Krefjast skilyrðislausrar uppgjafar Eflingar og treysta á ríkið

Samtök atvinnulífsins neita sem fyrr að taka þátt í kjaraviðræðum við Eflingu, samkvæmt fréttum Morgunblaðsins. Samtökin krefjast þess að Eflingarfólk leggi niður verkfallsvopnin og gangi auðmjúk að kröfum fyrirtækjaeigenda sem segjast ekkert ætla að bjóða sínu starfsfólki annað en það sem þeir sömdu við Starfsgreinasambandið fyrir jól. SA fer því í raun fram á skilyrðislausa upgjöf Eflingar. Ef Efling fallist ekki á viðræður á þeim forsendur megi verkföllin koma.

Eyjólfur Árni Rafnsson formaður Samtaka atvinnulífsins segir samtökin bundin af loforði sem Starfsgreinasambandinu var gefið, að Efling fengi engar launahækkanir umfram það sem samið var við SGS. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri samtakanna hefur áður haldið þessu fram. Og þar sem forysta Starfsgreinasambandsins hefur ekki neitað þessu má ætla að það sé í raun svo, að Starfsgreinasambandið, þar sem félagar Eflingar er um 47% félagsmanna, hafi samið um að ekki yrði gengið að kröfum Eflingar.

Auðvitað er ólíklegt að Samtökum atvinnulífsins verði að ósk sinni, að Efling gefist upp nú þegar verkföllin eru farin að bíta og kominn sáttasemjari sem virðist vera að setja sig inn í kröfur félagsins. Það mátti vel skynja á fjölmennum fundi Eflingar í Hörpu í gær að baráttuandi og sigurvissa verkafólksins vex eftir því sem verkföllin verða almennari og bíta fastar. Hópurinn upplifir að hann sé að senda út skilaboð um mikilvægi sitt í samfélaginu, að það sé óviðunandi að fólk sem heldur verðmætasköpun samfélagsins gangandi skuli ekki fá laun fyrir vinnu sína sem duga til framfærslu. Vaxandi verðbólga, og mun meiri en gert var ráð fyrir við undirritun samninga SGS, hefur líka gert þá samninga lakari í augum verkafólks. Og nú er líka sú tíð að uppgjör stórfyrirtækja eru birtast og þau sýna gríðarlegt góðæri í fyrirtækjarekstri og ríkulegar arðgreiðslur til eigenda, margfaldar á við það serm nemur kostnaði fyrirtækjanna af að ganga að kröfum Eflingar.

Og auðvitað reikna Samtök atvinnulífsins ekki með því að Efling gefist upp. Yfirlýsing Eyjólfs Árna í Morgunblaðinu í morgun er í raun um að Samtök atvinnulífsins ætla nú sem fyrr að treysta á ríkisvaldið til að stöðva verkföll og neyða Eflingarfólk til að sætta sig við kjarasamninga sem það átti enga aðild að.

Þrátt fyrir að þessi leið hafi tapast hingað til lifir vonin meðal forystu Samtaka atvinnulífsins. Fyrst treystu þau á ríkissáttasemjara sem gæti þaggað niður í Eflingu með miðlunartillögu, sem þó var engin málamiðlun heldur kröfur Samtaka atvinnulífsins ómengaðar. Þegar Efling neitaði að láta félagatalið af hendi og vann málið fyrir Landsrétti gáfust samtökin ekki upp heldur gæla við að samt sé hægt með þessum hætti að troða samningnum upp á Eflingu og stöðva verkföllin.

Ein leið er að Ástráður Haraldsson settur ríkissáttasemjari áfrýi úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar þrátt fyrir samkomulag Aðalsteins Leifssonar um að gera það ekki. Von Samtaka atvinnulífsins er að þá muni áratuga skipun ráðherra Sjálfstæðisflokksins í Hæstarétt skila árangri, þótt það hafi ekki gerst í tilfelli Landsréttar. Önnur leið sem Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrum Hæstaréttardómari hefur mælt fyrir er að halda því fram að þar sem miðlunartillagan hafi ekki verið felld sé hún þar með samþykkt, samningur kominn á og þar með friðarskylda og verkföllin ólögmæt. SA myndi þá höfða mál þessu til staðfestingar, kæra Eflingu fyrir ólögleg verkföll meðan að kjarasamningur er í gildi. Þessum hugmyndum er nú varpað út í samfélagið svo Samtök atvinnulífsins geti þrýst á þær og metið hvort mögulegt sé að fá stuðning valdafólks, þar með talinna dómara, við bann við verkföllum og að dæma samning SGS upp á Eflingu.

Ef ekki finnst lausn fyrir fyrirtækjaeigendur hjá dómsvaldinu treysta þeir á framkvæmda- og löggjafarvaldið, að lög verði sett á verkföll Eflingar. Þá yrði skipaður gerðardómur fólks sem myndi meira og minna fallast á kröfur fyrirtækjaeigenda.

Þetta er staðan í þessari kjaradeilu. Annars vegar er Eflingarfólk að fara fram á launahækkanir svo það komist nær því að eiga fyrir framfærslu. Þessar kröfur verða æ lágstemmdari í samanburði við vaxandi verðbólgu, aukinn hagvöxt og mikinn hagnað í fyrirtækjarekstri. Hinum megin eru fyrirtækjaeigendur sem líta ekki á þetta sem kjaradeilu heldur orrustu í stríði þeirra gegn verkfalls- og samningsrétti launafólks. Þetta sást t.d. í gær í grein Svanhildar Hólm Valsdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, fylgitungls Samtaka atvinnulífsins, þar sem þess var krafist að lög yrðu sett á Eflingu og lögum breytt svo að ríkissáttasemjari, undir stjórn fyrirtækjaeigenda, gæti stöðvað verkföll.

Í áróðri sínum hafa Samtök atvinnulífsins haldið því fram að forysta Eflingar sé ekki að sækja kjarabætur fyrir sitt fólk heldur knýja á um breytingar á þjóðskipulaginu. Eftir því sem deilunni vindur fram kemur í ljós að þessu er öfugt farið. Efling er að krefjast þess að fá krónur og aura en Samtök atvinnulífsins vilja nota þessa deilu til að brjóta niður samnings- og verkfallsrétt verkalýðsfélaga, sem er einmitt grundvallaratriði í því þjóðskipulagi sem við búum við.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí