Ein af niðurstöðunum sem Hagstofan hefur birt úr manntalinu 2021 er að nemendum sem vinna með námi hefur stórfjölgað frá 2011. Meðal nemenda eldri en 24 ára, það er almennt eftir grunnnám háskóla, fjölgaði þeim körlum sem unnu úr 63% í 78% og konum úr 59% í 75%

Alls voru 45.453 íbúar í námi í manntalinu 2021 og þar af voru 29.748 einnig í starfi. Hlutfall þeirra sem unnu með námi hækkaði á milli manntala 2011 og 2021, bæði í aldurshópnum 16 til 24 ára og á meðal þeirra sem eru 25 ára eða eldri. Jafnframt má sjá að í yngri hópnum vann hærra hlutfall kvenna með námi samanborið við karla. Hjá eldri hópnum er hlutfall starfandi nemenda jafnara á milli kynja en þó ívið hærra hjá körlum en konum. Hlutfall þeirra sem starfa með námi er mun hærra í eldri aldurshópnum en hjá þeim yngri.