Kallar eftir nýrri miðlunartillögu frá Ástráði

Verkalýðsmál 22. feb 2023

„Það þarf að leiðrétta launa­töfl­ur Efl­ing­ar, til hags­bóta fyr­ir lægst launuðu hóp­ana, án þess að það hafi keðju­verk­andi áhrif á aðra hópa, enda er verka­lýðshreyf­ing­in sjálf að hluta til ábyrg fyr­ir því hvernig komið er,“ skrifar Skúli Thoroddsen, fyrr­ver­andi lög­fræðing­ur Dags­brún­ar og síðar fram­kvæmda­stjóri Starfsgreinasambandsins, í Moggann í morgun.

„Frum­kvæði Efl­ing­ar ber að fagna, eins og Dags­brún tók frum­kvæðið áður öðrum til hags­bóta,“ heldur Skúli áfram. „Hreyf­ing­in er að vakna. Óhóf­leg­an launamun verður að leiðrétta, kjör lág­launa­hópa verður að laga. Styrkja þarf bet­ur lagaum­hverfi óhagnaðardrif­inna hús­leigu­fé­laga í þágu launa­fólks, á kostnað hagnaðardrif­inna fé­laga og leigu­sala auk annarra fé­lags­legra úrræða.“

Skúli segir að færa megi rök fyr­ir því að lág­launa­hóp­ur Efl­ing­ar hafi dreg­ist veru­lega aft­ur úr öðrum hóp­um ASÍ, að viðbætt­um mikl­um hús­næðis­kostnaði sem dreg­ur enn úr ráðstöf­un­ar­tekj­um þessa fólks. Það sé hins veg­ar póli­tískt vanda­mál sem eng­inn stjórn­mála­flokk­ur hef­ur axlað ábyrgð á, á sama tíma og póli­tísk áhrif verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar fara dvín­andi. „Við súp­um seyðið af því. Fé­lags­legra breyt­inga er þörf. Ann­ars sýður upp úr í kjara­deil­um og stétta­átök­um sem ekki sér fyr­ir end­ann á,“ skrifar Skúli.

Og spyr svo: En hvað ber að gera?

Og svarar sér sjálfur: „Kjara­deila Efl­ing­ar og SA er í hörðum hnút sem rík­is­sátta­semj­ari verður að höggva á. Það ger­ir hann með miðlun­ar­til­lögu sem tek­ur mið af sjón­ar­miðum dei­lenda og fer, ef má svo má segja, bil beggja að virt­um hlut­læg­um ástæðum og öðrum samn­ing­um með mögu­legri aðkomu rík­is­valds­ins, þ.e. bók­un um fé­lags­leg­ar úr­bæt­ur. Slíka til­lögu kynn­ir sátta­semj­ari aðilum og leit­ar and­mæla, sem hann met­ur eft­ir at­vik­um, til að tryggja lög­bundið sam­ráð áður en til­lag­an yrði í end­an­legri mynd bor­in und­ir at­kvæði fé­laga Efl­ing­ar ann­ars veg­ar og SA hins veg­ar. Hvort at­kvæðagreiðsla færi fram hjá sátta­semj­ara eða hjá fé­lög­un­um sjálf­um, und­ir eft­ir­liti sátta­semj­ara, er sam­komu­lags­atriði. Hitt er víst að samn­ingsaðilum er skylt að láta síka at­kvæðagreiðslu fara fram, þótt það standi ekki ber­um orðum í lög­um um stétt­ar­fé­lög og vinnu­deil­ur, eins og sum­ir bók­stafstrú­ar­menn í lög­fræði vilja halda fram. Það er al­veg skýrt, eðli máls­ins sam­kvæmt, að kjósa skal um miðlun­ar­til­lögu sátta­semj­ara (óháð af­stöðu Lands­rétt­ar um af­hend­ingu kjör­skrár), ann­ars væri hlut­verk hans mark­leysa og vinnu­rétt­ur­inn í upp­námi. Það er eng­um til góðs.“

Áður en kom að lausnunum dró Skúli upp þessa mynd: „Stétta­átök eru und­ir­staða fé­lags­legra breyt­inga. Kjara­deila Efl­ing­ar við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins virðist stefna í hörðustu stétta­átök á ís­lensk­um vinnu­markaði um ára­tugi. Deil­una má m.a. rekja til þess að hlut­ur dag­launa í heild­ar­tekj­um launa­fólks er lægri hér á landi en t.d. ann­ars staðar á Norður­lönd­um. Fólk lif­ir þar mann­sæmdi lífi af dag­vinnu­tekj­um. Þessi mun­ur bitn­ar á lág­launa­fólki Efl­ing­ar sem ekki hef­ur yf­ir­vinnu eða aðrar auka­greiðslur úr að moða. Óánægja kraum­ar og hit­inn vex. Launataxt­arn­ir eru of lág­ir, sniðnir að þörf­um fisk­vinnsl­unn­ar, þar sem bónus­ar og yf­ir­vinna tryggja þokka­leg­ar heild­ar­tekj­ur. Enn hjakkað í sama far­inu, taxta­lega séð.“

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí