Álagning í matvöru hækkað um 29% á fjórum árum

Dýrtíðin 13. feb 2023

Samkeppniseftirlitið hefur bent á stóraukna framlegð í dagvöruverslun á fáum árum svo nemur mörgum milljörðum króna. Með öðrum orðum hefur álagning hækkað langt umfram aukinn kostnað. Hluti af ástæðu þess að verð hækkar er að verslunarkeðjurnar leggja meira á vöruna til að geta fært eigendum sínum meiri arð.

Samstöðin fjallaði um þessar niðurstöður Samkeppniseftirlitsins fyrir skömmu, sjá hér: Samkeppniseftirlitið bendir á vaxandi okur í matvöruverslun. ASÍ hefur nú dregið þessar upplýsingar saman í eigin yfirferð, sem birtist hér:

Framlegð hjá íslenskum dagvörusölum jókst um 29% á árunum 2017-2021

Þegar skortur er á samkeppni eiga fyrirtæki auðveldara með að velta verðhækkunum yfir á neytendur. Verðbólga og aðstæður á markaði eins og þær sem hafa skapast í kjölfar Covid faraldursins og stríðsins í Úkraínu geta ýtt enn frekar undir slíkar aðstæður. Mikil umræða hefur átt sér stað um verðlag og verðhækkanir í tengslum við Covid og stríðið í Úkraínu. Verðlagseftirlit ASÍ hefur í því samhengi bent á að miklar verðhækkanir séu á skjön við góða rekstrarafkomu fyrirtækja á mörkuðum þar sem verð hefur hækkað mikið.

Þróun verðlags var sérstök ástæða fyrir því að Samkeppniseftirlitið réðist í upplýsingaöflun með það að markmiði að greina áhrif þessara ytri aðstæðna á verðlag á dagvörumarkaði, eldsneytismarkaði og byggingarvörumarkaði og koma auga á mögulega samkeppnisbresti. Hér verður farið yfir þær niðurstöður sem snúa að íslenskum dagvörumarkaði en dagvara er vara sem er keypt dagsdaglega til heimilisnota svo sem matvara, hreinlætisvara og snyrtivara. Frekari skilgreiningar á þeim hugtökum sem fjallað er um í þessari samantekt má finna í lok fréttarinnar.

Helstu niðurstöður upplýsingaöflunar Samkeppniseftirlitsins eru þær að framlegð íslenskra dagvörusala jókst um 29% á árunum 2017-2021 en á sama tímabili jókst framlegð heildsala um 14%. Framlegð varpar ljósi á hvernig sala hefur áhrif á arðsemi. Framlegð er notuð yfir tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði. Eftir að fastur kostnaður hefur verið dreginn frá framlegðinni stendur eftir hagnaður eða tap. Hærri framlegð skilar því meiri arðsemi að því gefnu að fastur kostnaður hækki ekki.

Framlegðarhlutföll dagvöruverslana af öllum dagvörum hækkuðu eftir að Covid faraldurinn fór af stað. Mest var hækkunin árið 2022, sama ár og innrás Rússa í Úkraínu. Framlegðarhlutfall er mæling sem er notuð til að reikna út hlutfall hagnaðar sem fyrirtæki skilar af heildartekjum sínum, því hærra framlegðarhlutfall, því meira stendur eftir til að greiða út í arð. Framlegðarhlutfall á íslenskum dagvörumarkaði er að meðaltali hærra en hjá sambærilegum fyrirtækjum í Vestur Evrópu og var Ísland með þriðja hæsta verðlag á mat- og drykkjarvöru í Evrópu árið 2021.

Samkeppniseftirlitið telur greininguna ekki draga fram skýrar vísbendingar um brot á samkeppnislögum en telur að há verðlagning og álagning á dagvöru og eldsneytismarkaði í alþjóðlegum samanburði veki upp spurningar um hvort samkeppnislegt aðhald á þeim mörkuðum sé nægilegt. Samantekt Samkeppniseftirlitsins má nálgast hér.

Framlegð dagvöruverslana jókst í Covid faraldrinum

Frá 2017-2021 jókst framlegð dagvöruverslana um 29% á föstu verðlagi, úr 29,8 milljörðum árið 2017 í 38,5 milljarða árið 2021. Á sama tímabili jókst framlegð hjá heildsölum um 14%, úr 6,3 milljörðum árið 2017 í 7,2 milljarða árið 2021. Framlegð dagvöruverslana var 9,2% hærri árið 2020, árið sem Covid faraldurinn fór af stað, en árið áður og hækkaði um 4,9% frá 2020-2021. Hærri framlegð skilar því meiri arðsemi að því gefnu að fastur kostnaður hækki ekki.

Framlegðarhlutföll dagvöruverslana hækkuðu í kjölfar heimsfaraldurs og Úkraínustríðs

Í samantekt Samkeppniseftirlitsins kemur fram að  framlegðarhlutfall á íslenskum dagvörumarkaði sé að meðaltali hærra en meðaltal fyrirtækja í Vestur Evrópu. Ef litið er til þróunar á framlegðarhlutfalli dagvöruverslana af öllum dagvörum á árunum 2017-2022 má sjá að það hækkaði um 1,2 prósentustig á tímabilinu . Meirihluti hækkunarinnar er þó tilkomin eftir að Covid faraldurinn fór af stað. Þannig var framlegðarhlutfall af öllum dagvörum 0,4 prósentustigum hærra árið 2020, á fyrsta ári Covid faraldursins en árið á undan. Framlegðarhlutfallið hækkaði síðan um 0,2 prósentustig árið 2021 og um 0,8 prósentustig árið 2022, árið sem Úkraínustríðið skall á.

Margvíslegar ástæður geta verið fyrir hærra framlegðarhlutfalli og í samantekt Samkeppniseftirlitsins er ekki farið út í hvaða ástæður liggja að baki. Það að framlegðarhlutfall íslenskra dagvöruverslana sé hærra en sambærilegra fyrirtækja í Vestur-Evrópu gefur til kynna að rekstrarhagkvæmni hjá íslenskum dagvöruverslunum sé að meðaltali meiri og að meira sé afgangs til að greiða fjármagnskostnað, skatta og arð (hagnað) til eigenda. Hátt framlegðarhlutfall þýðir að reksturinn er skilvirkur og að fyrirtækið getur selt vöru eða þjónustu á mun hærra verði en kostnaður fyrirtækisins er. Hátt framlegðarhlutfall getur stafað af ýmsum þáttum svo sem;

  • Skilvirkri stjórnun
  • Lágum kostnaði (útgjöldum)
  • Árangursríkri verðlagningu eða aukinni álagningu

Hátt framlegðarhlutfall merkir að fyrirtækið getur stjórnað kostnaði sínum og/eða veitt vöru eða þjónustu á verði sem er sýnu hærri en kostnaður fyrirtækisins.

Framlegðarhlutfall dagvöruverslana af innfluttum vörum hækkaði 2018-2021 en lækkaði hjá heildsölum

Framlegðarhlutfall heildsala vegna sölu á innfluttri vöru til dagvöruverslana lækkaði og var 3,9 prósentustigum lægra árið 2021 en 2018. Á sama tímabili hækkaði framlegðarhlutfall dagvöruverslana af innfluttum vörum keyptum af heildsölum lítillega eða um 0,2%.

Ef litið er til framlegðarhlutfalls mismunandi vara hækkaði framlegðarhlutfall af erlendum vörum, fluttum inn af dagvöruverslunum sjálfum mest, eða um 2 prósentustig á tímabilinu 2017-2021. Á árunum 2019-2021 nemur hækkunin hins vegar 2,9 prósentustigum. Framlegðarhlutfall dagvöruverslana af vörum fluttum inn af heildsölum lækkaði um 0,1 prósentustig frá árinu 2017-2021 en hækkaði þó um 0,6 prósentustig 2019-2021.

Framlegðarhlutföll langhæst af vöru sem dagvöruverslanir flytja sjálfar inn

Í samantektinni kemur fram að meðalframlegðarhlutfall dagvörusala af erlendri vöru sem verslanirnar flytja sjálfar inn hafi verið tvöfalt á við framlegðarhlutfall af innlendri vöru keyptri af íslenskum framleiðendum á tímabilinu 2017-2021. Þannig var framlegðarhlutfall erlendra vara sem fluttar eru inn af dagvörusölum 33,7% á meðan framlegðarhlutfall af erlendri vöru sem keypt er af innlendum heildsölum er 24,7% og 16,9% á innlendri vöru.

Framhaldið

Samkeppniseftirlitið hefur kallað eftir sjónarmiðum og túlkun á upplýsingum um þróun framlegðar og framlegðarhlutfalla og leiðum til að efla samkeppni og vinna gegn verðhækkunum. Meðal þess sem Samkeppniseftirlitið hefur óskað eftir er;

  • Sjónarmið og upplýsingar frá hagaðilum um þær ályktanir sem Samkeppniseftirlitið dregur af þeirri greiningu sem kynnt er hér m.t.t. framlegðar, framlegðarhlutfalla og alþjóðlegs samanburðar.
  • Ábendingar og sjónarmið um samkeppnishindranir af hálfu stjórnvalda, s.s. í lögum eða reglum, sem brýnt er að taka til umfjöllunar í tilefni af hækkun verðs og vöru eða þjónustu á síðustu mánuðum.
  • Sjónarmið um áherslur og forgangsröðun í verkefnum Samkeppniseftirlitsins á næstu misserum, vegna þeirra efnahagsaðstæðna sem nú ríkja.

Skilgreiningar

Dagvara: Vara sem keypt er dagsdaglega til heimilisnota svo sem matvara, hreinlætisvara og snyrtivara.

Dagvörumarkaður: Markaður þar sem verslað er með dagvöru.

Framlegð: Framlegð varpar ljósi á hvernig sala hefur áhrif á arðsemi. Framlegð er reiknuð með því að draga breytilegan kostnað frá sölutekjum. Framlegð er það sem situr eftir af tekjum eftir breytilegan kostnað til að standa straum af föstum kostnaði. Með því að draga fastan kostnað frá framlegðinni má finna út hver hagnaður eða tap fyrirtækisins er.

Framlegðarhlutfall (EBITDA framlegð): Framlegðarhlutfall sýnir hversu miklu reksturinn skilar til að standa undir fjármagnskostnaði, sköttum og arði (hagnaði) til eigenda. Rekstrarhagkvæmni fyrirtækisins endurspeglast í framlegðarhlutfallinu en framlegðarhlutfall er ein af fimm mælingum sem notaðar eru til að mæla arðsemi.

Sjá umfjöllun á vef ASÍ.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí