Leigjendur styðja kjarabaráttu Eflingar

Verkalýðsmál 13. feb 2023

Stjórn Samtaka Leigjenda á Íslandi óskar félagsfólki Eflingar velfarnaðar í baráttu sinni. Meirihluti Eflingafélaga eru leigjendur og eiga ásamt öllum þegnum landsins að gera þá sjálfsögðu kröfu að geta látið enda ná saman um hver mánaðamót og að þeir séu ekki þrælar vinnuveitenda og leigusala.

Í ályktun stjórnar segir að láglaunafólk á leigumarkaði búi við vægast sagt hryllileg skilyrði á Íslenskum leigumarkaði. Samanburður við nágrannalöndin sýni að álag húsaleigu á lágmarkslaun á Íslandi er um það bil 60% meira en á hinum Norðurlöndunum.

Íþyngjandi húsnæðiskostnaður eignalausra leigjenda hefur farið stigvaxandi undanfarin ár en á sama farið lækkandi á meðal fasteignaeigenda, segir í ályktuninni. Þetta gerist á sama tíma og gegndarlausar hækkanir hafa verið á fasteignamörkuðum. Þessi þróun á fasteignamarkaði undanfarin ár leggst því hvað harðast á leigjendur, sem eiga nánast enga undankomu auðið af leigumarkaði og í það húsnæðisöryggi sem séreign hefur með sér.

Stéttarfélag verkafólks sem býr við þá láglaunastefnu sem rekin hefur verið hér um langt skeið sem og óheftan og trylltan leigumarkað á hvergi að hvika frá þeirri sjálfsögðu kröfu að fólk geti dregið fram lífið á mannsæmandi hátt.

„Samtök leigjenda styðja í hvívetna aðgerðir Eflingar, samninganefndar félagsins og forystu sem miðast að því að ná fram félagslegu réttlæti fyrir það ómissandi fólk sem heldur samfélaginu gangandi með vinnu sinni og striti. Fólk sem fórnar til þess heilsu og öryggi en hlýtur á sama tíma vandlætingu og skeytingarleysi frá ríkjandi samkrulli stjórnmála og fjármálaafla landsins,“ segir í ályktun stjórnar Samtaka leigjenda.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí