„Orðræða stjórnmálamanna og forystu atvinnulífsins sýnir okkur öllum á ótvíræðan hátt hvað Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og VG hafa á prjónunum í lífeyrismálum. Það á að hækka lífeyrisaldurinn í 70 ár í í fyrstu en síðan í 75 eða jafnvel 80 ár.“
Þetta segir Guðbjörn Guðbjörnsson, yfirtollvörð og óperusöngvara, í pistli sem hann birtir á Facebook. Hann segir lífeyriskerfið okkar sé ekki eins sterkt og margir halda. Auk þess hagi stjórnmálamenn og auðfólk á Íslandi sér eins og það eigi sjóðina, en ekki fólkið sem hefur greitt í þessa sjóði alla ævi. Hann segir ýmis merki um að nú ætli ríkisstjórnin að hækka lífeyrisaldur og þannig stela ævisparnaði fjölda Íslendinga.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Guðbjörn í heild sinni.
Ríkisstjórnin sem nú er að völdum er auðsjáanlega í miklum ham í einu einasta máli og það varðar eftirlaunaaldurinn. Enginn þarf að segja mér að lækkun lífeyris í kjölfar breytinga sem gerðar voru á eftirlaunarétti LSR fyrir nokkrum árum sé einhver tilviljun. Nei, skipulega er verið að vinna í því að okkur, sem höfum að meðtöldu framlagi vinnuveitenda greitt formúu í lífeyrissjóð á 40-50 árum á vinnumarkaði, eða að minnsta kosti 100-200 milljónir króna þegar tekið er tillit til ávöxtunar (sem er nú ekki beisin þegar nánar er skoðað). Reyndar má með nokkrum rökum segja að virkilega sé ástæða til að endurskoða kerfið þegar horft er til reynslu okkar af því og framtíðarhorfa. Þetta er einnig vegna þess að ríkið hefur að mestu dregið sig út úr greiðslu ellilífeyris nema sem einhverskonar borgaralaun fyrir þá sem greiddu lítið í sjóðina eða komu sér undan greiðslu í þá á einn eða annan hátt.
Auðsjáanlega er lífeyriskerfið okkar ekki jafn beisið og menn hafa montað sig af alveg frá því að það var stofnað árið fyrir almenna launamenn í kjölfar kjarasamninga 1969 (opinberir sjóðir aðeins eldri). Lítið hefur verið horft til áhættuþátta líkt og aðstæðna á vinnumarkaði hverju sinni, langlífi, félagslegra og efnahagslegra forsendna að ekki sé minnst á markaðsáhættu á fjármálamörkuðum. Allir þessir þættir hafa leikið íslenska lífeyrissjóði grátt, t.a.m. í hruninu 2009-2010 og í hruni á markaði í kjölfar covid-pestarinnar, sem sennilega mun fara verr með lífeyriskerfið en langlífi og gjaldþrot landsins. Það skapaðist reyndar smá umræða eftir hrunið en ekkert í samræmi við það mikla tap sem varð a sjóðunum. Lífeyrissjóðakerfið er vissulega ekki vonlaust en hins vegar meingallað og skilar ekki því til okkar í starfslok sem það ætti að gera miðað við greiðslur. Þetta sést vel á samanburði við greiðslur í einkarekna lífeyrissjóði, þar sem ávöxtun er mun meiri og öruggari.
Um leið og ég hef verið stuðningsmaður lífeyriskerfisins í mjög langan tíma, hef ég einnig verið gagnrýninn á það, sem er eitthvað sem alls ekki má vera. Það er engu líkara en að stjórnir lífeyrissjóða og forstjórar þeirra njóti svipaðrar friðhelgi og alþjóðlegrar verndar og þeir sem ofsóttir eru út í heimi. Þannig má finna meiri umræðu og ágreining í messum kaþólsku kirkjunnar en á aðalfundum lífeyrissjóða. Umræðan um trúmál tekur tekur reyndar meira pláss í fjölmiðlum en umræðan um sjóði sem hafa að geyma rúmlega 2 þjóðarframleiðslur af sparnaði þjóðarinnar. Ef fasteignalán hækka aðeins eða vextir þá ætlar allt að tryllast en sú staðreynd að innistæða fólks í lífeyrissjóðunum hefur lækkað um 40% í tveimur efnahagslegum áföllum (2008-2010 & 2021-2022) vekja enga athygli. Skeytingarleysi almennings um 12,5% af launum þeirra er furðulegt og sýnir kannski að flestir líta á þetta sem tapað fé, sem þau hafa hvort eð er ekkert að segja um.
Það er helst að fólk æsi sig út af háum launum og stjórnunarkostnaði sjóðanna, sem er þó að mínu mati ekki aðalvandamálið. Sjálfsagt er að greiða góðum vörslumönnum lífeyrissjóðanna góð laun ef þeir eru að standa sig. Auðvitað ætlumst við einnig til að þeir beri ábyrgð á sínum ákvörðunum og upplýsi okkur reglulega um hvað er á seiði, hvort sem það varðar ávöxtun, rekstrarkostnað eða hvert stefnir. Í öllu þessu hefur núverandi forysta lífeyrissjóðanna fullkomlega brugðist. Því þarf að skoða hvort ekki þurfi að skipta um stjórnendur og stjórnir lífeyrissjóðanna. Þarna þarf alvörufólk að vera við völd, sem hefur vit á þessum hlutum en ekki fólk sem „vill vel“ eða „sem vill breyta sjóðunum í lífsskoðunarfélög eða hafa með þeim pólitísk áhrif. Þegar stefna margra lífeyrissjóða er skoðuð eru þau mjög upptekin af dyggðaflöggun, rétt eins og íslenskar fjármálastofnanir. Stjórnir og stjóendur lífeyrissjóða eiga einungis að hugsa um hagsmuni sinna umbjóðenda þ.e. launþega og lífeyrisþega.
Orðræða stjórnmálamanna og forystu atvinnulífsins sýnir okkur öllum á ótvíræðan hátt hvað Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og VG hafa á prjónunum í lífeyrismálum. Það á að hækka lífeyrisaldurinn í 70 ár í í fyrstu en síðan í 75 eða jafnvel 80 ár. Þá munu margir hafa greitt í sjóðina í 50-60 ár njóta greiðslna úr þeim í 10-20 ár. Ætli það fari ekki um marga eins og mig sem eru að greiða a.m.k. árlega 1,5-2,5 milljónir í lífeyrissjóðinn sinn eða í það minnsta 200-300 milljónir yfir ævina og þá bara þegar horft er til frekar lítillar ávöxtunar. Fyrir löngu er ljóst að stjórnmálamenn og forysta atvinnulífsins líta frekar á þessa lífeyrissjóði sem sína eign en eign vinnandi fólks og lífeyrisþega. Því miður eru stjórnir lífeyrissjóðanna – sem eru að hluta til skipaðir af vinnuveitendum en einnig verkalýðsleiðtogum – afskaplega meðvirkar. Slík meðvirkni og skortur á „checks and balances“ er algeng innan stjórna fyrirtækja á Íslandi líkt og sást í hruninu en einnig í hruninu og nýlega í Íslandsbanka. Íslenskir launþegar þurfa að vakna til lífsins þegar kemur að eignum þeirra í lífeyrissjóðum.
Pössum okkur á því að stjórnmálamenn, meðvirk verkalýðsforysta og fjármagnseigendur steli ekki af okkur ævisparnaði okkar, því mjög mikilvægt er – einnig fyrir unga fólkið – að huga að starfslokum sínum og „áhyggjulausu ævikvöldi“. Rífum kjaft og höfum skoðanir á stærstu fjármálastofnunum landsins sem eru í eigu almennings.