Samkeppniseftirlitið bendir á vaxandi okur í matvöruverslun

Í yfirferð sinni um áhrif skorts á samkeppni á verðbólgu benti Samkeppniseftirlitið á vaxandi álagningu í dagvöruverslun á Íslandi, sem er orðin enn hærri en áður var í samanburði við fyrirtæki í næstu löndum.

Samkeppniseftirlitið bendir á að framlegð dagvara hafi aukist um 29% á föstu verðlagi milli áranna 2017 og 2021. Og að framlegðarhlutfallið, sem er hlutfall framlegðar af rekstrartekjum, hafi hækkaði um 0,8 prósentustig á sama tímabili.

Þá er bent á að framlegðarhlutfall íslenskra dagvörusala var um 3 prósentustigum hærra en að meðaltali þeirra fyrirtækja í Vestur-Evrópu sem skráð eru í gagnagrunn Aswath Damodarans, prófessors í viðskiptafræði við New York háskóla sem. byggt hefur upp öflugan gagnagrunn um rekstur fyrirtækja.

Umfram okur getur numið 7 milljörðum

Velta Haga og Festi, stærstu keðjanna, er um 235 milljarðar króna á ári. Ef framlegðarhlutfall þeirra hefur hækkað um 0,8% gerir það um 1,9 milljarðar króna sem þær tóku til sín 2021 umfram hlutfallið frá 2017. Og ef framlegðin er 3% meiri en í Vestur-Evrópu gera það 7 milljarðar króna.

Þessar veltutölur eru heildarvelta með olíufélögum og öðru sem keðjurnar hafa bætt við sig umfram dagvöruverslun. Það má vera að framlegðin sé minni eða skárri í öðrum rekstri, en það er ólíklegt. Hvers vegna ættu þær að okra minna þar?

Með öðrum orðum má ætla að íslenskir neytendur greiði eigendum þessara keðja sjö milljörðum meira en þeir gerðu ef framlegðarhlutfallið væri líkt og í öðrum löndum.

Lífeyrissjóðir eigendur auk umdeildra kaupahéðna

Lífeyrissjóðirnir eru stærstu hluthafarnir bæði í Festi og Högum. Stærsti hluthafinn í Högum fyrir utan lífeyrissjóði er Kaldbakur, fjárfestingarfélag Samherja, og hefur hann verið leiðandi um stefnu félagsins.

Stærstu hluthafarnir í Festi fyrir utan lífeyrissjóði eru félög í eigu Hreggviðs Jónssonar í Veritas, Björgólfur Jóhannsson viðskiptafélaga Samherja og Bjarna Ármannssonar fyrrum bankastjóra Glitnis.

Okrið eykst og er mest á innfluttum vörum

Samkeppniseftirlitið dregur fram samanburð á fyrstu fjórum mánuðum hvers árs, frá 2020 til 2021. Árið 2020 hækkaði framlegð um 10,7% frá fyrra ári, um 5% árið 2021 og 1,8% árið 2022. Dagvöruverslanirnar hafa því aukið álagningu sína öll árin og umtalsvert.

Framlegðarhlutfallið fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins hækkaði á þessum árum um 0,4% árið 2020, 0,2% árið 2021 og 0,8% árið 2022. Það gera samanlagt 1,4%. Miðað við ársveltu jafngildir það um 3,3 milljörðum króna auka álagningu sem neytendur borga.

Samkeppniseftirlitið heldur áfram og bendir á að framlegðarhlutfall dagvörukeðja af erlendri vöru er 24,7-33,7%, sem er allt að tvöfalt hærra en framlegðarhlutfall þeirra af innlendri vöru, sem er 16,9%. Það bendir til að innlendir framleiðendur haldi aftur af okrinu til að verja sína vöru en keðjurnar gangi mun lengra í að leggja á erlenda vöru.

Þá er jafnframt nokkur munur á framlegðarhlutfalli smásölukeðjanna í tilviki erlendrar vöru sem þær flytja sjálfar inn, sem er 33,7%, og framlegðarhlutfalli þeirra í tilviki erlendrar vöru sem þær kaupa af innlendum heildsölum, sem er 24,7%. Þrátt fyrir að verslanirnir leggi þannig meira á eigin vöru er ekki þar með sagt að neytendur borgi minni álagningu því framlegðarhlutfall innlendra heildsala af innfluttum vörum er ekki meðtalið í seinna tilvikinu og það er 29,8% að meðaltali. Nánast helmingur vöruverðs erlendra vöru sem flutt er inn af heildsala er því álagning, fyrst frá heildsala og síðan smásala.

Engin viðbrögð stjórnvalda

Þessi skýrsla Samkeppniseftirlitsins fór ekki víða, enda var hún birt 22. desember síðastliðinn, daginn fyrir Þorláksmessu. Í henni fer Samkeppniseftirlitið fram á að stjórnvöld taki mið af samkeppnismálum á yfirstandandi verðbólgutímum. Bendir á að þótt samkeppni sé ekki til skemmri tíma virkt tæki gegn verðbólgu á mörkuðum þar sem virk samkeppni er gefur veik samkeppni lítið aðhald gegn verðhækkunum á mörkuðum þar sem fyrirtæki hafa mikinn markaðsstyrk. Eins og tilfellið er á dagvörumarkaði.

Í tengslum við kjarasamninga lýsti ríkisstjórnin því yfir að veittur yrði 10 m.kr. viðbótarstuðningur til að auka aðhald á neytendamarkaði. Með launatengdum gjöldum og skrifstofukostnaði dugar það tæplega fyrir hálfu stöðugildi sérfræðings.

Hér má lesa skýrsluna: Verðhækkanir og samkeppni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí