Ríkið og fyrirtækin sviku fyrirheit sín

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR settist við Rauða borðið og lýsti hvernig mistekist hefði að setja ákvæði um verðbólgu inn í kjarasamningana sem gerðir voru fyrir jól. Þess í stað hafi verkalýðsfélögin neyðst til að skrifa undir samninga í góðri trú um að hið opinbera og fyrirtækin myndu hald aftur að sér um verðhækkanir. Það hafi ekki gengið eftir, þvert á móti. Ríki og sveitarfélög hafa hækkað gjöld og fyrirtækin sprengt upp verð á vöru og þjónustu svo nú étur verðbólgan upp kaupmáttinn.

Markmið verslunar- og iðnaðarmanna var að setja inn í þann grunn sem varð til við samninga Starfsgreinasambandsins einhverja vörn, ákvæði um að samningar yrðu lausir ef verðbólgan færi yfir tiltekið markmið. Meðan á samningum stóð var neysluvísitalan í 560,9. Ragnar Þór vildi fá ákvæði inn í samningana um að þeir yrðu lausir ef vísitalan færi yfir 598. Með öðrum orðum að þegar verðbólgan hefði hækkað um 6,6% yrðu samningar lausir. Á þessum tíma var miðað við spár um 5,6% verðbólgu á árinu 2023, svo þessi 6,6% hækkun var um það bil spár um hækkanir yfir allan samningstímann, frá nóvember 2022 til loka janúar 2024.

Þetta fékkst ekki í gegn. Ríkið og fyrirtækin lofuðu að beita aðhaldi á verðlag og það var skilningur samningsaðila að Seðlabankinn myndi ekki hækka vexti miðað við þær launahækkanir sem um var samið.

Ekkert af þessu gekk eftir. Ríkið hækkaði gjöld á bíla, bensín, áfengi og fleira sem fór beint út í verðlagið. Sveitarfélög hækkuðu gjaldskrár sínar. Og fyrirtækin hækkuðu verðlag langt umfram tilefni.

Niðurstaðan er að sú að verðbólga hérlendis er orðin svipuð og í mörgum ríkjum Evrópu þótt hér sé engin orkukreppa vegna innrásarinnar í Úkraínu. Og þrátt fyrir að hert greiðslumat hafi kælt niður fasteignamarkaðinn svo hann er hættur að knýja áfram neysluvísitöluna.

Neysluvístalan í febrúar fór í 577,3. Hún hefur hækkað um 2,9% á þeim þremur mánuðum sem liðnir eru af 15 mánaða samningstíma. 44% af verðbólgunni sem Ragnar Þór vildi hafa sem hæstu mörk eru farin út á 20% af samningstímanum. Ef verðbólgan verður áfram á sama hraða fram eftir ári eins og hún gerði í janúar og febrúar mun neysluvísitalan fara fram úr 598 í vor. Þótt það hægist á verðbólgunni mun vísitalan fara fram úr 598 í sumar. Og þá verða enn eftir fimm, jafnvel sex eða sjö mánuðir af samningstímanum. Laun verða óvarin fyrir verðbólgunni. Launafólk mun standa mun verr við lok samningstímans en við upphaf hans.

Seðlabankinn hækkaði vexti um 25 punkta á meðan verið var að semja í nóvember. Aftur um 50 punkta í febrúar. Og hann mun líklega hækka vextina um 100 punkta í mars. Hagdeildir bankanna eru þegar byrjaðar að krefjast þess, venja okkur við tilhugsunina. Þegar sest var að samningum í nóvember voru vextirnir 5,75%. Þeir geta verið komnir í 7,5% í mars.

Af þessu sést að þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar kjarasamningunum fyrir jól eru brostnar. En hvað getur verkalýðshreyfingin gert, sá hluti hennar sem gekk frá þessum samningum?

Ragnar segir að hreyfingin verði að mæta sameinuð til næstu samninga. Það megi ekki gerast aftur að hún láti semja við sig í pörtum.

En fram að því? Verðbólgan er nú svo til búin að éta upp allar aðgerðir ríkisvaldsins í tengslum við samningana og mun að óbreyttu verða búin með allar launahækkanir í sumar. Þarf ekki aðgerðir núna?

Fólk verður að rísa upp, segir Ragnar Þór. Hann segist lengi hafa varað við þessu ástandi sem er að skapast á mörgum heimilum þar sem greiðslubyrðin vex hratt og fólk er að lenda í erfiðleikum með að geta staðið í skilum. Og fram undan er snjóhengja þegar bankarnir munu breyta vöxtum á miklum fjölda íbúðalána sem voru með fasta óverðtryggða vexti til skamms tíma. Ragnar vísar til tíma búsáhaldabyltingarinnar og þegar hann ásamt fleirum stofnaði Hagsmunasamtök heimilanna.

Ragnar Þór verður á fundi Hagsmunasamtakanna í Iðnó í kvöld ásamt Vilhjálmi Birgissyni formanni Starfsgreinasambandsins, Ástu Lóu Þórsdóttur þingmanni Flokks fólksins, Guðmundi Hrafni Arngrímssyni formanni Samtaka leigjenda og Marinó G. Njálssyni, sem eins og Ragnar Þór stóð að stofnun Hagsmunasamtakanna á sínum tíma. Yfirskrift fundarins er: Heimilin í fyrsta sæti — Umræðufundur um stöðu heimilanna í boði Hagsmunasamtaka heimilanna

Viðtalið við Ragnar Þór má sjá og heyra í spilarnum hér að ofan. Hér má lesa grein Ragnars Þórs á Vísi: 598. Og hér má sjá upplýsingar um fundinn í Iðnó í kvöld eins og þær birtast á Facebook: Heimilin í fyrsta sæti.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí