„Það þarf að leiðrétta launatöflur Eflingar, til hagsbóta fyrir lægst launuðu hópana, án þess að það hafi keðjuverkandi áhrif á aðra hópa, enda er verkalýðshreyfingin sjálf að hluta til ábyrg fyrir því hvernig komið er,“ skrifar Skúli Thoroddsen, fyrrverandi lögfræðingur Dagsbrúnar og síðar framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, í Moggann í morgun.
„Frumkvæði Eflingar ber að fagna, eins og Dagsbrún tók frumkvæðið áður öðrum til hagsbóta,“ heldur Skúli áfram. „Hreyfingin er að vakna. Óhóflegan launamun verður að leiðrétta, kjör láglaunahópa verður að laga. Styrkja þarf betur lagaumhverfi óhagnaðardrifinna húsleigufélaga í þágu launafólks, á kostnað hagnaðardrifinna félaga og leigusala auk annarra félagslegra úrræða.“
Skúli segir að færa megi rök fyrir því að láglaunahópur Eflingar hafi dregist verulega aftur úr öðrum hópum ASÍ, að viðbættum miklum húsnæðiskostnaði sem dregur enn úr ráðstöfunartekjum þessa fólks. Það sé hins vegar pólitískt vandamál sem enginn stjórnmálaflokkur hefur axlað ábyrgð á, á sama tíma og pólitísk áhrif verkalýðshreyfingarinnar fara dvínandi. „Við súpum seyðið af því. Félagslegra breytinga er þörf. Annars sýður upp úr í kjaradeilum og stéttaátökum sem ekki sér fyrir endann á,“ skrifar Skúli.
Og spyr svo: En hvað ber að gera?
Og svarar sér sjálfur: „Kjaradeila Eflingar og SA er í hörðum hnút sem ríkissáttasemjari verður að höggva á. Það gerir hann með miðlunartillögu sem tekur mið af sjónarmiðum deilenda og fer, ef má svo má segja, bil beggja að virtum hlutlægum ástæðum og öðrum samningum með mögulegri aðkomu ríkisvaldsins, þ.e. bókun um félagslegar úrbætur. Slíka tillögu kynnir sáttasemjari aðilum og leitar andmæla, sem hann metur eftir atvikum, til að tryggja lögbundið samráð áður en tillagan yrði í endanlegri mynd borin undir atkvæði félaga Eflingar annars vegar og SA hins vegar. Hvort atkvæðagreiðsla færi fram hjá sáttasemjara eða hjá félögunum sjálfum, undir eftirliti sáttasemjara, er samkomulagsatriði. Hitt er víst að samningsaðilum er skylt að láta síka atkvæðagreiðslu fara fram, þótt það standi ekki berum orðum í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, eins og sumir bókstafstrúarmenn í lögfræði vilja halda fram. Það er alveg skýrt, eðli málsins samkvæmt, að kjósa skal um miðlunartillögu sáttasemjara (óháð afstöðu Landsréttar um afhendingu kjörskrár), annars væri hlutverk hans markleysa og vinnurétturinn í uppnámi. Það er engum til góðs.“
Áður en kom að lausnunum dró Skúli upp þessa mynd: „Stéttaátök eru undirstaða félagslegra breytinga. Kjaradeila Eflingar við Samtök atvinnulífsins virðist stefna í hörðustu stéttaátök á íslenskum vinnumarkaði um áratugi. Deiluna má m.a. rekja til þess að hlutur daglauna í heildartekjum launafólks er lægri hér á landi en t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Fólk lifir þar mannsæmdi lífi af dagvinnutekjum. Þessi munur bitnar á láglaunafólki Eflingar sem ekki hefur yfirvinnu eða aðrar aukagreiðslur úr að moða. Óánægja kraumar og hitinn vex. Launataxtarnir eru of lágir, sniðnir að þörfum fiskvinnslunnar, þar sem bónusar og yfirvinna tryggja þokkalegar heildartekjur. Enn hjakkað í sama farinu, taxtalega séð.“