Þúsundir mótmæltu á götum Lissabon um helgina þar sem krafist var bættra lífskjara. Það var gert þrátt fyrir nýlegt frumvarp sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda í Portúgal um leigubremsu og þjóðnýtingu á tómu húsnæði. Portúgal er eitt fátækasta land vestur Evrópu en verðbólga, hátt húsnæðis og leiguverð og lág laun eru að sliga almenning.
Neyðarástand á húsnæðismarkaði
Fasteignaverð í Portúgal hækkaði um 18,7% á síðasta ári sem er það hæsta sem sést hefur síðustu áratugina. Leiguverð hefur einnig hækkað og með rúmlega 8% verðbólgu verður það enn meira íþyngjandi. Þá hefur leigumarkaðurinn orðið mjög erfiður með fjölda þeirra íbúða sem leigðar eru til ferðamanna auk þess sem gríðarlegur fjöldi íbúða hefur staðið auður um langt skeið eða á 800.000 þúsund eigna í landinu. Ferðamannabrannsinn hefur tekið undir sig stóran hluta af því húsnæði sem með réttu ætti að vera fyrir íbúana. Um helmingur vinnuaflsins er með laun undir 157.000 isk á mánuði en lágmarkslaun í landinu eru undir 120.000 isk.
Fasteignaverð í Lissabon og öðrum borgum er svo hátt að láglaunafólk hefur ekki efni á að leigja auk þess sem húsnæði er af skornum skammti. Um algjört neyðarástand er að ræða.
Eftir mikinn þrýsting frá almenningi hafa stjórnvöld því lagt til aðgerðir sem eiga að létta undir með þeim.
Tillögur ríkisstjórnarinnar
Í samráðsgátt stjórnvalda má finna eftirfarandi tillögur:
Yfirvöld munu leyfa fólki að búa í atvinnuhúsnæði án tiltekinna leyfa.
Lagðar verða til fleiri lóðir undir húsnæði á viðráðanlegu verði.
Fjármagnstekjuskattur vegna útleigu lækkar úr 28% í 25%.
Ferli við leyfisveitingar til verktaka verði flýtt og þeir sem haldi ekki settum tímamörkum fái á sig sektir.
Ríkið mun grípa inn í og greiða leigu eftir þriggja mánaða greiðslufall leigjenda til að styrkja leigumarkaðinn. Allar útburðarbeiðnir eftir þriggja mánaða greiðslufall verði í umsjón ríkisins og kostað af ríkinu. Ríkið mun hins vegar innheimta húsaleiguna og grýpa til viðeigandi aðgerða ef um félagsleg vandamál er að ræða.
Ríkið mun veita húsaleigubætur að hámarki 30.600 isk til að styðja við fjölskyldur sem þurfa að greiða meira en 35% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað.
Aukið verður við félagslegt húsnæði en það veður meðal annars gert með því að afnema söluskatt fasteigna ef fólk selur ríkinu fasteignina sína. Þær eignir verða svo leigðar út á viðráðanlegu verði.
Veitt verður undanþága af hagnaði vegna niðurfærslu fasteignaveðlána fyrir aðal íverubústað eiganda eða barna þeirra. Bönkum verður einnig gert skylt að bjóða fasteignalán á föstu verðlagi.
Hætt verður að gefa út svokallaðar gullnar vegabréfsáritanir. Aðeins verður hægt að endurnýja þær ef húsin sem hafa verið keypt eru ætluð til aðalbúsetu eigendanna eða barna þeirra eða ef eignin er sett varanlega á leigumarkað.
Leigubremsa verður sett á nýja leigusamninga eða hækkanir á gömlum. Rökstyðja þarf hækkun leigu í samræmi við þær framfærsluhækkanir eða þær uppfærslur sem gætu hafa verið gerðar á samningstímanum. Taka má tillit til tveggja prósenta verðbólgu ECB eða European Central Bank
Ný staðbundin gistináttaleyfi til ferðamanna verða bönnuð nema á landsbyggðinni þar sem ekki er húsnæðisekla. Þau leyfi sem nú þegar eru í gildi verða endurmetin árið 2030 og svo á fimm ára fresti eftir það. Ef fólk færi eignir sínar yfir á almennan leigumarkað mun það njóta skattaafsláttar til ársins 2030.
Skiptar skoðanir meðal fólks
Þeir sem eru mótfallnir aðgerðunum segja þær vera árás á einkaréttinn og að þetta muni klárlega fæla frá fjárfesta. Félag farfuglaheimila í Portúgal sagði að aðgerðirnar myndu keyra fyrirtæki í ferðaþjónustu í kaf og fólk undrast einnig samráðsleysi.
Félög leigjenda voru ánægð með aðgerðirnar en húsnæðisöryggi í Portúgal er stjórnarskrárvarinn réttur fólks.
Forseti landsins Romão Lavadinho telur þær aðgerðir sem kynntar hafa verið jákvæðar en óttast að ríkisstjórnin taki sér of langan tíma að koma áætluninni í framkvæmd. „Við vonum að þetta sé ekki enn ein ákvörðunin sem tekur fimm eða tíu ár að framkvæma. Við vonum að þetta komi fljótt til framkvæmda, þannig að leigjendur og leigusalar geti notið góðs af þessum tillögum,“ sagði hann við SIC Notícias.
Frumvarpið er í almennu samráðsgátt stjórnvalda þar í landi til 10. mars.