Almenningur verður að ná fullri stjórn yfir lífeyrissjóðunum okkar,“ skrifar Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR á Facebook. „Sjóðirnir hafa setið að mestu hjá, sem óvirkir meirihlutaeigendur stærstu fyrirtækja á markaði, fyrir tilstuðlan atvinnulífsins, og verja þannig gengdarlausa spillingu og sjálftöku í viðskiptalífinu og fjármálakerfinu sem einkennist af botnlausri græðgi og ört hækkandi arðsemiskröfu.“
„Versta form spillingar er að vita af henni og aðhafast ekki,“ skrifar Ragnar Þór. „Lífeyrissjóðirnir hafa setið hjá þegar hvert fyrirtækið á fætur öðru er skrælt að innan. Þetta er gert með því að veita frekum minnihlutaeigendum öll völd í fyrirtækjum í skjóli meirihluta sjóðanna sem lítið skipta sér af. Sem lítið en stórt dæmi má nefna Stoðir (áður FL-group) í því samhengi, sem tóku ákvörðun um að selja Mílu, einn mikilvægasta fjarskiptainnvið þjóðarinnar, úr Símanum. Og skilja Símann eftir sem skel af félagi með áratuga skuldbindingar á bakinu til að greiða kaupverðið/söluna upp. Engin leið er að sjá fyrir hvort dæmið gangi upp.“
Og Ragnar Þór heldur áfram: „Stoðir (áður FL-group) hlaupa svo frá borði með fúlgur fjár í næsta snúning. Lífeyrissjóðirnir fá arðgreiðslur líka en sitja uppi með alla áhættuna.
Framganga Stoða (áður FL-group) teygjir sig víða og nú inn í fjármálakerfið, með sameiningardaðri Kviku og Íslandsbanka, en lífeyrissjóðirnir eru þar stórir eigendur, sem og gríðarlegum arðgreiðslum og hækkandi arðsemiskröfu hjá Arion banka en Stoðir (áður FL-group) er stærsti eigandi í Arion með 5,2% á eftir lífeyrissjóðum sem eiga samanlagt minnst 46,3%.
Svona viðhalda sjóðirnir stefnu þekktra fjárglæframanna um háa arðsemiskröfu, skammtímagróða og áhættusækni, alveg sama hvaða áhrif það kunni að hafa á lífskjör almennings og sjóðfélaga til skemmri eða lengri tíma litið.
Hagsmunir sjóðfélaga, sem eru allir þeir sem einhverntíma hafa greitt í lífeyrissjóð, snúast ekki eingöngu um fleiri krónur í launaumslagið eftir að vinnuskyldu líkur. Heldur um lífskjör okkar á meðan við lifum. Þannig eru það hagsmunir sjóðfélaga að lækka kostnað við að lifa, að vinna gegn spillingu og græðgi, að veita peningaöflunum aðhald og skapa gegnsæi. Sýna raunverulega samfélagslega ábyrgð.
Það er ekki mikill metnaður í því að lifa sem þræll alla starfsævina til að hafa það, hugmyndafræðilega, gott á efri árum.“