu og eitt prósent af öllu húsnæði á landinu eða þrjátíu og fjögur þúsund heimili. Það þýðir að hinn almenni leigumarkaður er aðeins sextán þúsund heimili en að átján þúsund heimili séu á félagslega reknum markaði.

Hagstofan segir að á milli áranna 2018 og 2019 á leigumarkaðurinn hafa dregist saman um heil tólf þúsund og sex hundruð heimili þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað um átta þúsund og fimm hundruð sem er næstmesta íbúafjölgun í sögu landsins. Einungis eitt þúsund og átta hundruð íbúðir komust í eigu “einstaklinga með eina íbúð” á milli þessara ára, sem þýðir að yfir tuttugu og tveir einstaklingar deila hverri íbúð. Jafnframt segir stofnunin að leigumarkaðurinn hafi dregist saman um fjórtán þúsund heimili frá árslokum 2018 til ársins 2022.

Hugsanlegt er að þessi framsetning stofnana sem heyra undir Innviðaráðuneytið tengist yfirstandandi vinnu við endurskoðun húsaleigulaga, vinnu við úrbætur á húsnæðismarkaði og endurskoðun húsnæðisbótakerfisins. Samtök leigjenda hafa ítrekað gagnrýnt samskonar blekkingar sem virðast miða að því að mála mynd af húsnæðis- og leigumarkaði í jafnvægi, fela staðreyndir eða harðfylgi ráðherrans í húsnæðismálum.

Lesa má grein Guðmundar Hrafns hér: Hvað varð um 75.000 leigjendur?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí