Íslensku fiskimiðin viðkvæm fyrir hlýnun og súrnun – „þetta er stórhætta“

Stefán Jón Hafstein, erindreki um málefni hafsins í íslensku utanríkisþjónustunni, segir að stórhætta kunni að steðja að íslenskum fiskimiðum vegna hlýnunar og súrnunar sjávar.

Hlýnun í hafi hefur slegið söguleg met sem veldur því að Grænlandsís bráðnar með offorsi.

Þá gæti súrnun sjávar útrýmt loðnunni, uppistöðunni í fæðu efnahagslegs fjöreggs landsmanna, þorskinum.

Hagkerfi Íslendinga gæti verið í mikilli hættu, ekki síður en hagkerfi margra annarra þjóða vegna umhverfisbreytinga.

„Þetta er eitthvað sem ætti að fá ráðamenn til að fríka út,“ sagði Stefán Jón Hafstein í viðtali við Rauða borðið á Samstöðinni, spurður hvort stjórnvöld séu með opin augun vegna margvíslegra mögulegra sviðsmynda.

„Ég held að ráðamenn séu farnir að átta sig á að þetta er stórhætta. Þetta getur orðið óstöðvandi.“

Öfgakenndustu met í veðurfari, hæði hita- og kuldamet, falla nú víða um heim líkt og Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hefur rakið í fréttum Samstöðvarinnar í vikunni. Röskunin getur orðið margvísleg og fiskimið landsins sem gera Ísland að stórveldi eru næm fyrir umhverfisáhrifum líkt og margar aðrar auðlindir víða um heim.

Stefán Jón segir margt benda til að Íslendingar hafi misst fókus á mikilvægi sjávarútvegarins. Það sem sé að gerast í hafinu geti reynst okkur sem þjóð stórhættulegt og dýrkeypt.

Bráðnun Grænlandsjökuls hefur numið þúsund milljónum tonna á skömmum tíma. Leysingavatnið fer í sjóinn og myndar ferskvatn sem rennur á móti Golfstraumnum.

Burtséð frá framtíð fiskimiðanna getur enginn sagt fyrir um hvort hitastig uppi á landi kann einnig að snarbreytast sem myndi kalla á vendingu lífsskilyrða. Golfstraumurinn flytur til okkar hita suður úr höfum. Hann gæti hæglega teppst vegna bráðnunar Grænlandsíss.

Sjá viðtalið í fullri lengd við Stefán Jón hér:Rauða borðið 20 feb. – umhverfismál (youtube.com)

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí