Miðstjórn Alþýðusambands Íslands gagnrýnir harðlega stýrivaxtahækkun Seðlabankans sem tilkynnt var í morgun og gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að beita ekki tækjum ríkisvaldsins til að lina áhrif afkomukreppunnar, eins og gert er í nágrannalöndunum.
„Meginvextir bankans eru nú 6,5% og hafa ekki verið hærri í þrettán ár,“ segir í ályktun miðstjórnar. „Hækkunin kemur í kjölfar vaxandi verðbólgu en hækkun vísitölunnar í janúar mátti fyrst og fremst rekja til ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Miðstjórn ASÍ mun boða til formannafundar til að ræða viðbrögð og aðgerðir.
Verðbólga mælist 9,9%. Miðstjórn hafnar því að skýringuna sé að finna í kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum. Aðilar vinnumarkaðarins voru sammála um að samningarnir myndu ekki ýta undir verðbólgu. Seðlabankinn verður að líta sér nær, að stórum hluta má rekja verðbólguna til heimatilbúinnar fasteignabólu og alþjóðlegra verðhækkana.
Miðstjórn Alþýðusambandsins hefur áður vakið á því athygli að hér eru ekki að verki óumbreytanleg lögmál. Ríkisstjórn Íslands ákvað með samþykki þeirra þriggja stjórnmálaflokka sem að henni standa að blása í glæður verðbólgu með hækkunum á ýmsum sköttum og gjöldum. Nú blasa afleiðingar þeirrar fráleitu ákvörðunar við almenningi. Vextir hækka, húsnæðislánin og húsaleiga verða enn þyngri í vöfum og kjörin verri en áður. Allt eru þetta mannanna verk og líkt og jafnan koma slíkar aðgerðir verst niður á þeim sem búa við erfiðustu afkomuna.
Aðgerðarleysi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur gengur þvert á viðtekin viðbrögð í nágrannalöndum þar sem ráðamenn beita tækjum ríkisvaldsins til að lina áhrif afkomukreppunnar og vinna skipulega að því að hemja verðbólgu. Í þeirri staðreynd birtist forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og sinnuleysi gagnvart afkomu fólksins í landinu.“