Náttúrustofa Vestfjarða skoðar lús á villtum laxi

Sjógöngufiskar og laxalýs í Jökulfjörðum var viðfangsefni Náttúrustofu Vestfjarða í rannsókn sem unnið var að sumarið 2021 með styrk frá Fiskræktarsjóði. Hægt var að fá fram upplýsingar um náttúrulegt sjávarlúsaálag með því að kanna álagið á svæði þar sem ekkert laxfiskeldi er til staðar segir Margrét Thorsteinsson landfræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða en hún er auk þess með annað verkefni í gangi um Arnarfjörð.

Á vef Náttúrustofu Vestfjarða segir Margrét að með því að bera saman slík grunngögn um náttúrulegt sjávarlúsaálag sem safnað er núna við gögn sem safnað verður í framtíðinni er betur hægt að segja til um hvaða áhrif aukið fiskeldi í Ísafjarðardjúpi hefur á sjávarlúsaálag á villtum laxfiskum í Jökulfjörðum.

Niðurstöður síðustu rannsóknar sýna að á þessu afskekkta svæði er fjöldi sjóbleikja svipaður og við Kaldalón. Engar fiskilýs fundust á þeim og laxalúsaálag var lítið. Það mældist lægra í Leirufirði en á öðrum svæðum á Vestfjörðum.

Laxalús er eitt af þeim vandamálum sem bent hefur verið á í tengslum við sjókvíaeldi á laxi en þetta er fjórða skýrslan sem Náttúrustofan gefur út um lúsasmit villtra laxfiska. Fram að þessu hafa aðeins verið gerðar rannsóknir á villtum laxfiski í nágrenni sjókvía. Því hefur ekki verði hægt að gera nægilega góðar samanburðargreiningar.

Margrét segir í viðtali við fréttastofu RUV, lýsnar geta valdið miklum skaða. „Þetta eru sníkjudýr á laxfiskum og þær nærast á þeim. Þær valda sárum sem í geta komist sýkingar.“
Þá er einnig tekið fram að lýsnar getir haft áhrif á atferli laxins, þannig að hann leitar í seltuminni sjó, og í árósa.

Náttúrustofa fékk annan styrk á síðastliðnu ári frá Umhverfissjóði sjókvíaeldis og er með í vinnslu verkefni um Arnarfjörð þar sem borin eru saman tvö svæði innan fjarðarins.

Margrét segir vöktunarverkefni Náttúrustofunnar á þessu ári ná til Patreksfjarðar, Tálknafjarðar, Dýrafjarðar og Kaldalóns á Vestfjörðum auk Seyðisfjarðar og Stöðvarfjarðar á Austurlandi.

Skýrsluna “Vöktun sjávarlúsa á villtum laxfiskum í Jökulfjörðum 2021” má finna https://nave.is/wp-content/uploads/2023/02/Voktun-sjavarlusa-a-villtum-laxfiskum-i-Jokulfjordum-2021.pdf.
Allar skýrslurnar er hægt að finna á heimasíðunni https://nave.is/documents (2018, 2019, 2021).

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí