Katrín segir Eflingu ekkert hafa fram að færa á fundinum með sér

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í viðtali við mbl.is í dag að málflutningur eins og hjá Eflingu fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag, þar sem stór orð voru látin falla, þjóni engum tilgangi. Hún hafi hitt fulltrúa Eflingar í skamman tíma en þeir hafi ekkert haft fram að færa.

Þetta viðtal við Katrínu var tekið í kjölfar þess að Eflingarfélagar mótmæltu fyrir utan ráðherrabústaðinn í dag. „Þau stóðu þarna að mótmæla fyrir utan Ráðherrabústaðinn og ég var að tala við fjölmiðla. Þegar ég ætlaði að yfirgefa húsið þá voru þau komin á dyraþrepið svo ég ákvað bara að bjóða þeim inn í húsið ef þau ættu eitthvað vantalað við mig,“ segir Katrín í samtalinu við mbl.is. Hún bætti við að hún hafi „hlustaði á þeirra málflutning og svo kvöddumst við. Það var ekkert sem kom fram.“ 

Ríkisstjórnin og Katrín eru augljóslega pirruð yfir því að láglaunafólkið í verkfalli sé að mótmæla fyrir framan ríkisstjórnarfundinn. Hún sá sér þó fært að hitta hópinn þó að hún hafi ekki fundist neitt sem skipti máli kom fram á þeim fundi. Hinir ráðherrarnir flúðu af vettvangi strax og ríkisstjórnarfundinum var lokið.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í viðtali á visir.is eftir fundinn með forsætisráðherra að Eflingarfólk hafi sett fram kröfur sínar með skýrum hætti. Þau hefðu mótmælt miðlunartillögu Ríkissáttasemjara og bent á að með henni væri verið að hafa af Eflingarfólki samningsréttinn. Efling hafi farið fram á að forsætisráðherra beitti sér fyrir því að Ríkissáttasemjari stigi til hliðar og annar skipaður í hans stað. Efling hafi líka bent á hrikalega stöðu Eflingarfólks á leigumarkaðinum þar sem menn væru jafnvel að borga 70% af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu. Ríkisstjórnin yrði að setja leiguþak og leigubremsu til að stoppa þetta. Auk þess fóru Eflingarfélagar fram á það við forsætisráðherra að hún stigi fram strax í dag og krefðist þess við Samtök Atvinnulífsins að verkfallsbrotum yrði hætt þegar í stað.

Forsætisráðherra virðist hafa algjörlega stimplað sig út úr deilunni nema til þess að mótmæla mótmælum Eflingar. Hún segist hafa hlustað á Eflingu en „[Þ]að var ekkert sem kom fram“ á fundinum þó eflaust sé Sólveg því ósammála enda taldi hún upp fjölmarga þætti sem ríkisstjórnin gæti beitt sér fyrir til að liðka fyrir deilunni. Er því nokkuð ljóst að ekki er við neinu að búast frá ríkisstjórninni gagnvart réttlætiskröfum láglaunafólks.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí